Minningarskjöldur afhjúpaður
Minningarskjöldur um þá sem látist hafa í umferðarslysum á Suðurlandsvegi var afhjúpaður í gær þar sem komið hefur verið fyrir 54 krossum við Kögunarhól. Viðstaddir voru samgönguráðherra, sýslumaðurinn á Selfossi, fulltrúar sveitarfélaga í byggðinni og fulltrúar áhugahóps um tvöföldun Suðurlandsvegar.
Sigurður Jónsson, fulltrúi áhugahópsins, flutti ávarp í upphafi og síðan töluðu þau Sturla Böðvarsson samgönguráðherra, Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður og Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði. Kom meðal annars fram í máli þeirra að brýnt væri að ökumenn minntust ábyrgðar sinnar í umferðinni og færu að lögum.
Á minningarskildinum stendur: Krossarnir eru til minningar um þá sem látist hafa í slysum á Suðurlandsvegi milli Reykjavíkur og Selfoss.
Á myndinni sést Sigurður Jónsson flytja ávarp og lengst til hægri er Sturla Böðvarsson samgönguráðherra. Í miðið er Hannes Kristmundsson sem hafði með öðrum forgöngur um að koma krossunum fyrir.