Hoppa yfir valmynd
18. febrúar 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 55/2002

Mál nr. 55/2002

Þriðjudaginn, 18. febrúar 2003

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Jóhanna Jónasdóttir læknir og Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri.

Þann 27. ágúst 2002 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra B f.h. A, dags. 21. ágúst 2002.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Með bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 12. ágúst 2002, var kæranda tilkynnt um synjun um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Meðfylgjandi eru afrit eyðublaða RSK 5.10 mánuðina janúar til maí 2002. Á þeim kemur fram að umsækjandi hefur með löglegum hætti gert skattstjóra grein fyrir því að hann hafi reiknað sér endurgjald fyrir vinnu sína umrædda mánuði. Fullyrðing TR að umsækjandi hafi ekki verið á vinnumarkaði umrædda mánuði er því röng. 

Þess er krafist að umsókn umbjóðanda míns verði tekin til endurákvörðunar enda hafi hann sýnt með ótvíræðum hætti að hann hafi verið á vinnumarkaði þá mánuði sem til viðmiðunar eru við greiðslur til hans úr Fæðingarorlofssjóði.

Lögum samkvæmt er launagreiðanda heimilt að efna til skuldar við innheimtumann ríkissjóðs vegna opinberra gjalda enda gera ákvæði í lögum ráð fyrir að ríkissjóði sé heimilt að reikna dráttarvexti af vangoldnum gjöldum. Synjun á fæðingarorlofi skv. 13. gr. nefndra laga er því út í hött. Meginatriði laga um fæðingarorlof er að tryggja foreldrum rétt en ekki að styrkja innheimtukerfi ríkissjóðs. Telji Tryggingastofnun að lagagrundvöllur sé til að synja um greiðslu vegna ógreidds tryggingagjalds ber stofnuninni að styðja það lagarökum. 

Umsækjandi hefur gert skil á tryggingagjaldi þ.e. lýst yfir skuld sinni við ríkissjóð vegna reiknaðs endurgjalds, en valið að greiða ekki um sinn og gjalda fyrir þá ákvörðun sína með greiðslu dráttarvaxta og hugsanlegs álags. Telji stofnunin að henni sé skylt að sinna störfum innheimtumanns ríkissjóðs ber henni einnig að styðja það lagarökum.

Þess er krafist að synjun Tryggingastofnunar ríkisins á greiðslu fæðingarorlofs til A verði hrundið og hann fái fæðingarorlof sitt greitt. Til vara er þess krafist að greitt verði fæðingarorlof en ógreitt tryggingagjald dregið frá og því skilað innheimtumanni ríkissjóðs geti Tryggingastofnun sýnt fram á skyldu sína í þessum efnum. Til þrautarvara er þess krafist að fæðingarorlof verði ákvarðað í samræmi við ákvæði laga en það skilyrt greiðslu tryggingagjalds sem umsækjandi myndi þá einfaldlega framvísa kvittun fyrir áður en útborgun færi fram.“

Með bréfi, dags. 10. september 2002, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 17. september 2002. Í greinargerðinni segir:

„Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi foreldris skal miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi fyrir sama tímabil.

Samkvæmt 3. mgr. 13.gr. skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til sjálfstætt starfandi foreldris nema 80% af reiknuðu endurgjaldi sem greitt hefur verið tryggingagjald af fyrir sama tímabil.

Bæði þessi lagaákvæði gera það að skilyrði, annars vegar fyrir því að eiga rétt á greiðslum, og hins vegar fyrir útreikningi á fjárhæð greiðslna, að gerð hafi verið skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi sjálfstætt starfandi foreldris. Óumdeilt er að þetta skilyrði er ekki uppfyllt í tilviki kæranda. Á meðan svo er hefur lífeyristryggingasvið ekki heimild til að verða við umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags.23. september 2002, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki. 

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. og 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi foreldris skal miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi fyrir sama tímabil, sbr. 2. ml. 1. mgr. 13. gr. ffl.

Um gildissvið ffl. segir í 1. mgr. 1. gr. laganna að þau taki til réttinda foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingar- og foreldraorlofs. Einnig segir að þau eigi við um foreldra sem eru starfsmenn eða sjálfstætt starfandi. Í 3. mgr. 7. gr. ffl. segir að sjálfstætt starfandi einstaklingur sé sá sem starfar við eigin rekstur án tillits til félagsforms í því umfangi að honum er gert að standa mánaðarlega eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda skil á tryggingagjaldi.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. ffl. skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Í 3. mgr. sömu lagagreinar segir að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til sjálfstætt starfandi foreldris skuli nema 80% af reiknuðu endurgjaldi sem greitt hefur verið tryggingagjald af fyrir sama tímabil, sbr. einnig 3. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK fyrir árið 2001 var reiknað endurgjald kæranda á árinu 2001 X kr. eða Y kr. á mánuði. Í staðgreiðsluskrá RSK fyrir árið 2002 kemur fram að skattstjóri lagði gjöld á kæranda á grundvelli áætlunar um reiknað endurgjald að fjárhæð Z kr. á mánuði tímabilið janúar til mars 2002. Skilagreinar kæranda fyrir janúar, febrúar og apríl 2002 um reiknað endurgjald Y kr. og staðgreiðsla og tryggingagjald í samræmi við þá fjárhæð eru mótteknar án greiðslu af tollstjóra þann 3. maí 2002. Skilagrein um reiknað endurgjald Y kr. í mars 2002 er aftur á móti stimpluð um greiðslu staðgreiðslu og tryggingagjalds þann 17. maí 2002. Áætlanir skattstjóra voru felldar niður og álagningu breytt miðað við mótteknar skilagreinar frá kæranda. Fyrir maí mánuð voru gjöld í fyrstu lögð á miðað við reiknað endurgjald Z kr. Skilagrein kæranda fyrir þann mánuð um reiknað endurgjald Y kr. var móttekin af tollstjóra án greiðslu 22. ágúst 2002. Í greinargerð dags. 30. apríl 2002 tilkynnti kærandi um töku fæðingarorlofs í júní og júlí 2002 og lýsti því jafnframt yfir að þá mánuði myndi hann ekki hafa önnur laun en fæðingarorlof. Óskaði hann eftir að vera felldur af skrá yfir launagreiðendur þá mánuði.

Barn kæranda fæddist 1. júní 2002. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt því er frá desember 2001 til og með maí 2002, sbr. 1. mgr. 13. gr. ffl. Samkvæmt framansögðu var kæranda gert af skattyfirvöldum að gera mánaðarlega skil á staðgreiðslu og tryggingagjaldi á því tímabili sem sjálfstætt starfandi einstaklingi. Verður því að telja hann uppfylla skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. um að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Samkvæmt 3. mgr. 13. gr. ffl. er reiknað endurgjald sem tryggingagjald hefur verið greitt af grundvöllur útreiknings greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi ekki greitt tryggingagjald vegna reiknaðs endurgjalds mánuðina janúar, febrúar, apríl og maí 2002. Á meðan málum er svo háttað er eigi grundvöllur til ákvörðunar greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Með vísan til þess er ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði staðfest. 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest. 

 

 

Guðný Björnsdóttir

Gylfi Kristinsson

Jóhanna Jónasdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta