Hoppa yfir valmynd
10. júní 2005 Forsætisráðuneytið

A-208/2005 Úrskurður frá 10. júní 2005

Úrskurður í málinu nr. A-208/2005

ÚRSKURÐUR

Hinn 10. júní 2005 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-208/2005:

Kæruefni

Með bréfi dags. 31. maí s.l. óskaði [...] eftir því við úrskurðarnefnd um upplýsingamál að hún tæki afstöðu til þriggja álitamála. Í fyrsta lagi hvort úrskurðarnefnd um upplýsingamál tæki til meðferðar kærur í málum sem því sem rakið er í bréfinu. Var þar um að ræða þá ákvörðun Samkeppnisstofnunar dags. 23. mars s.l. að veita [X] aðgang að svonefndum trúnaðarupplýsingum sem fram komu í ákvörðun samkeppnisráðs nr. 21/2004 en voru felldar út í þeirri útgáfu ákvörðunarinnar sem var aðgengileg almenningi. Kærandi og [B] kærðu þessa ákvörðun til áfrýjunarnefndar samkeppnismála en hún vísaði kærunni frá með úrskurði í máli nr. 9/2005 25. maí s.l. þar sem 9. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 ætti ekki við um málskot þetta. Í öðru lagi hvort reglur upplýsingalaga um frestun réttaráhrifa giltu í slíkum málum með tilliti til almennra sjónarmiða um lögjöfnun. Í þriðja lagi sagði í bréfi kæranda að væri svar úrskurðarnefndarinnar að hún tæki við kærum sem þessum þá væri máli áfrýjunarnefndar samkeppnismála nr. 9/2005 hér með skotið til hennar.

Niðurstaða

Bréf kæranda, dags. 31. maí s.l., er óvenjulegt að því leyti að kæran sem þar er borin fram er skilyrt því að úrskurðarnefnd um upplýsingamál svari tilteknum lögfræðilegum spurningum játandi. Þrátt fyrir þetta telur nefndin rétt að taka kæruna til umfjöllunar eins og hún væri skilyrðislaus.

Í 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er fjallað um valdmörk úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Þar er tekið fram að heimilt sé að bera synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt lögum þessum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurðar um ágreininginn. Hið sama gildi um synjun stjórnvalds um að veita ljósrit af skjölum eða afrit af öðrum gögnum. Í athugasemdum við 14. gr. frumvarps þess er varð að upplýsingalögum nr. 50/1996 segir m.a. svo: „Kæruheimildin er bundin því skilyrði að ágreiningur sé uppi um annað tveggja, skyldu stjórnvalds til þess að veita aðgang að gögnum eða skyldu þess til að veita aðgang í formi ljósrits af skjölum eða afrits af öðrum gögnum. Þetta þýðir að ákvörðun stjórnvalds um að fallast í öllu á beiðni um aðgang að upplýsingum sætir ekki kæru til úrskurðarnefndarinnar.“ Með vísan til þessara ummæla í lögskýringargögnum sem leiðir m.a. til þess að gagnálykta verður frá ákvæðum 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga er ljóst að ekki er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar um upplýsingamál ákvörðun stjórnvalds um að verða við beiðni um aðgang að gögnum. Þegar af þeirri ástæðu verður að vísa frá kæru [...] vegna þeirrar ákvörðunar Samkeppnisstofnunar, dags. 23. mars s.l., að veita [X] aðgang að tilteknum upplýsingum sem fram höfðu komið í ákvörðun samkeppnisráðs nr. 21/2004. Af sömu ástæðu fellur það ekki undir úrskurðarvald nefndarinnar að skera úr um hvort ákvæðum 18. gr. upplýsingalaga verði beitt með lögjöfnun um ákvörðun Samkeppnisstofnunar.

Úrskurðarorð:

Kæru [...] vegna ákvörðunar Sam-keppnis-stofnunar, dags. 23. mars s.l., er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Páll Hreinsson,formaður
Friðgeir Björnsson
Sigurveig Jónsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta