Mál nr. 16/2009
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 15. maí 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 16/2009.
1.
Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 2. febrúar 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 2. febrúar 2009 fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá 8. desember 2008. Fallist var á umsókn kæranda en réttur hans til atvinnuleysisbóta var felldur niður í 40 daga í upphafi bótatímabils með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi mótteknu 17. febrúar 2009. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.
Kærandi býr í R en starfaði sem bílstjóri hjá X hf. frá 16. apríl til 1. desember 2008, en þá sagði hann sjálfur upp störfum. Áður hafði hann starfað, einnig sem bílstjóri, hjá Y frá 16. ágúst til 5. apríl 2008, en þar var honum sagt upp vegna samdráttar. Kærandi kveðst fullviss um að hann hafi haft gildar ástæður til þess að segja upp starfi sínu. Hann býr í R en starfaði í S hjá X. Kærandi kveðst hafa orðið að koma sér sjálfur í og úr vinnu. Það hafi gengið vel þangað til hann missti ökutæki sem hann hafði til umráða. Fyrirtækið hafi alfarið neitað að taka þátt í ferðakostnaði. Meðal gagna málsins er bréf undirritað af kæranda þar sem fram kemur að kaupmáttur hans hafi skerst gífurlega vegna niðurskurðar á yfirvinnu hjá fyrirtækinu sem hann starfaði hjá. Vegna þess hafi hann ekki lengur haft efni á að greiða afborganir af bílaláni sínu. Kærandi kveðst hafa starfað hjá X svo lengi sem hann hafi haft umrætt ökutæki til að komast í vinnuna á, en þegar bílasamningnum hafi verið rift vegna vanskila hans hafi hann séð sig neyddan til þess að segja upp starfi sínu. Kærandi kveðst ekki hafa séð sér fært að komast til vinnu á réttum tíma án ökutækis vegna þess hversu langt var að fara til vinnu frá heimili hans. Hann kveðst hafa kannað með almenningssamgöngur en þær hafi ekki verið á réttum tíma fyrir hann. Málin hefðu litið öðru vísi út ef hann hefði starfað í sama byggðarlagi og hann býr í, þ.e. R.
Í athugasemdum Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 10. mars 2009, kemur meðal annars fram að deilt sé um hvort ástæða uppsagnar kæranda teljist gild í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Það sé óumdeilt að kærandi hafi sagt upp starfi sínu hjá vinnuveitanda og því líklegt að aðstæður hans eigi undir 1. mgr. 54. gr. laganna. Það sé mat Vinnumálastofnunar að ástæða sú er kærandi gefi upp geti ekki talist gild í skilningi laganna. Kæranda hafi mátt vera ljóst að með því að segja upp starfi sínu vegna tilgreindra ástæðna á þeim tímum sem nú eru gæti verið erfiðleikum bundið fyrir hann að komast í annað starf. Ekki komi fram að kærandi hafi t.a.m. kannað aðra möguleika, svo sem að reyna að semja við vinnuveitanda sinn um breyttan starfstíma til að hann gæti mætt til vinnu á réttum tíma með notkun almenningssamgangna og leita allra leiða til að sinna starfsskyldum sínum þrátt fyrir missi ökutækis síns.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 12. mars 2009, sent afrit af athugasemdum Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 26. mars 2009. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.
2.
Niðurstaða
Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem er svohljóðandi:
„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.“
Ágreiningur málsins snýst um það hvort ástæður kæranda fyrir uppsögn á starfi sínu teljist gildar ástæður í skilningi framangreinds ákvæðis. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar var 1. mgr. 54. gr. laganna skýrð nánar og það áréttað að eitt af markmiðum vinnumarkaðskerfisins væri að stuðla að virkri atvinnuþátttöku fólks. Með hliðsjón af því væri ekki gefinn kostur á að fólk segði upp starfi sínu til að fá greiddar atvinnuleysisbætur án þess að sérstakar ástæður lægi að baki uppsögninni í tilvikum þegar annað starf væri ekki í boði.
Kærandi sagði starfi sínu lausu vegna þess að hann taldi sig ekki geta komið sér í vinnuna á réttum tíma þar sem hann missti ökutæki sitt. Ekki liggur fyrir að kærandi hafi gripið til mögulegra úrræða til þess að komast í vinnuna á tilsettum tíma eða gert tilraunir til þess að semja við vinnuveitanda um að hnika til vinnutímanum. Slíkar ráðstafanir hefðu verið eðlilegar áður en kærandi greip til þess ráðs að segja starfi sínu lausu.
Með vísan til framanritaðs verður talið að kærandi hafi ekki haft gildar ástæður til að segja upp starfi sínu hjá X hf. Samkvæmt því ber að staðfesta ákvörðun Vinnumálastofnunar.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 2. febrúar 2009 um niðurfellingu bótaréttarA í 40 daga er staðfest.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson