Ráðherra mælti fyrir frumvarpi um kvikmyndaendurgreiðslur
„Mikill áhugi er á þessum áformum ríkisstjórnarinnar, bæði hér heima fyrir og ekki síður erlendis. Þannig bíða nokkur stór og áhugaverð erlend verkefni, sem reiðubúin eru að hefja tökur á þessu ári, eftir formlegri ákvarðanatöku stjórnvalda og umræddri lagabreytingu,“ sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra í framsöguræðu sinni á Alþingi þar sem hún fjallaði um breytingar á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Ráðherra sagði mikið til þess unnið að afgreiða frumvarpið sem lög frá Alþingi fyrir þinglok á vorþingi.
Með frumvarpinu sem ráðherra mælti fyrir eru lagðar til breytingar á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, nr. 43/1999. Fela þær breytingar í sér að lagt er til að fyrir afmörkuð stærri verkefni sé hlutfall endurgreidds framleiðslukostnaðar 35%, en fyrir önnur verkefni sem uppfylla skilyrði laganna sé hlutfallið áfram 25% eins og verið hefur.
„Þeim löndum fer sífellt fjölgandi sem bjóða upp á sérstakar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar og hefur hlutfall endurgreiðslu farið hækkandi á undanförnum árum í helstu samkeppnislöndum Íslands. Þannig er það víða komið upp í 35%, t.d. á Írlandi og Möltu. Skotland, Bretland og Kanada hafa einnig verið nefnd sem lönd sem við eigum í harðri samkeppni við á þessu sviði,“ sagði ráðherra í framsögu sinni og sagði mikilvægt að hækka hlutfallið fyrir stærri verkefni til að tryggja að Ísland verði áfram samkeppnishæft sem tökustaður kvikmynda og sjónvarpsefnis. Það eflir innlenda menningu og landkynningu samhliða því sem það eflir og styrkir íslenska kvikmyndaiðnaðinn og aðrar skapandi greinar.
Tillögurnar eru í samræmi við þær áherslur sem fram koma í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að efla alþjóðlega samkeppnishæft stuðningskerfi við framleiðslu kvikmynda- og sjónvarpsefnis.
Jafnframt er frumvarpið í samræmi við áherslur og aðgerðir í kvikmyndastefnu fyrir Ísland til ársins 2030, sem gefin var út í október 2020.