Hoppa yfir valmynd
8. febrúar 2019 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Lói skapar gjaldeyristekjur

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem birtist í Morgunblaðinu 8. febrúar 2019.

Íslensk tónlist hefur notið mikillar velgengni bæði hérlendis sem erlendis. Grunnurinn að þeirri velgengni er metnaðarfullt tónlistarnám um allt land í gegnum tíðina, sem oftar en ekki er drifið áfram af framsýnu hugsjónarfólki. Þjóðin stendur í þakkarskuld við einstaklinga sem hafa auðgað líf okkar með tónlistinni og bæði gleður og sameinar.

Stjórnvöld hafa í gegnum tíðina stutt við eflingu tónlistarinnar bæði í gegnum stuðning við menntun og svo sértækar aðgerðir á borð við stofnun Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar, Útflutningssjóðs, lagasetningu um tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar tónlistar og stofnun Hljóðritasjóðs. Á síðasta ári var gerð hagrannsókn á tekjum tónlistarfólks og hagrænu umhverfi tónlistargeirans á Íslandi. Helstu niðurstöður hennar voru að heildartekjur íslenska tónlistariðnaðarins á árunum 2015-16 voru um það bil 3,5 milljarðar kr., auk 2,8 milljarða kr. í afleiddum gjaldeyristekjum til samfélagsins vegna komu tónlistarferðamanna til landsins. Ljóst er að þetta er umfangsmikill iðnaður á Íslandi sem drifinn er áfram af sköpun og hugviti.

Gott dæmi um vöxt og metnað í tónlistarstarfi má nefna starf Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands. Samhliða því að bjóða landsmönnum upp á glæsilega dagskrá í hartnær 25 ár hefur hljómsveitin einnig tekið upp tónlist fyrir ýmsar kvikmyndir og sjónvarpsþætti í menningarhúsinu Hofi undanfarin ár. Í Hofi er búið að gera framúrskarandi aðstöðu til að vinna og framleiða slíka tónlist. Sem dæmi um verk sem tekin hafa verið upp er tónlistin fyrir kvikmyndina Lói - þú flýgur aldrei einn, en það er eitt umfangsmesta tónlistarverkefni sem ráðist hefur verið í fyrir kvikmynd hér á landi. Það er ótrúlega verðmætt og mikil viðurkenning fyrir Ísland að okkar tónlistarfólk hafi burði til að verða leiðandi í kvikmyndatónlist á heimsvísu ásamt því að laða til landsins hæfileikaríkt fólk frá öllum heimsins hornum.

Það er mikilvægt að halda áfram að styrkja umgjörð skapandi greina í landinu. Stjórnvöld vilja að skapandi greinar á Íslandi séu samkeppnishæfar og telja nauðsynlegt að þær nái að dafna sem best. Mikilvæg skref hafa verið stigin í uppbyggingu menningarhúsa á landsbyggðinni en ljóst að þau hafa sannað gildi sitt víða um land og haft ótvíræð jákvæð margfeldisáhrif á tónlistar- og menningarlíf bæja og nærsamfélaga. Höldum áfram veginn og styðjum við skapandi greinar sem auðga líf okkar svo mjög.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta