Hoppa yfir valmynd
15. maí 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 5/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 15. maí 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 5/2009.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að þann 8. janúar 2009 samþykkti Vinnumálastofnun umsókn kæranda, A, um atvinnuleysisbætur samkvæmt umsókn móttekinni 11. desember 2008. Kærandi hefur 100% bótarétt en við útreikning á bótum var farið eftir 3. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, er mælir fyrir um fjárhæð bótaréttar sjálfstætt starfandi einstaklinga. Í ódagsettri kæru til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða en móttekinni 20. janúar 2009 fer kærandi fram á að útreikningur atvinnuleysisbóta honum til handa verði endurskoðaður og honum breytt til hækkunar. Af hálfu Vinnumálastofnunar kemur fram að rétt hafi verið staðið að útreikningi bótaréttar kæranda.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 11. desember 2008, en hann var sjálfstætt starfandi og rak X ehf. frá 1. febrúar 2006. Um var að ræða almennt bílaverkstæði sem annaðist bílaviðgerðir og viðhald og hjólbarðaviðgerðir. Engin starfsemi er nú á vegum fyrirtækisins vegna verkefnaleysis.

Af hálfu kæranda kemur fram að honum finnist fólki vera mismunað þar sem reglan hafi verið sú að tekið væri mið af síðustu þremur mánuðum launalega varðandi atvinnuleysisbætur en af því að hann hafi verið atvinnurekandi sé tekið mið af launum hans frá árinu 2007. Það sé hann ekki sáttur við enda greiði eigendur lítilla fyrirtækja sér sem allra minnst til að halda fyrirtækjunum gangandi. Núna liggi fyrirtæki hans niðri og hafi gert í marga mánuði. Kærandi kveðst hafa unnið hjá öðru fyrirtæki sem verktaki og hann skilji ekki hvers vegna ekki sé tekið mið af síðustu þriggja mánaða launum hans þar. Kæranda finnst það fyrir neðan allar hellur að bæturnar sem hann á rétt á séu um 1.800 kr. á dag eða um 50.000 kr. á mánuði og af því eigi hann að lifa með fimm börn á framfæri, en enga vinnu sé að hafa. Kærandi kveðst vilja sama rétt og aðrir varðandi það að taka mið af síðustu þremur mánuðum. Hann vill ekki gjalda fyrir það að hafa verið atvinnuskapandi.

Vinnumálastofnun vísar til þess að skv. 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar séu sjálfstætt starfandi einstaklingar tryggðir samkvæmt lögunum. Í b-lið 3. gr. laganna sé nánar tilgreint hverjir geti fallið undir skilgreininguna sjálfstætt starfandi. Óumdeilt sé að kærandi var sjálfstætt starfandi í skilningi laganna á þeim tíma sem ávinnsla réttinda fór fram í samræmi við 19. gr. þeirra og hafi hann því 100% bótarétt. Við útreikning á bótarétti kæranda til tekjutengdra atvinnuleysisbóta hafi verið farið eftir reglu 3. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem mæli fyrir um bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklinga. Jafnframt gildir 33. gr. laganna um kæranda. Beri stofnuninni samkvæmt lögmætisreglunni að byggja ákvarðanir sínar á lögum og það hafi hún gert í máli þessu.

 

2.

Niðurstaða

Kærandi var sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi 1. gr., sbr. 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, og er tryggður samkvæmt lögunum. Í VII. kafla laganna er fjallað um fjárhæð atvinnuleysisbóta og 3. mgr. 32. gr. laganna sem fjallar um tekjutengdar atvinnuleysisbætur sjálfstætt starfandi einstaklinga hljóðar svo:

Tekjutengdar atvinnuleysisbætur sjálfstætt starfandi einstaklinga skv. 1. mgr. skulu nema 70% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tekjuárið á undan því ári sem umsækjandi varð atvinnulaus. Að öðru leyti gildir ákvæði 2. mgr.

Í athugasemdum með 32. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar er gerð grein fyrir því sem liggur að baki þeirri ákvörðun að miða skuli tekjur sjálfstætt starfandi einstaklings við tekjuárið á undan því ári sem umsækjandi varð atvinnulaus. Þar kemur fram að það viðmiðunartímabil sem gert er ráð fyrir í 3. mgr. 32. gr. laganna kunni að koma atvinnurekendum betur þar sem leiða megi að því líkum að reksturinn gangi illa á síðustu mánuðum fyrir stöðvun rekstrar.

Kærandi nýtur 100% réttar til atvinnuleysisbóta en samkvæmt skýru ákvæði 3. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skal miða tekjutengdar atvinnuleysisbætur við tekjuárið á undan því ári sem kærandi varð atvinnulaus. Það hefur Vinnumálastofnun gert í tilviki kæranda og er því kröfum kæranda hafnað.

 

Úr­skurðar­orð

Kröfum kæranda, A, er hafnað.

 

 Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta