Hoppa yfir valmynd
7. nóvember 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 522/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 7. nóvember 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 522/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19090008

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 17. september 2019 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 2. september 2019, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu.

Þess er krafist að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 21. mars 2019. Þar sem kærandi var með útgefna vegabréfsáritun til Frakklands, var þann 4. apríl 2019, send beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd til yfirvalda í Frakklandi, sbr. 2. eða 3. mgr. 12. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá frönskum yfirvöldum, dags. 28. maí 2019, samþykktu þau viðtöku kæranda á grundvelli 2. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 2. september 2019 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 3. september 2019 og kærði kærandi ákvörðunina þann 17. september 2019 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 25. september 2019 ásamt fylgigögnum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að frönsk stjórnvöld bæru ábyrgð á meðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Umsóknin yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Frakklands ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá hefði kærandi ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður væru fyrir hendi þannig að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hann fluttur til Frakklands.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi í viðtölum hjá Útlendingastofnun m.a. greint frá ástæðum flótta síns frá heimaríki. Þar hafi hann [...]. [...]. Hafi kærandi neyðst til þess að skilja við fjölskyldu sína er hann lagði á flótta. Kærandi vísar til greinargerðar sinnar til Útlendingastofnunar þar sem gerð hafi verið grein fyrir aðstæðum og réttindum umsækjenda um alþjóðlega vernd í Frakklandi, m.a. m.t.t. aðgengis að hæliskerfinu, húsnæðisvanda, varðhalds og aðstæðna í varðhaldsmiðstöðvum. Kærandi kvaðst ekki vilja fara aftur til Frakklands, honum líði ekki vel þar sökum tengsla landsins við [...]. Kærandi hafi þá greint frá því að hann eigi [...], en læknir hafi tjáð honum að hann væri mögulega með [...]. Þá greindi kærandi frá andlegri vanlíðan sem hann þjáist af, þ. á m. [...]. Telji kærandi umrædda erfiðleika vera afleiðingu atvika í heimaríki.

Í greinargerð sinni gerir kærandi athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar. Í fyrsta lagi telur kærandi margt benda til þess að hann sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu skv. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 25. gr. sömu laga. Í því sambandi vísar kærandi m.a. til ofangreindrar frásagnar hans af [...] í heimaríki. Kærandi vísar einnig til framlagðra heilsufarsgagna en í þeim komi m.a. fram að kærandi sé með [...]. Í skimunarlista sem kærandi hafi fyllt út hjá Útlendingastofnun komi m.a. fram að [...]. Í ljósi framangreinds telji kærandi ljóst að hann sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu og mati Útlendingastofnunar á stöðu hans sé því mótmælt. Í öðru lagi telji kærandi ekki öruggt að honum muni standa grunnnauðsynjar til boða í Frakklandi, sérstaklega m.t.t. húsnæðis, líkt og fram komi í ákvörðun Útlendingastofnunar. Vísar kærandi til umfjöllunar í greinargerð sinni til stofnunarinnar þar sem fjallað sé um húsnæðisvanda umsækjenda um alþjóðlega vernd í Frakklandi en margir umsækjendur neyðist m.a. til að gista á götum úti. Í Frakklandi sé aðeins ein mannúðar- og neyðarmóttökumiðstöð, PAUH (f. Permanence d‘urgence humanaitaire), sem taki á móti umsækjendum um alþjóðlega vernd við komu þeirra á flugvöllinn þegar þeir eru sendir til baka til landsins á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Miðstöðin njóti ekki fjárhagsstuðnings frá ríkinu og því sé alls óljóst hvort nægir fjármunir séu til staðar til að hýsa þá sem séu sendir til baka. Þá vísar kærandi enn fremur til niðurstöðu nýlegs dóms frá Þýskalandi þar sem fjallað hafi verið um aðstæður og aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd sem endursendir séu til Frakklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Beri framangreint með sér að ekki sé hægt að byggja á því að kæranda muni standa búsetuúrræði til boða í Frakklandi. Í þriðja lagi hafi Útlendingastofnun, við mat á sérstökum ástæðum skv. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, ekki framkvæmt heildarmat á einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda heldur aðeins litið til þröngra og afmarkaðra skilyrða 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með áorðnum breytingum. Telji kærandi að aðstæður hans séu svo einstaklingsbundnar og sérstakar að ekki verði framhjá þeim litið. Þá muni kærandi eiga erfitt uppdráttar í Frakklandi vegna alvarlegrar mismununar og sérþarfa vegna andlegra veikinda.

Kærandi byggir á því að líta beri til orðalags reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með áorðnum breytingum, þegar metið er hvort tilefni sé til að beita undantekningarákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og horfa eigi sérstaklega til samvinnu aðildarríkja Dyflinnarsamstarfsins og skilvirkni umsóknarferlisins þegar metið sé hvort beita skuli umræddu undantekningarákvæði. Kærandi telur, í ljósi þess álags sem sé á franska hæliskerfinu, að íslenska hæliskerfið sé betur til þess fallið að taka umsókn hans til efnismeðferðar.

Þá byggir kærandi á því að umsókn hans um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar hér á landi þar sem sérstakar ástæður séu uppi í máli hans, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í þeim efnum fjallar kærandi almennt um og gerir grein fyrir inntaki og túlkun á ákvæðinu, m.a. með hliðsjón af lögskýringargögnum og fyrri úrskurðum kærunefndar útlendingamála. Í því sambandi áréttar kærandi að margt bendi til þess að hann sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Vísar kærandi til úrskurða kærunefndar útlendingamála í málum nr. 550/2017, 552/2017, 583/2017 og 586/2017 í tengslum við mat á því hvenær einstaklingur teljist eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki. Kærandi kveður að við endursendingu muni staða hans vera mun verri en almennings og að hann muni sömuleiðis verða fyrir alvarlegri mismunun, líkt og þeirri sem kveðið sé á um í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 með áorðnum breytingum. Með vísan til alls framangreinds séu fyrir hendi slíkar sérstakar ástæður sem skylda íslensk stjórnvöld til að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef krefja má annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda. Í samræmi við samning ráðs Evrópusambandsins og Íslands og Noregs um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna samþykkti Ísland áðurnefnda Dyflinnarreglugerð, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/2014.

Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Ábyrgð Frakklands á umsókn kæranda er byggð á 2. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem kærandi hafi fengið útgefna vegabréfsáritun til Frakklands. Samkvæmt framansögðu er heimilt að krefja frönsk stjórnvöld um að taka við kæranda, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda

Kærandi er karlmaður á fimmtugsaldri sem er staddur einsamall hér á landi. Í viðtölum hjá Útlendingastofnun greindi kærandi m.a. frá [...] auk annarrar slæmrar meðferðar sem hann hafi mátt þola í heimaríki. Samkvæmt framlögðum heilsufarsgögnum, þ.e. samskiptaseðlum frá Göngudeild sóttvarna, á kærandi m.a. við [...] að stríða sem hann hafi fengið ávísað lyfjum við. Hann hafi þá fengið aðstoð og lyf vegna [...] og sótt tíma hjá sálfræðingi á Göngudeild sóttvarna í nokkur skipti.

Það er mat kærunefndar að gögn málsins, þ. á m. viðtöl við kæranda hjá Útlendingastofnun og framlögð heilsufarsgögn, beri ekki með sér að kærandi hafi sérþarfir í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga sem taka þurfi tillit til við meðferð málsins.

Aðstæður í Frakklandi

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd í Frakklandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

• 2018 Country Reports on Human Rights Practices – France (United States Department of State, 13. mars 2019),

• 4th quarterly activity report 2016 by Nils Muižnieks, Council of Europe Commissioner for Human Rights (1 October to 31 December 2016) (Council of Europe, 22. febrúar 2017),

• Amnesty International Report 2017/18 – France (22. febrúar 2018),

• Annual Report 2017 – Paris (International Committee of the Red Cross (ICRC), 13. júní 2018),

• Applying for asylum in France (Groupe d‘information et de soutien des immigrés, http://www.gisti.org. Síðast uppfært 5. september 2019),

• Asylum Information Database, Country Report – France (European Council on Refugees and Exiles, 20. mars 2019),

• France - Country report - Non-discrimination (European Commission, 21. nóvember 2018),

• First Steps for Demanding Asylum (Dom‘Asile, nóvember 2015),

• Freedom in the World 2019 – France (Freedom House, 2019),

• Guide for Asylum Seekers in France (Ministry of the Interior, General Directorate for Foreign Nationals in France, 1. nóvember 2015),

• Stjórnarskrá Frakklands (aðgengileg á ensku á vefsíðu stjórnlagaráðs Frakklands, http://www.conseil-constitutionnel.fr/),

• Universal Periodic Review. National report submitted in accordance with paragraph 5 of the annex to Human Rights Council resolution 16/21 – France (United Nations Human Rights Council, 13. nóvember 2017),

• Vefsíða innanríkisráðuneytis Frakklands (https://www.police-nationale.interieur.gouv.fr) og

• World Report 2019 – European Union (Human Rights Watch, 17. janúar 2019).

Í framangreindum gögnum kemur fram að þegar umsækjendur um alþjóðlega vernd eru sendir til Frakklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar fær umsókn þeirra hefðbundna meðferð í hæliskerfi landsins. Umsækjendur geta sótt um alþjóðlega vernd hjá stjórnsýslustofnun (f. Préfecture) eða þar til bærum undirstofnunum. Umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga rétt á viðtali hjá sérstakri stofnun (f. Office français de l’immigration et de l’intégration (OFII)) þar sem fram fer greining á því hvort umsækjandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu eða hafi sérstakar þarfir. Önnur stjórnsýslustofnun, OFPRA (f. Office français de protection des réfugiés et des apatrides), tekur svo efnisákvörðun í málinu. Umsækjendur sem hafa fengið synjun á umsókn sinni hjá OFPRA geta kært niðurstöðuna til sérstaks stjórnsýsludómstóls (f. Cour nationale du droit d’asile (CNDA)). Kæra til dómstólsins frestar almennt réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar, en dómstóllinn endurskoðar bæði málsástæður og lagarök í hverju máli. Niðurstöðu CNDA er hægt að áfrýja til héraðsdómstóls (f. Conseil d’Etat) þar sem fram fer formleg endurskoðun. Þeim umsækjendum sem synjað hefur verið um alþjóðlega vernd eiga möguleika á því að leggja fram viðbótarumsókn um alþjóðlega vernd. Ef nýjar upplýsingar eða gögn liggja fyrir í máli umsækjenda geta skilyrði viðbótarumsóknar verið uppfyllt. Þá eiga umsækjendur þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á umsókn um alþjóðlega vernd hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem brýtur í bága við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu.

Umsækjendur um alþjóðlega vernd í Frakklandi eiga almennt ekki rétt á lögfræðiaðstoð við að leggja fram umsókn sína. Þegar umsókn hefur verið lögð fram geta þeir þó óskað eftir gjaldfrjálsri lögfræðilegri aðstoð á grundvelli efnahags, en slíka beiðni skal leggja fram hjá þar til bærri skrifstofu hjá stjórnsýsludómstól. Umsækjendur geta einnig leitað aðstoðar hjá frjálsum félagasamtökum sem veita lögfræðilega aðstoð, þ. á m. í viðtölum umsækjenda hjá OFII og OFPRA. Þá eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd einnig rétt á lögfræðiaðstoð við áfrýjun neikvæðrar niðurstöðu þeirra til CNDA stjórnsýsludómstólsins, en slík aðstoð er í mörgum tilvikum gjaldfrjáls. Umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga einnig rétt á að því að hafa túlk viðstaddan málsmeðferðina, en það geti þó verið vandkvæðum bundið að fá túlkaþjónustu þegar um sjaldgæf tungumál er að ræða.

Í skýrslu Asylum Information Database frá 20. mars 2019 kemur fram að umsækjendur eigi möguleika á að fá húsaskjól í hefðbundnum móttökumiðstöðvum, CADA (f. Centre d‘accueil de demandeurs d‘asile) eða í tímabundnum miðstöðvum. Þeir sem eru endursendir til Frakklands geta leitað til móttökumiðstöðvanna AT-SA (f. Accueil temporaire – serivce de l‘asile), PRADHA (f. d’accueil et d’hébergement des demandeurs d’asile), CAO (f. Centre d’accueil et d’orientation) eða HUDA (f. hébergement d‘urgence dédié aux demandeurs d‘asile). Árið 2017 var einnig komið á fót tímabundnum úrræðum, CAES (f. centres d‘accueil et d‘examen de situation administrative), þar sem einstaklingar geta verið á meðan beðið er eftir úthlutun á gistirými í hefðbundnum móttökumiðstöðvum. Sökum mikils álags á hæliskerfinu í Frakklandi hefur þó reynst nokkur bið á því að umsækjendur komist að í móttökumiðstöðvum. Umsækjendur sem fá úthlutað gistirými í þessum miðstöðvum fá gefin út vottorð um búsetu (f. attestation de domiciliation) sem gildir í eitt ár, en slíkt vottorð gerir umsækjendum m.a. kleift að stofna bankareikning og fá greiðslukort. Fái umsækjendur ekki pláss í framangreindum miðstöðvum geti umsækjendur leitað til frjálsra félagasamtaka sem bjóða m.a. upp á lögfræðiaðstoð í tengslum við umsóknir um alþjóðlega vernd, líkt og áður kemur fram.

Í fyrrgreindum skýrslum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður og aðbúnað umsækjenda í Frakklandi kemur fram að umsækjendum um alþjóðlega vernd þar í landi er tryggður aðgangur að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu í frönskum lögum. Umsækjendur sem sæta hefðbundinni málsmeðferð hafa aðgang að heilbrigðisþjónustu á grundvelli sjúkratryggingakerfisins þar í landi (f. Protection Universelle Maladie (PUMA)) en þeir þurfa þó að sækja um aðgang að kerfinu. Jafnvel þótt umsækjendur séu ekki komnir með aðgang að sjúkratryggingakerfinu geti þeir engu að síður leitað til opinberra heilsugæslustöðva (f. Permanence d’accès aux soins de santé (PASS)) sem séu til staðar á öllum opinberum spítölum og fengið þar aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Á grundvelli PUMA eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd í Frakklandi einnig rétt á nauðsynlegri geðheilbrigðisþjónustu en í skýrslum kemur þó fram að dæmi séu um að læknar neiti að veita einstaklingum sem ekki tala frönsku þjónustu.

Framangreindar skýrslur bera þá með sér að heimilt sé að setja umsækjendur um alþjóðlega vernd í varðhald í Frakklandi en einungis að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, t.d. ef þeir hafa fengið synjun á umsókn sinni og talin sé hætta á að þeir muni koma sér undan brottvísun. Þá benda framangreind gögn jafnframt til þess að löggæsluyfirvöld í Frakklandi hafi yfir að ráða fullnægjandi úrræðum til að veita umsækjendum um alþjóðlega vernd aðstoð og vernd gegn einstaklingum sem þeir óttist.

Ákvæði 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 3. mgr. 36. gr. laganna kemur fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því ríki sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Við túlkun á inntaki 42. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd jafnframt að líta verði til þess að ákvörðun aðildarríkis um brottvísun eða frávísun sem setur einstakling í raunverulega hættu á að verða fyrir pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu er í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. jafnframt 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.

Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið byggt á því að sú meðferð sem einstaklingur á von á við brottvísun eða frávísun verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til að ákvörðunin verði talin brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans. Horfa verði til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar auk stöðu einstaklings hverju sinni, svo sem kyns, aldurs og heilsufars. Við mat á umræddu alvarleikastigi hefur dómstóllinn jafnframt litið til annarra þátta, t.d. hvort einstaklingurinn er í viðkvæmri stöðu, sbr. t.d. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Khlaifia o.fl. gegn Ítalíu (nr. 16483/12) frá 15. desember 2016. Í því sambandi hefur dómstóllinn lagt ákveðna áherslu á að umsækjendur um alþjóðlega vernd tilheyri jaðarsettum og viðkvæmum þjóðfélagshóp sem þurfi sérstaka vernd, sbr. t.d. dóm í máli Tarakhel gegn Sviss (nr. 29217/12) frá 4. nóvember 2012. Þrátt fyrir það verði 3. gr. mannréttindasáttmálans ekki túlkuð á þann hátt að í greininni felist skylda aðildarríkja til að sjá umsækjendum um alþjóðlega vernd fyrir húsnæði eða fjárhagsaðstoð sem geri þeim kleift að viðhalda ákveðnum lífskjörum, sbr. dóm í máli M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi (nr. 30696/09) frá 21. janúar 2011.

Með vísan til umfjöllunar um aðstæður og móttökuskilyrði umsækjenda um alþjóðlega vernd í Frakklandi er það niðurstaða kærunefndar að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd leiði ekki til brots gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Að mati kærunefndar bera gögn málsins jafnframt með sér að í Frakklandi sé veitt raunhæf vernd gegn því að fólki sé vísað brott eða það endursent til ríkja þar sem einstaklingar eiga á hættu að verða fyrir ofsóknum eða þar sem lífi þeirra og frelsi er ógnað. Í því sambandi hefur kærunefnd einkum litið til þess að gögnin benda til þess meðferð franskra stjórnvalda á umsóknum um alþjóðlega vernd sé með þeim hætti að lagt sé einstaklingsbundið mat á aðstæður einstaklinga. Þá benda öll gögn til þess að kærandi hafi raunhæf úrræði í Frakklandi, bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. jafnframt 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem tryggja að hann verði ekki sendur áfram til annars ríkis þar sem líf hans eða frelsi kann að vera í hættu, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt framansögðu kemur 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga ekki í veg fyrir að umsókn kæranda verði synjað um efnismeðferð.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá segir í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Aðstæðum kæranda hefur þegar verið lýst og telur kærunefnd að þær séu ekki þess eðlis að viðmið sem talin eru upp í dæmaskyni í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga eigi við í málinu. Í því sambandi hefur nefndin m.a. litið til þess að heilsufar kæranda sé ekki með þeim hætti að hann teljist glíma við mikil og alvarleg veikindi eða að aðstæður hans að því leyti séu svo einstaklingsbundnar og sérstakar að ekki verði framhjá þeim litið. Samkvæmt gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður í Frakklandi eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu samkvæmt frönskum lögum, þ. á m. geðheilbrigðisþjónustu.

Þá telur kærunefnd að gögn málsins beri ekki með sér að kærandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar eða að hann geti af sömu ástæðu vænst þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Hefur kærandi þá borið fyrir sig að hann vilji ekki snúa aftur til Frakklands vegna tengsla landsins við heimaríki kæranda. Kærunefnd telur ljóst, af þeim gögnum sem nefndin hefur kynnt sér, að í Frakklandi sé leyst úr umsóknum um alþjóðlega vernd á einstaklingsgrundvelli og að innan móttökukerfis vegna umsækjenda um alþjóðlega vernd viðgangist ekki ólögmæt mismunun á grundvelli þjóðernis.

Það er jafnframt mat kærunefndar að málsástæður kæranda að öðru leyti verði ekki taldar til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Vegna tilvísunar í greinargerð kæranda til úrskurða kærunefndar í málum nr. 550/2017, 552/2017, 583/2017 og 586/2017 tekur kærunefnd fram að ekki sé hægt að jafna stöðu kæranda í þessu máli við stöðu kærenda í framangreindum úrskurðum enda ekki um að ræða sömu viðtökuríki og aðstæður þeirra einnig ólíkar að öðru leyti.

Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 11. júní 2019 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 21. mars 2019.

Athugasemdir kæranda við hina kærðu ákvörðun

Svo sem fram hefur komið gerir kærandi ýmsar athugasemdir við hina kærðu ákvörðun, m.a. við beitingu og lagastoð reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 með áorðnum breytingum.

Eins og að framan greinir hefur kærunefnd lagt einstaklingsbundið mat á umsókn kæranda og komist að niðurstöðu um að synja honum um efnismeðferð með vísan til ákvæða laga um útlendinga eins og þau hafa verið útfærð í reglugerð um útlendinga. Er niðurstaða í málinu byggð á túlkun kærunefndar á framangreindum ákvæðum og sjónarmiðum sem nefndin telur málefnaleg en áður hefur komið fram í úrskurðum kærunefndar að reglugerðina skortir ekki lagastoð. Að mati kærunefndar er því ekki tilefni til frekari umfjöllunar um athugasemdir kæranda að þessu leyti.

Kærunefnd hefur farið yfir hina kærðu ákvörðun að öðru leyti og telur ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við hana. Hefur kærunefnd skoðað alla þætti málsins og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun.

Frávísun

Kærandi kom hingað til lands þann 19. mars 2019 og sótti um alþjóðlega vernd þann 21. mars 2019. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. gr. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi skal fluttur til Frakklands innan tilskilins frests, nema ákveðið verði að fresta réttaráhrifum úrskurðar þessa að kröfu kæranda, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Í máli þessu hafa frönsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Frakklands með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Kæranda er leiðbeint um að með úrskurði kærunefndar nr. 350/2019, dags. 28. ágúst 2019, ákvað nefndin að breyta framkvæmd varðandi afmörkun 12 mánaða tímabilsins sem vísað er til í 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Eins og fram kemur í úrskurðinum eru lok tímabilsins þegar fyrir liggur endanleg ákvörðun á stjórnsýslustigi vegna þess stjórnsýslumáls sem hófst með framlagningu umsóknar um alþjóðlega vernd. Þessi breytta stjórnsýsluframkvæmd leiðir til þess að þótt ekki komi til flutnings kæranda úr landi innan 12 mánaða frá upphafi málsins hefur það ekki þýðingu fyrir þann frest sem 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekur til. 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Áslaug Magnúsdóttir

Árni Helgason                                                                            Bjarnveig Eiríksdóttir  

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta