Hoppa yfir valmynd
11. febrúar 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 45/2002

Mál nr. 45/2002

Þriðjudaginn, 11. febrúar 2003

A

gegn

svæðisvinnumiðlun B

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Jóhanna Jónasdóttir læknir og Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri.

Þann 19. júlí 2002 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A.

Kærð var ákvörðun svæðisvinnumiðlunar B um rétt kæranda til atvinnuleysisbóta. 

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Kærandi hóf fæðingarorlof þann 6.10.2001 vegna stúlkubarns sem hún ól þann 26. okt. 2001. Þann 10. maí fer hún fram á að fá atvinnuleysisbætur þegar að fæðingarorlofi lýkur. Í kjölfarið er henni tjáð að hún hafi rétt á 40% bótum, en eigi einnig rétt á geymdum bótarétti. Kærandi er ósátt við þessa ráðstöfun. Hefur haft fullt fæðingarorlof og telur að það eigi að vera grundvöllur við mat á þessu samanber 2. mgr. 14. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingarorlof. Hér með er óskað eftir áliti yðar á því hvort það sé í samræmi við ofangreint ákvæði að fæðingarorlof sé ekki metið beint til réttinda við ákvörðun á atvinnuleysisbótum.“

Með bréfi, dags. 21. ágúst 2002, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð svæðisvinnumiðlunar B.

Í bréfi svæðisvinnumiðlunar B til úrskurðarnefndarinnar, dags. 23. ágúst 2002, kemur fram að beiðnin hafi verið framsend Vinnumálastofnun. Í bréfinu segir m.a.:

„Hvað varðar útreikning á bótarétti A er stuðst við framlögð gögn af hennar hálfu. Einungis er hægt að meta til bótaréttar starfstíma hennar hjá D ehf., tímabilið 15.05.01-06.10.01. á grundvelli 1. mgr. 8. gr. laga nr. 12/1997 um atvinnuleysistryggingar. Hámarksbætur greiðast þeim sem hafa verið í fullu starfi síðustu tólf mánuði. Sé því skilyrði ekki fullnægt lækkar bótafjárhæð í hlutfalli við starfstímabil og starfshlutfall á síðustu tólf mánuðum þar til lágmarksbótarétti er náð. Það skal tekið fram að A var hvött til að leggja fram frekari gögn vegna starfstímabila sinna.

Ekki var möguleiki á að meta skólavist hennar til starfstíma, skv. 3. mgr. 8. gr. l. nr. 12/1997, þar sem hún var nemandi við skólann einungis á vorönn 2002 en til að fá skólavist metna til starfstíma þarf viðkomandi að hafa stundað skólanám á síðustu tólf mánuðum í ekki skemmri tíma en sex mánuði og lokið námi eða einsýnt þykir að hann hafi hætt námi og skal þá reikna honum 13 vikur vegna námsins til viðbótar vinnuframlagi hans.“

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar er dags. 7. október 2002, þar segir m.a.:

„Með bréfi dags. 23. ágúst sl. framsendi svæðisvinnumiðlun B til Vinnumálastofnunar beiðni úrskurðarnefndar í fæðingar- og foreldraorlofsmálum um greinargerð varðandi útreikning atvinnuleysisbóta að loknu fæðingarorlofi.

Lög um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 kveða á um rétt einstaklinga sem verða atvinnulausir til atvinnuleysisbóta. Í 3. gr. laganna segir að sá sem hverfur af vinnumarkaði vegna fæðingarorlofs haldi áunnum bótarétti fyrir töku fæðingarorlofs í allt að 24 mánuði. Lög um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 kveða á um rétt foreldra til greiðslna í fæðingarorlofi. Í 2. mgr. 14. gr. laganna segir að fæðingarorlof reiknist til starfstíma við mat á rétti til atvinnuleysisbóta. Komið hefur upp ágreiningur um hvernig fæðingarorlof skuli metið við útreikning á atvinnuleysisbótum og er það tilefni greinargerða þessarar.

3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kveður á um geymdan bótarétt og hljóðar svo: „Sá sem uppfyllir skilyrði um bótarétt en hverfur af innlendum vinnumarkaði af ástæðum sem valda því að ekki ber að skila af launum hans tryggingagjaldi heldur í allt að tuttugu og fjóra mánuði, frá því að hann hvarf af vinnumarkaði, þeim bótarétti sem hann hafði áunnið sér. Að tuttugu og fjórum mánuðum liðnum fellur réttur hans samkvæmt þessari grein að fullu niður. Með sama hætti skal farið með þann sem tekur að stunda hlutastarf eða hverfur af vinnumarkaði vegna töku fæðingarorlofs.[...].“

3. gr. kveður þannig á um geymdan áunnin bótarétt frá því fyrir töku fæðingarorlofs í allt að 24 mánuði. Áunninn bótaréttur fellur niður eftir 24 mánuði. Í greinargerð með lögunum segir að sérákvæði þriðju greinarinnar um fæðingarorlof sé nýmæli en ekki er kveðið nánar á um túlkun greinarinnar.

2. mgr. 14. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof hljóðar svo: „Fæðingarorlof reiknast til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, svo sem rétti til orlofstöku og lengingar orlofs samkvæmt kjarasamningum, starfsaldurshækkana, veikindaréttar, uppsagnarfrests og réttar til atvinnuleysisbóta.“

2. mgr. 14. gr. kveður þannig á um að fæðingarorlof skuli teljast til starfstíma m.a. við mat á rétti til atvinnuleysisbóta. Í greinargerð með lögunum segir að ákvæðinu sé ætlað að tryggja áframhaldandi uppsöfnun réttinda s.s. til atvinnuleysisbóta. Fæðingarorlof telst þá eins og hvert annað vinnutímabil með tilheyrandi uppsöfnun réttar til atvinnuleysisbóta.

Lög um atvinnuleysistryggingar hafa að geyma reglur um hvernig reikna skuli út rétt manna til atvinnuleysisbóta. Lágmarksréttindi til atvinnuleysisbóta skv. 4. mgr. 2. gr. laganna öðlast sá sem hefur á tólf mánaða tímabili unnið samtals í a.m.k. 10 vikur miðað við fullt starf en hlutfallslega lengri tíma ef um hlutastarf hefur verið að ræða. 8. gr. kveður nánar á um útreikning bóta. 1. mgr. 8. gr. laganna hljóðar svo: „Hámarksbætur greiðast þeim sem hafa verið í fullu starfi síðustu tólf mánuði. Sé því skilyrði ekki fullnægt lækkar bótafjárhæð í hlutfalli við starfstímabil og starfshlutfall á síðustu tólf mánuðum þar til lágmarksbótarétti er náð, [...]” Viðmiðunartími laganna við útreikning bótaréttar til atvinnuleysisbóta er því starfshlutfall umsækjanda síðustu tólf mánuði fyrir upphafsdag bóta.

Um rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði er kveðið á um í lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Lög um fæðingar- og foreldraorlof kveða annars vegar á um réttindi foreldra á vinnumarkaði til greiðslna úr sjóðnum og hins vegar réttindi foreldra utan vinnumarkaðar. Réttindi til greiðslna úr sjóðnum skv. 1. mgr. 13. gr. laganna öðlast foreldri eftir að hafa verið samfellt á vinnumarkaði í sex mánuði. Reglugerð nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks kveður nánar um þennan rétt. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. öðlast foreldri sem hefur verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs rétt til greiðslna úr sjóðnum. Reglugerðin hefur að geyma nánari reglur um útreikning greiðslan úr sjóðnum. 2. mgr. 2. gr. hljóðar svo. „Mánaðarleg greiðsla til foreldris skv. 1. mgr., sem er starfsmaður og leggur niður störf, skal nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.[...].” 4. mgr. 13. gr. laganna kveður á um greiðslur úr sjóðnum ef um hlutastarf hefur verið að ræða. 1. og 2. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar hefur að geyma nánari fyrirmæli um útreikning greiðsla foreldra í hlutastarfi. Við mat á starfshlutfalli skv. rgl. er miðað við fjölda vinnustunda foreldris á mánuði á sex mánaða samfelldu tímabili fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Hér á eftir verður reynt að greina mögulega kosti í stöðinni. Reglugerð um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000 hefur að geyma reiknireglur um mat á starfshlutfalli vegna greiðslna úr fæðingarorlofssjóði, sbr. 1. og 2. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar. Við útreikning starfshlutfalls vegna fæðingarorlofsgreiðslna segir að miða skuli við síðustu sex mánuði fyrir töku fæðingarorlofs. Almenna reglan við útreikning atvinnuleysisbóta er hins vegar síðustu tólf mánuðir sbr. 8. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 909/2000 segir enda að starfshlutfall foreldris sem fær greiddar atvinnuleysisbætur á þeim tíma sem um ræðir skuli miðast við það starfshlutfall sem tekið er mið af við útreikning atvinnuleysistryggingabóta.

Meginregla atvinnuleysistryggingalaga miða bótahlutfall við meðaltal starfshlutfalls á tólf mánaða tímabili fyrir umsókn. Ef náð er lágmarksstarfstíma skv. 4. mgr. 2. gr.. laganna fara bætur þó ekki undir ¼ af hámarksbótum, sbr. 1. mgr. 7. gr. laganna. Fæðingarorlofslög miða greiðslur úr sjóðnum við 80% af meðaltali heildarmánaðarlauna á tólf mánaða samfelldu tímabili sbr. 2. mgr. 13. gr. laganna. Lögin kveða einnig á um lágmarksgreiðslur á mánuði sbr. 4. mgr. 13. gr. Þessar greiðslur eru miðaðar við starfshlutfall sem ákvarðað er skv. 1. og 2. mgr. 5. gr. reglugerðar 909/2000, þ.e.a.s. eftir fjölda vinnustunda foreldris á sex mánaða samfelldu tímabili fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Samkvæmt fæðingarorlofslögunum skal fæðingarorlof reiknast til starfstíma við mat á rétti til atvinnuleysisbóta. Skipt getur máli við útreikning á réttindum til atvinnuleysisbóta hvort miðað sé við sex eða tólf mánaða tímabil fyrir töku fæðingarorlofs er starfshlutfall í fæðingarorlofi er ákveðið. Ef miðað er við 12 mánaða viðmiðunartímabil skv. lögum um atvinnuleysistryggingar myndi reiknað starfshlutfall foreldris í fæðingarorlofi sem verið hefur í 50% starfi síðustu sex mánuði fyrir töku fæðingarorlofs og 100% starfi sex mánuðina þar á undan reiknast 75%. Það sama væri upp á teningnum hefði foreldri verið í 100% starfi síðustu sex mánuði fyrir töku fæðingarorlofs og 50% starfi sex mánuði þar á undan. Ef aftur á móti miðað væri við reiknireglu 1. mgr. 5. gr. rgl. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði varðandi starfsmat þá munar verulega á þeim rétti sem aðilar ávinna sér til atvinnuleysisbóta. Í fyrra dæminu er fæðingarorlof metið til 50% starfshlutfalls í samræmi við 50% starf foreldris næstu sex mánuði fyrir töku fæðingarorlofs og bótahlutfall atvinnuleysisbóta væri samkvæmt þessu 50%. Í síðara dæminu var foreldri í 100% starfi sex mánuði fyrir fæðingarorlof og fengi samkvæmt því fæðingarorlof metið að 100% starfshlutfalli. Bótahlutfall atvinnuleysisbóta yrði 100%. Báðir þessir umsækjendur hafa þó skilað jafn miklu vinnuframlagi síðustu 12 mánuði á undan fæðingarorlofi.

Það er mat Vinnumálastofnunar að síðastgreind túlkun á starfsmati í fæðingarorlofi hvað varðar bótarétt úr Atvinnuleysistryggingasjóði sé óeðlileg. Um væri að ræða brot á jafnræði aðila sem skilað hafa jafn miklu vinnuframlagi síðustu 12 mánuði fyrir upphaf fæðingarorlofs. Meginregla laganna um atvinnuleysistryggingar miðar við starfshlutfall síðustu tólf mánuði fyrir umsókn, og ef um geymdan bótarétt er að ræða, síðustu tólf mánuði þar áður. Ef ætlan löggjafans hefði verið að breyta þessum viðmiðunartíma hefði þurft að kveða sérstaklega á um það í yngri lögunum eða greinargerð með þeim. Ekki er nægilegt að í yngri reglugerð komi fram aðrar reiknireglur um starfsmat, sér í lagi þar sem nefnd reglugerð fjallar fyrst og fremst um reiknireglur er varða greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en ekki Atvinnuleysistryggingasjóði. Að óbreyttri löggjöf mun Vinnumálastofnun því miða starfsmat í fæðingarorlofi við meðaltal starfshlutfalls síðustu 12 mánuði fyrir töku fæðingarorlofs.“

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 17. október 2002, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæran varðar ákvörðun svæðisvinnumiðlunar B um að taka ekki til greina við útreikning greiðslu atvinnuleysisbóta og ávinnslu réttinda á því tímabili þegar kærandi var í fæðingarorlofi.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Hlutverk úrskurðarnefndar er að kveða upp úrskurð um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laga þessara, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl).

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. ffl. öðlast foreldri rétt til greiðslna úr fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Kærandi málsins uppfyllti framangreint skilyrði í 1. mgr. 13. gr. ffl. og fékk greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði frá nóvember 2001 til og með apríl 2002. Þann 10. maí 2002 óskaði kærandi eftir greiðslu úr Atvinnuleysistryggingasjóði hjá svæðisvinnumiðlun B. Útreikningar Svæðisvinnumiðlunar voru á þann veg að kærandi var talin eiga rétt á 40% af óskertum atvinnuleysisbótum. Var þar eingöngu metinn til bótaréttar starfstími kæranda hjá D ehf. tímabilið 15. maí 2001– 6. október 2001.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 12/1997 um atvinnuleysistryggingar, sbr. lög nr. 47/1998, skal sá sem hverfur af vinnumarkaði vegna töku fæðingarorlofs halda áunnum bótarétti í allt að tuttugu og fjóra mánuði frá því að hann hvarf af vinnumarkaði.

Í lögum um fæðingar- og foreldraorlof er kveðið á um greiðslur til foreldris í fæðingarorlofi og jafnframt um réttarstöðu foreldris í fæðingarorlofi að öðru leyti.

Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. ffl. reiknast fæðingarorlof til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, svo sem réttar til atvinnuleysisbóta. Um ákvæðið segir í greinargerð að lagt sé til að fæðingarorlof reiknist til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, svo sem rétti til orlofstöku og lengingar orlofs samkvæmt kjarasamningum. Þá reiknist fæðingarorlof til starfstíma við mat á rétti til starfsaldurshækkana, veikindaréttar, uppsagnarfrests og réttar til atvinnuleysisbóta.

Með hliðsjón af framanrituðu telur úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála að reikna hafi átt fæðingarorlof kæranda til starfstíma við mat á rétti hennar til atvinnuleysisbóta. Ekki er talið að 3. gr. laga nr. 12/1997 breyti þeirri niðurstöðu enda víkur ákvæði í eldri löggjöf ekki til hliðar ákvæði 2. mgr. 14. gr. ffl.

Samkvæmt 16. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar, er heimilt að skjóta ákvörðun úthlutunarnefndar um atvinnuleysisbætur til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta, sbr. 17. gr. laganna.

Þótt talið sé samkvæmt framansögðu að ákvörðun svæðisvinnumiðlunar B brjóti gegn ákvæði 2. mgr. 14. gr. ffl., um að meta skuli fæðingarorlof kæranda til starfstíma, verður þeirri ákvörðun ekki hnekkt af úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála. Um er að ræða ákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta og fellur samkvæmt því utan valdsviðs nefndarinnar. 

ÚRSKURÐARORÐ:

Á því tímabili þegar A var í fæðingarorlofi ávann hún sér rétt til atvinnuleysisbóta. Að öðru leyti fellur málið utan valdssviðs úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála. 

 

 

Guðný Björnsdóttir

Gylfi Kristinsson

Jóhanna Jónasdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta