Staða aðgerða í stefnumótandi áætlun um málefni sveitarfélaga
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið vinnur í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og fleiri aðila að framkvæmd stefnumótandi áætlunar um málefni sveitarfélaga fyrir árin 2019-2023. Yfirlit yfir allar aðgerðir í áætluninni og stöðu þeirra er að finna á vef ráðuneytisins.
Meginmarkmið stefnumótandi áætlunar í málefnum sveitarfélaga er að draga saman meginþætti langtímastefnumörkunar ríkisins í þeim málaflokkum sem snúa að verkefnum sveitarfélaga og stuðla að samræmingu í stefnumótun ríkis og sveitarfélaga á þeim sviðum með heildarhagsmuni sveitarstjórnarstigsins að leiðarljósi.
Í núgildandi áætlun er áhersla einkum lögð á tvö meginmarkmið. Það fyrra snýr að sjálfbærni sveitarfélaga og lýðræðislegri starfsemi þeirra og það seinna lýtur að sjálfstjórn sveitarfélaga og ábyrgð þeirra, m.a. við að tryggja sem jöfnust réttindi og aðgengi íbúa að þjónustu. Skilgreindar eru áherslur við hvort markmið um sig, sem geta leitt til skilgreindra aðgerða eða til samþættingar við aðgerðir í öðrum opinberum áætlunum. Í aðgerðaáætlun eru kynntar 11 skilgreindar aðgerðir sem eiga að tryggja framgang markmiða áætlunarinnar.
Staða og hlutverk landshlutasamtaka sveitarfélaga
Ein aðgerðanna kveður á um að skýra stöðu og hlutverk landshlutasamtaka sveitarfélaga. Hugað verði að samvinnu sveitarfélaga og samningum um starfrækslu verkefna. Skýrðar verði reglur um byggðasamlög, m.a. hvað varðar stjórnskipulag og lýðræðislegt umboð, reglur um framsal á valdi, reikningshald o.fl.
Í nóvember 2020 skilaði starfshópur til ráðherra skýrslunni Staða og hlutverk landshlutasamtaka. Niðurstaða hópsins er að það vanti heildstæðan lagaramma utan um starfsemi landshlutasamtakanna og að við endurskoðun þurfi að hafa í huga að leyst verði úr vafaatriðum sem upp hafa komið og tengjast starfsemi þeirra. Unnið verður áfram að ofangreindum markmiðum í samræmi við tillögur starfshópsins.
Starfsaðstæður kjörinna fulltrúa
Unnið hefur verið að undirbúningi aðgerðar sem snýr að því að bæta starfsaðstæður kjörinna sveitarstjórnarfulltrúa en í tengslum við þann undirbúning óskaði ráðuneytið eftir því við Dr. Evu Marín Hlynsdóttur, dósent við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, að fá greindar niðurstöður úr fáum afmörkuðum spurningum úr viðamikilli könnun sem hún stendur fyrir á starfsaðstæðum og viðhorfum kjörinna sveitarstjórnarfulltrúa. Þessar spurningar varða reynslu kjörinna fulltrúa af ýmiss konar áreiti.
Niðurstöður benda til þess að ríflega helmingur þeirra hafi orðið fyrir áreiti eða neikvæðu umtali á yfirstandandi eða síðasta kjörtímabili og var lítill sem enginn munur á milli kynja. Tölurnar sýna að algengast var að þátttakendur höfðu orðið fyrir áreiti á samfélagsmiðlum en einnig var töluvert um áreiti í opinberu rými, t.d. á skemmtunum, í búð, o.s.frv. Allt að 10% höfðu orðið fyrir slíku áreiti á heimilum sínum.
Þegar niðurstöður og greining á rannsókna Evu Marínar liggja fyrir verða unnar tillögur að aðgerðum með hliðsjón af þeim. Þá verður gerð sérstök könnun á starfsumhverfi kjörinna sveitarstjórnarmanna sem beinist eingöngu að einelti, kynbundinni áreitni, kynferðislegri áreitni og sem og neikvæðu umtali, öðru áreiti og ofbeldishegðun gagnvart sveitarstjórnarfulltrúum.
