Nr. 51/2019 - Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 12. febrúar 2019 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 51/2019
í stjórnsýslumáli nr. KNU19010001
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 27. desember 2018 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 4. desember 2018, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu.
Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsmeðferð
Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 16. ágúst 2018. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum þann sama dag kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Þýskalandi. Þann 20. ágúst 2018 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Þýskalandi, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá þýskum yfirvöldum, dags. 28. ágúst 2018, synjuðu þau viðtöku kæranda þar sem honum hefði þegar verið veitt alþjóðleg vernd í Þýskalandi þann 21. október 2015. Þann 31. ágúst 2018 var beiðni um upplýsingar um stöðu kæranda beint til yfirvalda í Þýskalandi. Í svari frá þýskum yfirvöldum, dags. 19. október 2018 kom fram að kærandi hafi verið með gilt dvalarleyfi þar í landi frá 29. febrúar 2016 til 25. nóvember 2018. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun, m.a. þann 7. nóvember 2018, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað þann 4. desember 2018 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 11. desember 2018 og kærði kærandi ákvörðunina þann 27. desember 2018 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 9. janúar 2019, ásamt fylgigögnum. Þá bárust frekari gögn frá kæranda þann 21. janúar 2019 og 8. febrúar 2019.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að kæranda hefði verið veitt alþjóðleg vernd í Þýskalandi. Umsókn hans um alþjóðlega vernd yrði því ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi, sbr. a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Þýskalands ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá hefði kærandi ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar aðstæður væru fyrir hendi þannig að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hann fluttur til Þýskalands.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda er m.a. vísað til þess að í viðtölum hjá Útlendingastofnun hafi kærandi greint frá því að hann hafi orðið fyrir sprengingu í heimaríki, misst meðvitund í kjölfarið og vaknað í Tyrklandi. Kærandi hafi ekki náð sambandi við fjölskyldu sína eftir það. Kærandi kvaðst oft fá svima og verki í baki sem leiði niður í fætur þannig að hann eigi erfitt með gang. Þá hafi hann verki í ristli og finni fyrir sviða í maga og brjósti, hafi litla matarlyst og eiga erfitt með andardrátt vegna kvíða. Eftir sprenginguna hafi kærandi jafnframt átt erfitt andlega og hafi líðan hans síðan versnað í Þýskalandi sökum þess að þar hafi hann getað leitað til sálfræðings en ekki haft efni á nauðsynlegum lyfjum. Kærandi sé mjög hræddur, kvíðinn og eigi erfitt með svefn. Einnig kvaðst kærandi eiga engan að og að hann hugsi um að taka eigið líf. Í Þýskalandi hafi kæranda ekki liðið vel, þar hafi honum liðið eins og betlara, upplifað mikið hatur og fordóma ásamt því að hafa orðið fyrir ítrekuðu líkamlegu áreiti, hótunum og ofbeldi. Kærandi hafi m.a. orðið fyrir árás öfgahóps og hlotið alvarlega áverka. Þá hafi húsnæði hans í Þýskalandi verið óíbúðarhæft en það hafi verið mjög lítið, án heits vatns og rafmagns og mikið hafi verið af skordýrum. Hafi kærandi lagt fram myndir til stuðnings máli sínu. Fjárstuðningur þýskra stjórnvalda hafi jafnframt ekki dugað fyrir mat eða nauðsynlegum lyfjum ásamt því að ómögulegt hafi verið fyrir hann að fá vinnu. Þá hafi starfskona þýskra stjórnvalda sem hafi átt að aðstoða hann komið fram við hann af lítilsvirðingu og ekki sýnt vanda hans skilning. Eftir þessa reynslu sína kvaðst kærandi hafa orðið hræddur við Þjóðverja en lögreglan hafi ekkert vilja gera til að aðstoða hann eða vernda.
Kærandi gerir athugasemdir við að Útlendingastofnun hafi ekki metið hann í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Kærandi bendir á umsögn sálfræðings þar sem komi m.a. fram að hann glími við fjölþættan vanda í kjölfar áfalla sem hann hafi orðið fyrir og að ekki hafi enn dregið úr alvarleika þeirra einkenna sem séu mjög hamlandi fyrir líf hans. Þá hafi kærandi verið greindur með bland af [...] annars vegar og hins vegar [...] eftir fjölda heimsókna á Bráðasvið geðsviðs og Göngudeild sóttvarna. Kærandi taki ákveðin geðlyf og ljóst sé að hann muni njóta áframhaldandi meðferðar hjá sálfræðingi hér á landi. Það sé því skýrt samkvæmt alvarlegum og staðfestum andlegum veikindum kæranda að hann sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi ákvæðisins. Í forsendum ákvörðunar Útlendingastofnunar sé jafnframt ljóst að 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga sé virt að vettugi þar sem niðurstaða stofnunarinnar sé í hróplegu ósamræmi við gögn málsins. Tekur kærandi fram að jafnvel þó að fallast megi á það að mat skv. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga sé lögfræðilegs eðlis fremur en læknisfræðilegt hafi löggjafinn mælt fyrir um aðkomu sérfræðinga, s.s. sálfræðinga eða geðlækna. Telji kærunefnd sér fært að bæta úr þessum alvarlega ágalla á ákvörðun Útlendingastofnunar leggur kærandi áherslu á skyldu stjórnvalda sbr. 25. gr. laga um útlendinga og bendir á að eðli máls samkvæmt beri stjórnvöldum ekki einungis að afla gagna heldur einnig að taka tillit til þeirra við meðferð málsins.
Í greinargerð sinni gerir kærandi grein fyrir því að andúð, ógnanir og ofbeldi gagnvart flóttafólki og umsækjendum um alþjóðlega vernd hafi verið vandamál um allt Þýskaland undanfarin ár líkt og kærandi hafi kynnst af eigin raun og vísar til alþjóðlegra skýrsla máli sínu til stuðnings. Komi þar m.a. fram að flest brotanna séu tengd hægrisinnuðu öfgafólki og að þýsk stjórnvöld séu farin að skrásetja sérstaklega glæpi gegn flóttafólki, svo algengir séu þeir. Þá komi fram alvarlegar ásakanir á hendur þýskra stjórnvalda vegna skorts á rannsókn slíkra glæpa og að þýsk stjórnvöld hafi brugðist hlutverki sínu að vernda þessa hópa. Þá hafi hægrisinnaðir öfgahópar fengið byr undir báða vængi en Alternative Für Deutschland (AFD) sé nú orðinn þriðji stærsti flokkurinn á þýska þinginu.
Þá gerir kærandi grein fyrir inntaki og túlkun á ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, m.a. með hliðsjón af lögskýringargögnum. Af lögskýringargögnum við breytingarlög á lögum um útlendinga nr. 80/2016, sem hafi verið samþykkt í september 2017, sé ljóst að vilji löggjafans hafi staðið til þess að umsóknir einstaklinga um alþjóðlega vernd sem séu í sérstaklega viðkvæmri stöðu skuli ávallt teknar til efnislegrar meðferðar. Þá séu skilyrði reglugerðar nr. 276/2018, um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 varðandi sérstakar ástæður mun þrengri en kveðið sé á um í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 80/2016 um útlendinga. Hvergi sé að finna kröfur um hátt alvarleikastig erfiðleika, alvarlega mismunun, verulegar og óafturkræfar neikvæðar afleiðingar á andlega eða líkamlega heilsu eða að meðferð sjúkdóms sé aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki. Kærandi telji þessar kröfur ekki hafa stoð í lögum og gangi gegn lögmætisreglunni. Ljóst sé að kærandi hafi átt mjög erfitt uppdráttar í Þýskalandi, þar hafi hann búið við ófullnægjandi aðstæður og m.a. ekki fengið fullnægjandi heilbrigðisþjónustu og verið fórnarlamb fordóma, árása og mismununar. Að auki liggi ekki annað fyrir en að dvalarleyfi kæranda hafi runnið út í nóvember 2018 en tímabundin dvalarleyfi flóttafólks séu aðeins gefin út til þriggja ára í senn í Þýskalandi. Við endursendingu til Þýskalands sé hann því ekki með gilt dvalarleyfi og í ólöglegri dvöl, m.ö.o. hafi hann ekki virka alþjóðlega vernd þar í landi. Þótt kærandi kunni að eiga rétt til dvalarleyfis að nýju í Þýskalandi, telur kærandi að það yrði honum einstaklega þungbært að þurfa að fást við kerfið að nýju og alls ekki víst að hann hafi andlega getu til þess. Þá sé ljóst að slík endurnýjun geti tekið allt að nokkra mánuði og sé algjörlega óvíst hvort að lífsnauðsynleg meðferð standi kæranda til boða á þeim tíma. Kærandi gerir alvarlega athugasemd við það að Útlendingastofnun hafi ekki tekið afstöðu til þessarar málsástæðu í ákvörðun sinni. Með vísan til framangreinds beri íslenskum stjórnvöldum að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 36. gr. er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hafi umsækjandi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd eða annars konar vernd í öðru ríki eða ef hann, eftir að hafa dvalist í ríki þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum, gat óskað eftir því að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og, ef hann var talinn flóttamaður, fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins var kæranda veitt alþjóðleg vernd í Þýskalandi þann 21. október 2015. Að mati kærunefndar felur sú vernd sem kærandi nýtur í Þýskalandi í sér virka alþjóðlega vernd í skilningi a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda
Samkvæmt gögnum málsins er kærandi [...]. Samkvæmt fyrirliggjandi heilsufarsgögnum hefur kærandi glímt við ákveðin andleg veikindi og verið m.a. greindur með [...]. Þá glími kærandi við ákveðin líkamleg einkenni kvíða, s.s. höfuðverk auk maga- og meltingarvandamála. Fyrir liggur að kærandi hefur verið í meðferð við andlegum veikindum á geðsviði Landspítala. Þá er kærandi í reglulegri meðferð hjá sálfræðingi. Í komunótu frá Bráðaþjónustu geðsviðs dags. 5. nóvember 2018, kemur m.a. fram að kærandi sé ekki metinn í bráðri sjálfsvígshættu en sé í aukinni langvarandi sjálfsvígshættu.
Það er mat kærunefndar að gögn málsins, þ. á m. framlagðar komunótur, tíðni heimsókna hans á Bráðaþjónustu geðsviðs og viðtöl kæranda hjá Útlendingastofnun, beri með sér að heilsufar kæranda sé svo alvarlegt að hann teljist hafa sérþarfir sem taka þurfi tillit til við meðferð málsins og sé því í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.
Aðstæður í Þýskalandi
Kærandi hefur borið fyrir sig að aðstæður hans í Þýskalandi hafi verið óviðunandi, þar hafi lögreglan komið illa fram við hann, hann hafi búið við slæmar aðstæður og ekki haft aðgang að heilbrigðisþjónustu. Einnig telur kærandi að yrði honum gert að snúa aftur til Þýskalands yrði hann í ólöglegri dvöl þar sem hann sé ekki með gilt dvalarleyfi í landinu og að möguleg endurnýjun á dvalarleyfi í Þýskalandi yrði honum einstaklega þungbær vegna andlegrar heilsu hans.
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Þýskalandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:
• 2017 Human Rights Report – Germany (United States Department of State, 20. apríl 2018),
• Amnesty International Report 2017/18 - Germany (Amnesty International, 22. febrúar 2018),
• Asylum Information Database, Country Report: Germany (European Council on Refugees and Exiles, 31. mars 2018),
• Freedom in the World 2018 – Germany (Freedom House, 2. febrúar 2018),
• Report by Nils Muižnieks Commissioner for Human Rights of the Council Of Europe Following his Visit to Germany on 24th April and from 4 to 8 May 2015 (Council of Europe: Commissioner for Human Rights, 1. október 2015),• Upplýsingar af heimasíðu þýsku útlendingastofnunarinnar (www.bamf.de) og
• World Report 2018 – European Union (Human Rights Watch, 18. janúar 2018).
Í framangreindum skýrslum kemur m.a. fram að dvalarleyfi einstaklinga með réttarstöðu flóttamanns séu gefin út til þriggja ára og dvalarleyfi einstaklinga með viðbótarvernd til eins árs með möguleika á endurnýjun til tveggja ára, samtals þrjú ár. Í gögnum málsins kemur fram að þar sem grundvöllur endurnýjunar dvalarleyfis sé sá sami og veiting slíks leyfis fáist leyfið að jafnaði endurnýjað ef aðstæður einstaklingsins hafa ekki breyst. Einstaklingur með stöðu flóttamanns geti sótt um varanlegt dvalarleyfi að þremur árum liðnum og einstaklingur með viðbótarvernd að fimm árum liðnum frá því að hann kom til Þýskalands. Þá geta einstaklingar með alþjóðlega vernd í Þýskalandi sótt um ríkisborgararétt eftir átta ára löglega dvöl þar í landi. Ef skilyrði afturköllunar alþjóðlegrar verndar eru fyrir hendi tekur þýska útlendingastofnunin ákvörðun um afturköllun. Þótt alþjóðleg vernd sé afturkölluð leiðir það ekki sjálfkrafa til þess að viðkomandi þurfi að yfirgefa Þýskaland. Þurfa stjórnvöld að taka ákvörðun um stöðu hans og getur hann í kjölfarið fengið áframhaldandi dvalarleyfi þrátt fyrir að alþjóðlega verndin hafi verið afturkölluð. Þá er möguleiki fyrir einstakling með dvalarleyfi að kæra ákvörðun yfirvalda um að draga til baka dvalarleyfi hans.
Í framangreindum skýrslum kemur ennfremur fram að einstaklingar með alþjóðlega vernd í Þýskalandi eigi sama rétt á opinberri heilbrigðisþjónustu og þýskir ríkisborgarar en þeir þurfa að skrá sig í heilbrigðiskerfið. Sjúklingar þurfa almennt að greiða hluta af þeim kostnaði sem fellur til vegna þeirrar heilbrigðisþjónustu sem þeir njóta en frá því eru þó undantekningar, t.d. í þeim tilvikum þegar sjúklingar geta ekki greitt fyrir slíka þjónustu. Þá kemur fram í framangreindum skýrslum að einstaklingar með alþjóðlega vernd í Þýskalandi eigi sama rétt og þýskir ríkisborgarar til þess að fá nauðsynlega félagslega aðstoð, svo sem atvinnuleysisbætur, en þjónustan er bundin við búsetusvæði einstaklingsins sem getur þýtt að einstaklingar með alþjóðlega vernd verði að lúta ákveðnum skilyrðum varðandi búsetu. Þá kemur fram í framangreindum gögnum að glæpum gegn innflytjendum í Þýskalandi hafi fjölgað á undanförnum árum en nýlega hafi stjórnvöld gert aðgerðaráætlun til að sporna gegn fordómum þar í landi.
Ákvæði 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga
Í 3. mgr. 36. gr. laganna kemur fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því ríki sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Við túlkun á inntaki 42. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd jafnframt að líta verði til þess að ákvörðun aðildarríkis um brottvísun eða frávísun sem setur einstakling í raunverulega hættu á að verða fyrir pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu er í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. jafnframt 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.
Með vísan til umfjöllunar um aðstæður einstaklinga sem njóta alþjóðlegrar verndar í Þýskalandi er það niðurstaða kærunefndar að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi leiði ekki til brots gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þar sem kærandi nýtur alþjóðlegrar verndar í Þýskalandi telur kærunefnd að tryggt sé að hann verði ekki sendur áfram til annars ríkis þar sem líf hans eða frelsi kann að vera í hættu, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.
Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga
Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá segir í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.
Áður hefur verið greint frá aðstæðum kæranda. Af gögnum málsins er ljóst að kærandi glímir við nokkra andlega erfiðleika og þarf á heilbrigðisþjónustu að halda vegna þeirra. Það er þó mat kærunefndar, á grundvelli gagna málsins, að aðstæður kæranda teljist ekki til mikilla og alvarlegra veikinda, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Þá verður ekki séð af gögnum málsins að fyrir hendi sé ástæða í máli kæranda er varðar heilsufar hans sem sé svo einstaklingsbundin og sérstök að ekki verði framhjá henni litið, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga.Gögn málsins bera enn fremur ekki með sér að kærandi gangist undir meðferð hérlendis sem verði rofin með flutningi til Þýskalands. Líkt og að framan er rakið eiga einstaklingar með alþjóðlega vernd í Þýskalandi sama rétt á opinberri heilbrigðisþjónustu og þýskir ríkisborgarar. Telur kærunefnd ekki forsendur til annars, í ljósi þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um aðstæður í landinu, en að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að kærandi geti leitað aðstoðar vegna heilsufarsvandamála sinna þar í landi.
Í greinargerð kæranda kemur m.a. fram að hann hafi upplifað mikla fordóma og lent í ítrekuðu líkamlegu áreiti og ofbeldi í Þýskalandi ásamt því að hann hafi ekki búið í viðunandi húsnæði. Í ljósi skýrslna sem kærunefnd hefur kynnt sér er það mat nefndarinnar að kærandi geti leitað ásjár þýskra yfirvalda óttist hann um öryggi sitt þar í landi. Samkvæmt skýrslum um aðstæður í Þýskalandi njóta einstaklingar með alþjóðlega vernd þar í landi sama aðgangs að vinnumarkaði og þýskir ríkisborgarar og eiga auk þess rétt á félagslegri aðstoð, líkt og að framan er rakið. Þá hafa einstaklingar með alþjóðlega vernd aðgang að húsnæðismarkaðnum. Skýrslur um aðstæður í Þýskalandi bera með sér að ýmis atriði er lúta að stöðu einstaklinga með alþjóðlega vernd á húsnæðismarkaði hafi verið gagnrýnd, m.a. skortur á viðunandi húsnæði. Þó er ljóst af sömu skýrslum að félagsleg aðstoð standi einstaklingum með alþjóðlega vernd sem geta ekki staðið straum af kostnaði vegna húsnæðis til boða. Að mati kærunefndar bera gögn málsins ekki með sér að kærandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga.
Kærandi hefur jafnframt byggt á því að sérstakar ástæður séu fyrir hendi í máli hans þar sem dvalarleyfi hans í Þýskalandi sé runnið út. Samkvæmt framangreindum upplýsingum um aðstæður í Þýskalandi er grundvöllur endurnýjunar dvalarleyfis á grundvelli alþjóðlegrar verndar sá sami og veiting slíks leyfis og því fæst leyfið að jafnaði endurnýjað ef aðstæður einstaklings hafa ekki breyst. Í skýrslum um aðstæður í Þýskalandi er þess þó getið að endurnýjun slíkra leyfa hafi í einhverjum tilvikum tekið nokkrar vikur og jafnvel mánuði. Í ljósi framangreinds telur kærunefnd ljóst að kærandi geti sótt um og fengið endurnýjun á dvalarleyfi sínu í Þýskalandi að því gefnu að aðstæður hans hafi ekki breyst. Að mati kærunefndar eru aðstæður kæranda sem tengjast endurnýjun dvalarleyfis ekki þess eðlis að sérstakar ástæður séu fyrir hendi í máli hans.
Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 7. nóvember 2018 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 16. ágúst 2018.
Athugasemdir kæranda við ákvörðun Útlendingastofnunar
Svo sem fram hefur komið gerir kærandi ýmsar athugasemdir í greinargerð sinni við rannsókn og málsmeðferð Útlendingastofnunar. Meðal annars gerir kærandi athugasemd við það mat stofnunarinnar að kærandi teljist ekki einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga, auk þess sem ráða má af greinargerð kæranda að hann telji ákvæði reglugerðar nr. 540/2017, sbr. reglugerð nr. 276/2018, ekki eiga sér viðhlítandi stoð í lögum og ganga gegn lögmætisreglunni.
Tilvitnuð ákvæði reglugerðar nr. 276/2018 eru sett með stoð í 4. mgr. 36. gr. laga um útlendinga þar sem segir að ráðherra hafi heimild til að setja reglugerð um framkvæmd 36. gr. laganna. Löggjafinn hefur því framselt ráðherra vald til að útfæra framangreind ákvæði nánar og ljóst að reglugerðina skortir ekki lagastoð. Eins og að framan greinir hefur kærunefnd lagt einstaklingsbundið mat á umsókn kæranda og komist að niðurstöðu um að synja honum um efnismeðferð með vísan til ákvæða laga um útlendinga eins og þau hafa verið útfærð í reglugerð um útlendinga. Kærunefnd hefur metið kæranda í viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga en með vísan til ofangreindrar umfjöllunar telur nefndin ekki sérstakar ástæður skv. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga vera fyrir hendi til þess að umsókn hans um alþjóðlega vernd verði tekin til efnismeðferðar. Er niðurstaða í málinu byggð á túlkun kærunefndar á framangreindum ákvæðum og sjónarmiðum sem nefndin telur málefnaleg eins og að framan hefur verið lýst.
Frávísun
Samkvæmt gögnum málsins kom kærandi hingað til lands þann 16. ágúst 2018 og sótti um alþjóðlega vernd þann sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.
Samantekt
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.
Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Anna Tryggvadóttir
Þorbjörg Inga Jónsdóttir Árni Helgason