Lagarammi rýndur til að bæta þjónustu við börn með neyslu- og fíknivanda
Heilbrigðisráðherra hefur skipað starfshóp til að rýna þá löggjöf sem snýr að börnum með neyslu- og fíknivanda og gera tillögur um úrbætur til að laga hann betur að þörfum þeirra og þjónustuveitenda.
Árið 2018 hófst vinna varðandi úrræði fyrir börn og ungmenni með bráðan neyslu- og fíknivanda. Einn liður í úrbótum fyrir þennan hóp var opnun afeitrunardeildar Landspítala. Meðal þess sem vinnan leiddi í ljós var ýmis konar skörun á sviði löggjafar sem snýr að þessum málum og veldur ákveðnum vandkvæðum. Þetta eru lög um heilbrigðisþjónustu, barnaverndarlög, lög um réttindi sjúklinga og lögræðislög.
Verkefni starfshóps heilbrigðisráðherra verður að rýna þessi lög og aðra löggjöf sem tengjast þessu málefni og á hópurinn að skila ráðherra niðurstöðum sínum í byrjun október næstkomandi.
Formaður starfshópsins er Guðríður Bolladóttir, fulltrúi Umboðsmanns barna. Aðrir nefndarmenn eru María Sæmundsdóttir, án tilnefningar, Guðlaug María Júlíusdóttir, tilnefnd af Landspítala,
Halldór Hauksson, tilnefndur af Barnaverndarstofu og Halldóra Dröfn Gunnarsdóttir, tilnefnd af félagsmálaráðuneytinu.
Heilbrigðisráðherra hefur jafnframt skipað annan starfshóp sem móta á tillögur að heildarskipulagi heilbrigðisþjónustu fyrir börn og ungmenni með neyslu- og fíknivanda.