Markmiðið með þessum verkefnum er að hafa sem bestar upplýsingar um vinnuaðstæður og viðhorf kjörinna sveitarstjórnarfulltrúa, m.a. í ljósi þess að við lok undanfarinna tveggja kjörtímabila hefur rúmlega helmingur þeirra ekki gefið kost á sér til endurkjörs.
Styrking tekjustofna sveitarfélaga
Í október 2020 undirrituðu ríki og sveitarfélög samkomulag um afkomumarkmið og efnahag sveitarfélaga fyrir árin 2021-2025, þar sem tilgreind eru fjöldi verkefna sem gert er ráð fyrir að unnið verði að á næstu árum. Meðal verkefna er heildarendurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaga og á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur skipað verkefnisstjórn með vísan í samkomulagið og aðgerð í áætlun um málefni sveitarfélaga um að styrkja tekjustofna sveitarfélaga og auka fjárhagslega sjálfbærni þeirra.
Verkefnið snýr annars vegar að endurskoðun á lögum um tekjustofna sveitarfélaga og mat á fjármögnunarþörf þeirra miðað við núverandi verkefni. Megináherslan er á sjálfstæða tekjustofna og tækifæri til staðbundinnar forgangsröðunar við álagningu. Hins vegar lýtur verkefnið að heildarendurskoðun á regluverki um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Hlutverk sjóðsins verður áfram að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum úr sjóðnum á grundvelli ákvæða laga, reglugerða og vinnureglna sem settar eru um starfsemi sjóðsins. Þá hafa verið skipaðar tvær sérfræðinefndir sem munu í umboði verkefnisstjórnarinnar vinna að greiningu og framsetningu valkosta.
Í tengslum við samkomulagið var einnig undirrituð viljayfirlýsing um að vinna að því að afla fjárheimilda á Alþingi fyrir aðgerðir sem miða að því veita sveitarfélögunum fjárhagslega viðspyrnu og til að verja lögbundna grunnþjónustu. Viðbótarframlög ríkissjóðs nema samtals 3.305 m.kr. og heildarstuðningur til viðspyrnu fyrir sveitarfélögin á grundvelli yfirlýsingarinnar nemur því 4.805 m.kr. Þá er kveðið á um 935 m.kr. framlag ríkisins sem styðji við stefnumarkandi áætlun ríkisins um eflingu sveitarstjórnarstigsins og aukna sjálfbærni þess með sameiningum sveitarfélaga.
Staða og horfur í fjármálum sveitarfélaga
Covid-19 faraldurinn hefur umtalsverð áhrif á opinber fjármál, þ.e. á afkomu og efnahag ríkissjóðs og sveitarfélaga, og er ljóst að sveitarfélögin voru og eru misjafnlega í stakk búin til að takast á við þær óvæntu en tímabundnu aðstæður sem samfélagið gengur í gegnum.
Ríki og sveitarfélög stóðu fyrir nánu samráði um fjármál sveitarfélaga á síðasta ári og var m.a. skipaður starfshópur til að afla upplýsinga og meta þróunina. Skýrsla hópsins sem kom út í lok ágúst sl. benti til þess að heimsfaraldurinn hefði veruleg áhrif á fjármál sveitarfélaga. Með aðgerðum og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við samkomulag ríkis og sveitarfélaga um opinber fjármál var sveitarfélögunum veittur fjárhagslegur stuðningur, sem auk fjölda aðgerða ríkisstjórnarinnar til varnar, verndunar og viðspyrnu fyrir íslenskt samfélag, leiddi til þess að afkoma þeirra á síðasta ári var mun betri en gert var ráð fyrir á fyrri hluta árs.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur með bréfi til allra sveitarfélaga óskað eftir upplýsingum um stöðu fjármála sveitarfélaga á yfirstandandi ári í því skyni að fá yfirsýn yfir stöðuna og meta hugsanlegar mótvægisaðgerðir.