Mál nr. 100/2019 - Álit
ÁLIT
KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA
í máli nr. 100/2019
Hávaði frá sorprennu.
I. Málsmeðferð kærunefndar
Með rafrænni álitsbeiðni, dags. 10. október 2019, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B og stjórn húsfélagsins C, hér eftir nefndur gagnaðili.
Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.
Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags. 13. október 2019, athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 14. október 2019, og athugasemdir gagnaðila, dags. 16. október 2019, lagðar fyrir nefndina.
Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 12. febrúar 2020.
II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni
Um er að ræða fjöleignarhúsið D, alls 61 eignarhluta. Álitsbeiðandi er eigandi íbúðar á jarðhæð hússins en gagnaðilar eru húsvörður og hússtjórn. Ágreiningur er um úrræði vegna hávaða frá sorprennu hússins.
Kærunefnd telur kröfu álitsbeiðanda vera:
Að viðurkennt verði að loka verði sorprennu hússins eða önnur viðunandi lausn fundin vegna hávaða í íbúð álitsbeiðanda vegna sorprennunnar.
Í álitsbeiðni kemur fram að álitsbeiðandi hafi keypt íbúð sína í nóvember 2018. Snemma hafi komið í ljós að mikill hávaði stafi frá sorprennu sem liggi upp við svefnherbergi hans. Hann hafi þegar kvartað til húsfélagsins sem hafi lofað að lagfæra þennan galla. Þá hafi álitsbeiðandi ítrekað beiðni sína bæði við formann húsfélagsins sem og umsjónarmann hússins. Þeir hafi endurtekið að þetta yrði lagað. Það hafi þó enn ekki verið gert. Húseigendafélagið hafi einnig sent þeim bréf og þeir lofað að gera eitthvað til að lagfæra þetta.
Álitsbeiðandi búi við gífurlegan hávaða allan sólarhringinn vegna sorprennunnar. Sett hafi verið upp tilkynning í húsinu um að bannað sé að henda sorpi á kvöldin og nóttunni, án árangurs.
Álitsbeiðandi óski eftir því að fundið verði úrræði, svo sem að hljóðstig verði mælt, sorprennunni lokað eða einhver breyting gerð þannig að hann geti sofið á nóttunni.
Í greinargerð gagnaðila segir að frá því að álitsbeiðandi hafi flutt í húsið hafi hann barist fyrir því að fá lagfærða sorprennu hússins vegna hávaða sem berist inn í íbúð hans.
Gagnaðili hafi komið til móts við óskir hans og fengið blikksmíðameistara til að reyna að gera lagfæringar. Álitsbeiðandi hafi talið þær gagnslausar en gagnaðili ekki fundið önnur úrræði, enda hafi þetta verið vandamál frá byggingu hússins.
Í apríl 2018 hafi álitsbeiðandi leitað til Húseigendafélagsins og í framhaldinu hafi fulltrúi þess sent ábyrgðarbréf til húsfélagsins með óskum um lagfæringar. Gagnaðili hafi svarað með tölvupósti sem hafi ekki verið opnaður hjá Húseigendafélaginu og fulltrúi þess því sent annað samhljóða bréf með ábyrgðarpósti til húsfélagsins. Því hafi verið svarað með nýjum tölvupósti og símtali.
Gagnaðili vilji gjarnan gera lagfæringar en það sé vandséð hvað hægt sé að gera. Einnig verði að taka tillit til þess að framtíð sorprenna sé óljós með auknum kröfum um flokkun og meðferð sorps.
Í athugasemdum álitsbeiðanda segir að hávaðinn frá sorprennunni sé það mikill að hann heyrist í eldhúsinu, sem sé staðsett hinum megin í húsinu. Stundum sé hent í rennuna fimm til sjö sinnum á klukkustund. Álitsbeiðandi upplifi stöðugan hávaða og streitu. Hann sé með höfuðverk og háan blóðþrýsting.
Í athugasemdum gagnaðila segir að rætt hafi verið um sorprennuna á aðalfundi í lok apríl 2019 og niðurstaðan verið sú að mikill meirihluti vilji halda í hana eins lengi og unnt sé. Sorprennur séu þó úrelt fyrirbæri og tímaspursmál hvenær þeim verði lokað. Ekki hafi verið kvartað undan sorprennunni fyrr en nú.
III. Forsendur
Deilt er um hvernig bregðast skuli við hávaða í svefnherbergi í íbúð álitsbeiðanda, sem stafar frá sorprennu hússins. Ákvæði 4. töluliðar 13. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, kveður á um að eigendum beri skylda til að virða rétt og hagsmuni annarra eigenda við hagnýtingu sameignar. Í málinu er óumdeilt að mikill hávaði er frá sorprennu hússins og mestur í íbúð álitsbeiðanda á jarðhæðinni. Notkun sorprennu hússins raskar svefnfriði í íbúð álitsbeiðanda vegna staðsetningar hennar við hlið svefnherbergis. Samkvæmt bréfi gagnaðila til Húseigendafélagsins, dags. 16. apríl 2019, hafa verið settar reglur um að ekki megi nota sorplúgur á kvöldin og/eða nóttunni. Fram kemur að því sé erfitt að framfylgja þrátt fyrir „áminningu um sorplúgureglur á auglýsingatöflur í anddyri hússins.“ Gagnaðili hafi fengið blikksmíðameistara til að reyna að gera lagfæringar. Hann hafi fest stút sem beinir ruslinu í ruslagámana og talið að ekki væri mögulegt að gera meira. Gagnaðili vilja gjarnan bregðast við vandanum en vandséð sé hvað hægt sé að gera.
Álitsbeiðandi segir að reglunni hafi ekki verið fylgt og ekki sé búandi í íbúðinni við núverandi ástand.
Kærunefnd bendir á að það sé húsfundar að taka ákvörðun um hvort fjarlægja beri sorprennu hússins eins og krafa álitsbeiðanda stendur til. Áður en til þess kemur að leggja slíka tillögu fyrir húsfund væri eðlilegt út frá reglum um meðalhóf að beina kröfu til eigenda að virða þær reglur sem settar hafa verið um bann við notkun á sorplúgunum á kvöldin og um nætur. Í því sambandi væri rétt að benda á að brot á reglunum kynni að leiða til kröfu um algjört bann við notkun þeirra eða eftir atvikum bann við notkun á lúgum efri hæða. Jafnframt telur kærunefnd að stjórn húsfélagsins beri að fá skriflegt álit fagaðila um það hvort unnt sé að bregðast við þessum vanda og ef svo er hvernig.
IV. Niðurstaða
Það er álit kærunefndar að hafna beri kröfu álitsbeiðanda um að sorprennu hússins verði lokað að svo stöddu.
Reykjavík, 12. febrúar 2020
Auður Björg Jónsdóttir
Valtýr Sigurðsson Eyþór Rafn Þórhallsson