Hoppa yfir valmynd
30. apríl 2020 Dómsmálaráðuneytið

nr. 161/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 30. apríl 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 161/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20020005

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I. Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 292/2019, dags. 6. júní 2019, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 25. mars 2019, um að synja einstaklingi sem kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Úkraínu (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 19. júní 2019. Kærandi óskaði eftir frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar þann 26. júní 2019. Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa var synjað af kærunefnd þann 26. júlí 2019. Þann 26. júní 2019 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins. Með úrskurði kærunefndar, dags. 25. júlí 2019, var kröfu kæranda á máli hans hafnað. Þann 3. febrúar 2020 óskaði kærandi að nýju eftir endurupptöku málsins. Þann 29. apríl 2020 bárust kærunefnd frekari gögn frá kæranda.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II. Málsástæður og rök kæranda

Í beiðni kæranda um endurupptöku kemur fram að þann 1. júlí 2019 hafi dóttir kæranda, [...], fd. [...], einnig ríkisborgari Úkraínu, komið til Útlendingastofnunar ásamt kæranda og lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd. Þann 5. júlí 2019 hafi dóttir kæranda komið til viðtals hjá Útlendingastofnun ásamt talsmanni sínum og fulltrúa barnaverndar Hafnafjarðar. Það var niðurstaða Útlendingastofnunar að dóttir kæranda væri ekki fylgdarlaust barn heldur væri hér í fylgd með föður sínum. Þann 30. júlí 2019 hafi talsmaður dóttur kæranda óskað eftir því við Útlendingastofnun að kærandi fengi að koma til viðtals hjá stofnuninni í því skyni að greina frá því hvernig aðstæður dóttur hans hafi verið í heimaríki. Hafi Útlendingastofnun hafnað þeirri beiðni. Þann 17. september 2019 hafi Útlendingastofnun, með ákvörðun, synjað dóttur kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og synjað henni jafnframt um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Hafi ákvörðun Útlendingastofnunar verið kærð til kærunefndar útlendingamála sem hafi með úrskurði, þann 28. nóvember 2019, fellt ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka mál dóttur kæranda til nýrrar meðferðar. Kærandi vísar til þess að fram komi í úrskurði kærunefndar að brotið hafi verið gegn 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga við málsmeðferð dóttur hans, m.a. þar sem Útlendingastofnun hafi látið hjá líða að rannsaka frekar upplýsingar sem hún hafi veitt í viðtali hjá stofnuninni varðandi smáskilaboð sem hún hafi fengið send. Þegar ný meðferð á máli dóttur kæranda hafi hafist hjá Útlendingastofnun hafi talsmaður hennar óskað eftir því við stofnunina að tekið yrði viðtal við kæranda þar sem flótta dóttur hans frá heimaríki megi rekja til ástæðna hans fyrir flótta frá heimaríki þeirra. Þann 14. janúar 2020 hafi talsmaður kæranda fengið þau svör frá Útlendingastofnun að þar sem hann hefði ekki gilda umsókn hjá stjórnvöldum yrði ekki tekið viðtal við hann. Hafi talsmaður kæranda með tölvubréfi til Útlendingastofnunar þann 16. janúar 2020 spurst fyrir um það hvort kærandi gæti lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd að nýju. Þann 17. janúar 2020 hafi Útlendingastofnun gefið talsmanni kæranda þau svör að kæranda væri ekki kleift að leggja fram umsókn um alþjóðlega vernd að nýju sökum þess að ekki væri búið að ljúka umsókn hans frá 30. ágúst 2018 en stofnunin hefði undir höndum framkvæmdarhæfa ákvörðun um frávísun hans frá landinu. Með vísan til framangreinds hafi kærandi ekki átt annan kost en að leggja fram beiðni um endurupptöku máls hans hjá kærunefnd útlendingamála.

Vísar kærandi til ákvæðis 24. gr. stjórnsýslulaga sem kveður á um rétt aðila máls til að fá mál sitt endurupptekið eftir að stjórnvald hefur tekið íþyngjandi ákvörðun í því ef ákvörðunin hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum eða hafi byggst á atvikum sem hafi breyst verulega frá því að ákvörðun hafi verið tekin. Þá geti aðili átt rétt á endurupptöku máls í fleiri atvikum en ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga mæli fyrir um, ýmist á grundvelli lögfestra reglna eða óskráðra.

Fram kemur í beiðni kæranda um endurupptöku máls hans að úrskurður kærunefndar útlendingamála, dags. 28. nóvember 2019 í máli dóttur hans þar sem mál hennar hafi verið sent til nýrrar meðferðar hjá Útlendingastofnun hafi verið kveðinn upp eftir að máli kæranda hafi verið lokið hjá nefndinni. Kærandi vísar til þess að í máli dóttur hans hafi komið fram nýjar upplýsingar sem skipti máli fyrir mál hans enda séu mál þeirra óhjákvæmilega tengd. Kærandi telur að stjórnvöldum sé ekki stætt á að taka málsástæður dóttur kæranda til skoðunar án þess að taka mál kæranda til endurskoðunar en hann hafi ítrekað greint frá því að hann hafi ákveðið að senda eftir dóttur sinni þar sem hún sé í meiri hættu en áður. Þá hafi kærandi greint frá því að dóttir hans hafi ekki tök á því að greina sjálf frá því af hverju hún sé í hættu í heimaríki sínu. Kærandi vísar til þess að samkvæmt framkvæmd í málum barns í fylgd með foreldri sínu sé framburður foreldrisins grundvallaratriði við mat á verndarþörf barnsins en ekki framburður barnsins. Með beiðni um endurupptöku lagði kærandi fram afrit af greinargerð dóttur hans sem lögð hafi verið fram þann 3. febrúar sl. við síðari málsmeðferð hennar hjá Útlendingastofnun. Í greinargerð dóttur kæranda eru tilgreind gögn sem hún hafi lagt fram til stuðnings umsókn sinni um alþjóðleg vernd og meðal þeirra sé ljósmynd af áðurgreindum smáskilaboðum sem hún hafi fengið send. Þann 29. apríl 2020 lagði kærandi fram ýmis gögn og á meðal þeirra var ljósmynd af umræddum smáskilaboðum sem dóttir kæranda hafi fengið send, ljósmynd af smáskilaboðum sem fyrrverandi eiginkona hans hafi fengið send og ljósmynd af vegabréfi einstaklings sem kærandi kveði að hafi sent framangreind skilaboð. Í greinargerð dóttur kæranda kemur fram að í skilaboðum sem henni hafi borist hafi komið fram að sendandi skilaboðanna gæti ekki náð í kæranda og bæði hana um að koma þeim skilaboðum áleiðis til hans að hann hefði upplýsingar um að kærandi hefði undir höndum gögn sem gætu valdið vandræðum fyrir ákveðna ótilgreinda einstaklinga. Kærandi væri vinsamlegast beðinn um að eyða þessum gögnum. Þá kemur fram í greinargerðinni að framangreind skilaboð til fyrrverandi eiginkonu kæranda hafi verið af sama meiði og skilaboðin til dóttur hans.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda þann 6. júní 2019. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og því ætti hann ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga. Þá var beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans hafnað með úrskurði kærunefndar þann 25. júlí 2019. Fram kom m.a. í úrskurðinum að kærandi hafi byggt beiðnina á sömu málsástæðum og málsatvikum sem hann hafi byggt á og borið fyrir sig í kærumáli fyrir kærunefnd og hafi nefndin tekið afstöðu til þeirra málsástæðna í áðurnefndum úrskurði kveðnum upp 6. júní 2019.

Til stuðnings beiðni sinni um endurupptöku lagði kærandi fram afrit af greinargerð dóttur hans sem lögð var fram við málsmeðferð hennar hjá Útlendingastofnun þann 3. febrúar 2020. Í greinargerð má sjá að málatilbúnaður dóttur kæranda sé að meginstefnu til byggður á ástæðum kæranda fyrir flótta frá heimaríki. Þá má sjá að dóttir kæranda hafi lagt fram nokkur gögn sem lúta að málsástæðum kæranda en þar að auki hafi hún lagt fram ljósmynd af skilaboðum sem hún hafi fengið og talið fela í sér hótanir í garð hennar og fjölskyldu hennar.

Þann 17. apríl 2020 barst kærunefnd kæra frá dóttur kæranda á ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja henni um alþjóðlega vernd. Fram kom í ákvörðun Útlendingastofnunar að umsókn hennar sé byggð á því að hún og kærandi séu í hættu í heimaríki þeirra þar sem aðilar tengdir Viktor Yanukovych, fyrrum forseta Úkraínu, séu eftir á kæranda. Í ákvörðuninni má sjá að lögð hafi verið fram ljósmynd af vegabréfi einstaklings sem kærandi telji að hafi sent áðurnefndar hótanir til dóttur hans. Eins og áður segir lagði kærandi fram ljósmyndir af skilaboðum til dóttur hans og fyrrverandi eiginkonu og ljósmynd af vegabréfi einstaklings sem hann kveði að hafi sent framangreind skilaboð. Auk þess voru lögð fram gögn sem lágu fyrir í kærumáli kæranda og kærunefnd hefur tekið afstöðu til.

Í beiðni kæranda um endurupptöku byggir hann á því að fram hafi komið nýjar upplýsingar í máli dóttur hans sem skipti máli fyrir hann. Í beiðni kæranda er hins vegar ekki fjallað frekar um eða rökstutt sérstaklega að hvaða leyti hinar nýju upplýsingar hafi áhrif á mál kæranda. Kærunefnd telur að draga megi þá ályktun að kærandi telji að áðurnefnd skilaboð sem dóttir hans hafi fengið renni stoðum undir frásögn hans um að aðilar tengdir Viktor Yanukovych, fyrrum forseta Úkraínu, hafi staðið að baki ofsóknum gegn honum. Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð dóttur kæranda hafi efni skilaboðanna lotið að því að einhverjir ótilgreindir einstaklingar hefðu vitneskju um að kærandi hefði undir höndum skaðlegar upplýsingar í gögnum fyrir ákveðna einstaklinga og væri kærandi vinsamlegast beðinn um að eyða þessum gögnum. Af framangreindum skilaboðum verður ekki ráðið hvers efnis þessar upplýsingar séu eða fyrir hverja þær geti verið skaðlegar og hvort og hvernig þær tengist aðilum sem tengist fyrrum forseta Úkraínu. Þá hafa ekki verið lögð fram gögn sem styðja þá staðhæfingu kæranda að einstaklingur á ljósmynd sem kærandi hafi lagt fram hafi sent þessi skilaboð, og hvort eða hvernig hann tengist aðilum tengdum fyrrverandi forseta Úkraínu eða öðrum aðilum sem kærandi kveður að standi að baki ofsóknum gegn sér. Þrátt fyrir að færðar yrðu sönnur á að framangreind skilaboð hafi verið send af manni sem tengist aðilum tengdum fyrrverandi forseta Úkraínu þá er það mat kærunefndar að slíkar upplýsingar séu ekki þess eðlis að líta beri svo á að kærunefnd hafi í máli kæranda tekið ákvörðun sem hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða ákvörðunin hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að hún hafi verið tekin. Eins og fram kom í úrskurði nefndarinnar frá 6. júní 2019 var það mat nefndarinnar að þótt fallist yrði á að kærandi ætti á hættu að verða fyrir athöfnum sem jafngilda ofsóknum af hálfu aðila tengdum fyrrverandi forseta Úkraínu þá gæti kærandi leitað verndar gegn þeim athöfnum hjá úkraínskum stjórnvöldum. Enn fremur taldi kærunefnd ekki trúverðugt að úkraínsk stjórnvöld hefðu ekki vilja eða getu til að veita kæranda vernd gegn ofsóknum einstaklinga sem hafi staðið að baki [...], fyrirtækinu sem kærandi kveði að hafa svikið sig í viðskiptum og hann hafi átt þátt í að opinbera fyrir fjársvikastarfssemi, eða annarra aðila, m.a. með því að ákæra og refsa fyrir þær athafnir, sbr. 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Þá gefa upplýsingar og heimildir um aðstæður í Úkraínu sem kærunefnd hefur kynnt sér ekki til kynna að aðstæður þar í landi hafi breyst hvað framangreind réttarúrræði varðar síðan kærunefnd úrskurðaði í máli kæranda þann 6. júní 2019. Að framangreindu virtu er það því mat kærunefndar að ný gögn, þ.e. umræddar ljósmyndir af skilaboðum og ljósmynd af vegabréfi einstaklings séu ekki þess eðlis að hægt sé að leggja til grundvallar að atvik í máli kæranda hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Að teknu tilliti til framangreinds er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar frá 6. júní 2019 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða atvik máls hafi breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt. Kröfu kæranda um endurupptöku málsins er því hafnað.

 

Úrskurðarorð

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant to re-examine the case is denied.

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                      Bjarnveig Eiríksdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta