Framlag til byggðarannsóknasjóðs hækkað
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, greindi frá því á ársfundi Byggðastofnunar að framlag innviðaráðuneytisins til byggðarannsóknasjóðs hafi verið hækkað um fimm milljónir og verði nú tólf milljónir kr. Stjórn Byggðastofnunar hefur einnig tvöfaldað framlag sitt og verður sex milljónir kr. Frá og með árinu 2024 mun sjóðurinn því hafa 18 milljónir kr. til ráðstöfunar.
Ársfundur Byggðastofnunar fór fram á Húsavík 27. apríl sl. undir yfirskriftinni Byggðarannsóknir – blómlegar byggðir í krafti þekkingar. Í ávarpi á ársfundinum kvaðst Sigurður Ingi hafa sem byggðamálaráðherra lagt mikla áherslu á rannsóknir og þekkingaröflun, „enda væru þær mikilvæg forsenda fyrir allri stefnumótun og ákvarðanatöku þegar kemur að byggða- og samfélagsþróun“.
Byggðarannsóknasjóður var stofnaður árið 2014 að frumkvæði ráðherra og sér Byggðastofnun um umsýslu. Tilgangur sjóðsins er að efla byggðarannsóknir og bæta þekkingargrunn fyrir stefnumótun og aðgerðir í byggðamálum. Alls hafa 37 verkefni hlotið styrk.
Í janúar fyrr á þessu ári var undirritaður samningur við Háskólann á Bifröst um stofnun rannsóknasetur í byggða- og sveitarstjórnarmálum sem rennir enn frekari stoðum undir rannsóknir á sviði byggðamála. Markmið samningsins er að efla jákvæða byggðaþróun og styrkja sveitarstjórnarstigið á Íslandi með markvissum rannsóknum sem stuðla að hlutlægri og faglegri umræðu og leiða til betri stefnumótunar og ákvarðanatöku.
Undanfarin misseri hefur ráðherra verið tíðrætt um búsetufrelsi. Hann kom inn á það í ávarpi sínu og sagði lífsgæði fólks ekki síst fólgin í því að geta búið sér heimili þar sem það helst kýs og njóta sambærilegra þjónustu, hvar á landinu sem það kýs að búa. „Til þess að frelsið sé raunverulegt þurfa að vera fyrir hendi traustir innviðir og þjónusta þar sem gætt er jafnræðis íbúanna, hvar á landinu sem er. Störf við hæfi er svo vissulega líka einn af hornsteinum búsetufrelsis,“ sagði ráðherra í ávarpi sínu. Óstaðbundin störf, húsnæðismál og opinber grunnþjónusta eru allt liðir í að tryggja búsetufrelsi.
Ný stjórn Byggðastofnunar
Samkvæmt lögum um Byggðastofnun skipar ráðherra sjö menn í stjórn stofnunarinnar til eins árs í senn. Í lok ávarps síns greindi ráðherra frá skipan nýrrar stjórnar. Magnús Jónsson, sem verður hefur formaður stjórnar frá árinu 2019, lætur af störfum sem og Gunnar Þorgeirsson sem átt hefur þar sæti frá árinu 2018. Færði ráðherra þeim þakkir fyrir vel unnin störf og óskaði nýrri stjórn velfarnaðar.
Ný stjórn er þannig skipuð:
- Halldóra Kristín Hauksdóttir, Akureyri, formaður
- Rúnar Þór Guðbrandsson, Mosfellsbæ, varaformaður
- Haraldur Benediktsson, Akranesi
- Óli Halldórsson, Húsavík
- Karl Björnsson, Reykjavík
- María Hjálmarsdóttir, Eskifirði
- Jónína Björk Óskarsdóttir, Kópavogi