Hoppa yfir valmynd
28. júní 2005 Forsætisráðuneytið

A-212/2005 Úrskurður frá 28. júní 2005

Úrskurður í málinu nr. A-212/2005

ÚRSKURÐUR

Hinn 28. júní 2005 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-212/2005:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 15. mars s.l., kærði […] synjun skólanefndar Landakotsskóla, dags. 9. mars s.l., um afhendingu á minnisblaði sem lagt hefði verið fram á fundi fulltrúa kennararáðs með skólanefnd hinn 28. janúar s.l.

Með bréfi, dagsettu 21. mars s.l., var kæran kynnt skólanefnd Landakotsskóla. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té í trúnaði afrit af því minnisblaði sem kæran laut að.

Í svari [A] skólastjóra Landakotsskóla dags. 20. apríl s.l. er staðfest að umrætt minnisblað hafi verið lagt fram á fundi skólanefndar 28. janúar s.l. Hins vegar hafi skólastjórinn ekki fengið afrit. Vísaði skólastjórinn á þrjá nafngreinda einstaklinga í skólanefnd sem lagt hefðu minnispunktana fram.

Úrskurðarnefndin ritaði skólanefnd enn bréf hinn 27. apríl s.l. og beindi því til hennar að taka kæruna til formlegrar afgreiðslu þannig að afstaða hennar kæmi fram. Þá var óskað eftir því að upplýst yrði hvort skólanefndin liti á umrætt minnisblað sem vinnuskjal. Ennfremur var beðið um að það yrði upplýst hvort skjalinu hefði verið fargað og þá á grundvelli hvaða heimildar. Bréf þetta var ítrekað hinn 17. maí og aftur 12. júní s.l.

Í svari skólastjórnar Landakotsskóla ses. dags. 14. júní s.l. kemur fram að kaþólska kirkjan hafi hætt rekstri skólans fyrir nokkru og hafi ný stjórn verið skipuð hinn 8. maí s.l. á stofnfundi sjálfseignarstofnunarinnar Landakots ses. Hafi skólastjórnin tekið við hlutverki skólanefndar. Á síðasta fundi stjórnar skólans 10. júní s.l. hafi einnig verið skipt um formann og ritara stjórnar. Þá segir í svarinu að erindi úrskurðarnefndar hafi verið tekið fyrir á fundi skólastjórnar 13. júní s.l. Þar hafi komið fram að umrætt skjal hafi ekki verið lagt fram af fulltrúum kennararáðs á fundi þeirra með skólanefnd 28. janúar s.l. Um hafi verið að ræða minnispunkta sem einn fulltrúi kennararáðs hafi sett niður á blað til að styðjast við í máli sínu, en því hafi ekki verið dreift meðal fundarmanna. Það sé mat skólastjórnar að umræddir minnispunktar falli ekki undir skjal sem stjórnvaldi hafi verið sent í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 og því sé ekki til staðar upplýsingaréttur samkvæmt 3. gr. laganna.

Svar skólastjórnar Landakotsskóla var sent lögmanni kærenda til umsagnar. Í umsögn hans dags. 23. júní s.l. er meðal annars bent á að fulltrúar skólanefndar hafi sýnt skólastjóra umrætt skjal. Þegar af þeirri ástæðu eigi skólanefnd með vísan til 2. mgr. 1. gr. upplýsingalaga, sbr. meginreglu 3. gr. sömu laga, að verða við þeirri kröfu að afhenda umrætt skjal.

Formaður og varaformaður úrskurðarnefndar voru fjarverandi við meðferð og úrskurð í máli þessu. Sæti þeirra tóku varamennirnir Skúli Magnússon og Símon Sigvaldason og var Skúli jafnframt settur til að stýra meðferð málsins og uppkvaðningu úrskurðar í því með bréfi forsætisráðuneytisins, dagsettu 27. júní sl.

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik í stuttu máli þau að lögmaður kærenda fór með bréfi til skólanefndar Landakotsskóla dags. 2. mars s.l. fram á að fá afhent afrit af minnispunktum sem kennararáð hefði lagt fram á fundi með skólanefnd 28. janúar s.l. Í minnispunktum þessum væri gróflega vegið að starfsheiðri kennara við skólann. Hinn 9. mars s.l. svaraði [A] skólastjóri og kvaðst ekki geta afhent umbeðið plagg. Fundur kennararáðs og hluta skólanefndar hefði verið haldinn án sinnar vitundar. Skólanefndarmenn hefðu komið að máli við sig hinn 31. janúar s.l. og sýnt sér umrædda minnispunkta en hann hefði ekki fengið afrit. Á fundi með kennararáði hinn 14. febrúar s.l. hefði hann einnig óskað eftir að fá afrit af minnispunktunum en ekki fengið. Ritari skólanefndar, sem hefði haft minnispunktana í sinni vörslu, segðist hafa fargað sínu eintaki.

Með bréfi, dags. 15. mars s.l., kærðu kærendur afgreiðslu formanns skólanefndar til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Kæran var send skólanefnd til umsagnar með bréfi dags. 21. mars s.l. Í svari skólastjórans dags. 20. apríl s.l. er vísað á þrjá nafngreinda skólanefndarmenn. Úrskurðarnefndin fór fram á það með bréfi dags. 27. apríl s.l. að kæran yrði lögð fyrir skólanefnd þannig að fram kæmi afstaða hennar. Voru þau tilmæli ítrekuð með bréfum17. maí og 12. júní s.l.

Í svari [B], nýskipaðs formanns skólastjórnar Landakots, dags. 14. júní s.l. kemur fram að erindi úrskurðarnefndar hafi verið tekið fyrir á stjórnarfundi deginum áður. Þar hafi komið fram að umræddir minnispunktar hafi ekki verið lagðir fram af fulltrúum kennararáðs á fundi þeirra með skólanefnd 28. janúar s.l. Að sögn þeirra tveggja manna sem væru í skólastjórn nú og hefðu verið í skólanefndinni á þessum tíma hefði einn fulltrúa kennararáðs haft minnispunktana til hliðsjónar til að styðjast við í máli sínu en þeim hefði ekki verið dreift meðal fundarmanna.

Þá kemur fram í bréfi skólastjórnar að ritari skólanefndar hafi staðfest ofangreint. Hún hefði skráð niður það á fundinum 28. janúar s.l. sem fram kom í máli fulltrúa kennararáðs en óskað þess í lok fundarins að fá afrit fyrrgreindra minnispunkta til að styðjast við. Þegar skólanefndin hefði hitt [A] skólastjóra að máli þremur dögum síðar hefði ritari ekki verið búinn með samantektina og hefði hún enn haft minnispunktana í sínum fórum. Hefði [A] fengið minnispunktana stuttlega til aflestrar.

Þá kemur fram í bréfi skólastjórnar að eftir að ritari skólanefndar hafði gengið frá fundargerð hefði hún fargað minnispunktunum. Þeir hefðu verið án yfirskriftar og ódagsettir samkvæmt upplýsingum hennar og teldi hún ekki að þeir hefðu verið lagðir fram á fundinum 28. janúar s.l. sem gagn í máli.

Fram kemur í bréfi skólastjórnar að þær athugasemdir sem ritari skólanefndar tók saman eftir fundinn 28. janúar s.l. hafi verið sendar [A] með tölvupósti 1. febrúar s.l. Þær hafi einnig verið birtar kennurum og m.a. ræddar á kennarafundi í skólanum 1. mars s.l.

Skólastjórnin kveðst að lokum líta svo á að umræddir minnispunktar séu ekki skjal í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga og því sé ekki til staðar upplýsingaréttur samkvæmt 3. gr. laganna.

Lögmaður kærenda átti þess kost að tjá sig um fyrrgreint bréf skólastjórnar. Í umsögn hans dags. 23. júní s.l. gerir hann þær athugasemdir við lýsingu málavaxta að fram hafi komið hjá [A] skólastjóra að hann hafi á fundinum með skólanefnd 31. janúar s.l. óskað sérstaklega eftir að fá afrit af umræddum minnispunktum en því hafi verið hafnað. Hafi hann í kjölfarið sent bréf til fundarmanna og ítrekað beiðni sína. Fylgir umsögninni afrit af því bréfi. Hinn 14. febrúar s.l. hafi skólastjóri og aðstoðarskólastjóri átt fund með kennararáði þar sem þeir óskuðu eftir að fá öll gögn sem lögð hefðu verið fram á fundinum 28. janúar s.l. Bókað svar hefði verið að gögnin væru í tölvu og hægt væri að prenta þau út og að þau yrðu afhent að fundi loknum. Af því hefði hins vegar ekki orðið. 23. febrúar hafi skólastjóra svo borist formlegt svar og hafi þá brugðið svo við að fulltrúar kennararáðs hafi ekki sagst geta orðið við beiðninni því minnispunktarnir hafi ekki verið vistaðir í tölvu.

Lögmaður kærenda kveður umbjóðendur sína byggja á því að lög nr. 66/1995 um grunnskóla eigi við um skólastjórn og skólanefnd Landakotsskóla. Skólanefnd skólans sé sérstakt stjórnvald. Fyrir liggi í málinu að fulltrúar skólanefndar hafi sýnt skólastjóra umrædda minnispunkta. Þegar af þeirri ástæðu eigi skólanefnd með vísan til 2. mgr. 1. gr. upplýsingalaga að verða við þeirri kröfu að afhenda umrætt skjal.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

Í máli þessu krefjast kærendur aðgangs að ódagsettum minnispunktum sem einn fulltrúa kennararáðs studdist við í umræðum á fundi með skólanefnd Landakotsskóla 28. janúar s.l. Á þessum fundi munu hafa verið ræddar umkvartanir sumra kennara í garð skólastjórnenda. Þá mun ritari skólanefndar hafa fengið minnispunktana afhenta eftir fundinn til að styðjast við þegar gerð yrði samantekt af fundinum. Hefur komið fram að ritarinn hafi fargað minnispunktunum að því loknu, en samantektin var síðar kynnt kennurum skólans.

Af hálfu skólastjórnar Landakotsskóla ses. er því ekki andmælt að umrædd starfsemi skólanefndar falli undir gildissvið upplýsingalaga, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna.

Samkvæmt framangreindu lögðu fulltrúar kennararáðs hvorki fram umrædda minnispunkta á fundinum 28. janúar s.l., dreifðu þeim, né óskuðu eftir því að um þá yrði bókað. Eins og málið liggur fyrir er þannig um að ræða vinnuplagg tiltekins fulltrúa kennararáðs, sem hann studdist við í viðræðum á fundi, og var það ekki lagt fram eða vísað til þess með öðrum hætti af hálfu kennararáðs. Geta þessir minnispunktar því ekki talist til málsgagna samkvæmt 3. gr. upplýsingalaga. Breytir engu þar um þótt ritari skólanefndar hafi fengið punktana til afnota til að auðvelda samantekt fundarins. Af þessu leiðir einnig að skólanefnd var ekki skylt að varðveita umrædda minnispunkta samkvæmt 22. gr. upplýsingalaga.

Samkvæmt þessu verður kröfu kærenda hafnað.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda á hendur skólastjórn Landakotsskóla ses. er hafnað.

Skúli Magnússon,settur formaður
Símon Sigvaldason
Sigurveig Jónsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta