Úrskurður nr. 13/2020
I. Beiðni um undanþágu.
Með tölvupósti, dags. 16. mars 2020, barst heilbrigðisráðuneytinu beiðni frá Verkmenntaskólanum á Akureyri (VMA) um undanþágu frá auglýsingu nr. 216/2020, um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar.
Í beiðninni kemur fram að um helmingur nemenda VMA sé í verklegu námi og allt að 80% kennslustunda á sumum námskeiðum séu verklegir áfangar á verkstæðum og af því megi ljóst vera að fjarkennsla eigi ekki við nema að takmörkuðu leyti. Hópastærðir séu frá 6 og upp í 14. Verkstæðin séu frá 400 fermetrum og stefnt að því að ekki séu fleiri en 8 nemendur á verkstæði á hverjum tíma. Með beiðninni sé fyrst og fremst verið að hugsa um þá nemendur sem séu 18 ára og eldri, nemendur sem séu á lokametrunum í námi og muni ljúka námi með brautskráningu og/eða sveinsprófi á árinu 2020. Þá er í beiðninni að finna nánari útlistun á þeim námsleiðum sem óskað er undanþágu fyrir og fjölda nemenda í hverri leið.
II. Umsagnir.
Heilbrigðisráðuneytið óskaði eftir umsögnum mennta- og menningarmálaráðuneytisins og sóttvarnasviðs Embættis landlæknis um undanþágubeiðnina. Í umsögn mennta- og menningarmálaráðuneytisins segir meðal annars eftirfarandi:
„Auglýsing um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar nr. 216/2020, er mjög skýr en fram kemur í 5. gr. hennar að framhalds- og háskólum skal lokað. Fjarkennslu skal sinnt eftir því sem unnt er og samkvæmt nánari ákvörðun menntamálayfirvalda.
Með því að heimila undanþágu frá auglýsingu á skólastarfi vegna farsóttar á þeim grundvelli að lokun verknámsdeilda í langan tíma geti leitt til þess að nemendur geti ekki lokið námi sínu á þessari önn mun setja fordæmi fyrir alla verknámsskóla á landinu og þá með þeim hætti að markmið auglýsingarinnar nái ekki fram að ganga. Skólahald tekur bæði til bóklegs og verklegs náms og uppi hafa verið ýmsar tillögur um með hvaða hætti skuli að leysa verknámsþátt í þessum einstöku aðstæðum sem heimurinn er í. Tillögur hafa verið uppi að leggja áherslu á bóklega þáttinn í fjarkennslu á meðan á takmörkun stendur og þegar henni lýkur, að öllum líkindum 12. apríl nk., mun áherslan vera á verklega þáttinn í náminu.
Með vísan til jafnræðis, þess fordæmis sem ákvörðunin mögulega felur í sér og að aðrar lausnir eru hugsanlegar leggur mennta- og menningarmálaráðuneytið til að beiðninni verði hafnað. Ráðuneytið gerir umsögn þessa á þeim forsendum sem snýr að menntamálum í landinu en ef umsögn sóttvarnarlæknis er önnur mun ráðuneytið ekki leggjast gegn niðurstöðu hans.“
Af hálfu sóttvarnasviðs Embættis landlæknis kom fram að ekki væru gerðar athugasemdir við umsögn mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Þá hafi verið tekin afstaða til sambærilegrar beiðni sem lokið var með úrskurði í máli nr. 008/2020. Þar hafi komið fram að þótt beiðnin væri vissulega skiljanleg og hagsmunir verknámsnema umtalsverðir yrði ekki séð af umsókninni að þeir gætu vegið þyngra en þeir almannahagsmunir sem ákvörðun um takmörkun skóla væri ætlað að vernda. Í þeim efnum var meðal annars minnt á að ákvörðunin undanskildi ekki verknám frá lokun framhaldsskóla. Því gæti sóttvarnalæknir ekki mælt með því að undanþágan yrði veitt.
III. Niðurstaða.
Í 5. gr. auglýsingar nr. 216/2020 segir að framhalds- og háskólum skuli lokað og fjarkennslu skuli sinnt eftir því sem unnt er og samkvæmt nánari ákvörðun menntamálayfirvalda. Samkvæmt 6. gr. getur heilbrigðisráðherra veitt undanþágu frá takmörkun skólastarfs ef ekki er talin hætta á að slíkt fari gegn markmiðum opinberra sóttvarnaráðstafana.
Við mat á því hvort heimila eigi undanþágu samkvæmt ákvæðinu þarf því meðal annars að líta til þess hvort undanþágan sem slík stefndi í hættu ráðstöfunum til að varna útbreiðslu COVID-19 sjúkdómsins en jafnframt hvort undanþágan yrði fordæmi sem ekki væri unnt að fylgja eftir vegna þess að samþykkt allra sambærilegra tilvika myndi grafa undan framangreindum ráðstöfunum. Þá telur ráðuneytið, í ljósi auglýsingar nr. 217/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, að undanþága yrði almennt ekki veitt nema með þeim skilyrðum sem gilda um takmörkun á samkomum. Að mati ráðuneytisins kemur einkum til greina að veita undanþágur þegar um mjög sérstakar aðstæður er að ræða og að takmörkun á skólahaldi kæmi sérstaklega þungt niður á viðkomandi nemendum, kennurum eða aðstandendum, svo sem í tilvikum þeirra sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu.
Heilbrigðisráðuneytið hefur farið yfir umsóknina og umsagnir umsagnaraðila. Umsóknin er einkum byggð á sjónarmiðum sem eiga við um flest allt verknám. Þrátt fyrir að ráðuneytið geti fallist á að takmörkun skólahalds í framhaldsskólum komi almennt þyngra niður á verknámi en bóknámi telur ráðuneytið ekki unnt að veita undanþágu á þeim grundvelli eingöngu, enda kynni það að leiða til þess að veita þyrfti fjölda nemenda sambærilega undanþágu í verknámsskólum um allt land. Það er því mat ráðuneytisins að það samræmist ekki markmiðum þeirra opinberu sóttvarnaráðstafana sem gripið hefur verið til að veita umbeðna undanþágu. Undanþágubeiðninni er því hafnað.