Mikilvægt að kynjasjónarmið séu höfð að leiðarljósi í jarðhitaverkefnum
Í nýrri skýrslu orkusjóðs Alþjóðabankans (e. Energy Sector Management Assistance Programme, ESMAP) um jafnréttismál og jarðhita er sett fram aðferðafræði sem mun nýtast beint við hönnun og framkvæmd jarðhitaverkefna Alþjóðabankans og styrkja árangursmælingar í tengslum við jafnréttismál í jarðhitaverkefnum. Skýrslan varpar meðal annars ljósi á hvernig jarðhitaverkefni geta haft áhrif á umhverfið, heilsu fólks og atvinnutækifæri – og hvernig þessi áhrif bitna með ólíkum hætti á konum og körlum.
Ísland hefur um árabil veitt framlög í orkusjóð Alþjóðabankans og hefur einnig fjármagnað stöðu jarðhitasérfræðings hjá bankanum. Í þessu samstarfi hefur Ísland lagt áherslu á að koma jarðhitanýtingu á dagskrá bankans sem og á jafnréttismál almennt í orkugeiranum. Ísland studdi meðal annars við gerð áðurnefndrar skýrslu, en henni er ætlað að veita hagnýtar upplýsingar til þeirra sem starfa í jarðhitaþróun hjá bankanum og öðrum stofnunum og fyrirtækjum, um hvernig best verði unnið að jafnréttismálum og valdeflingu kvenna í jarðhitaverkefnum. Í tengslum við þetta samstarf tók fulltrúi utanríkisráðuneytisins einnig þátt í vinnufundi bankans um jafnréttismál og jarðhita í smáeyþróunarríkjum sem haldinn var í Guadalupe í mars.