Hoppa yfir valmynd
4. júní 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 122/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 122/2020

Fimmtudaginn 4. júní 2020

A

gegn

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Ú R S K U R Ð U R 

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 5. mars 2020, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 21. janúar 2020, um synjun á umsókn hans um húsnæðisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um húsnæðisbætur 23. ágúst 2019 og var umsókn hans samþykkt 5. september 2019. Þann 18. nóvember 2019 var kæranda tilkynnt að afgreiðslu umsóknarinnar væri frestað þar sem hann væri ekki talinn uppfylla lögheimilisskilyrði a-liðar 2. mgr. 9. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur. Með ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 21. janúar 2020, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að hann væri ekki með skráð lögheimili í leiguhúsnæðinu, sbr. a-lið 2. mgr. 9. gr. laga nr. 75/2016.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 5. mars 2020. Með bréfi, dags. 10. mars 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst úrskurðarnefndinni 20. mars 2020 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 24. mars 2020. Athugasemdir bárust frá kæranda 25. mars 2020 og voru þær sendar Húsnæðis- og mannvirkjastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 31. mars 2020. Viðbótargreinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar barst 7. apríl 2020 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. apríl 2020. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar eftir því að úrskurðarnefnd beini þeim tilmælum til Húsbótar að honum verði greiddar bætur sem hann eigi inni hjá þeim frá 1. október 2019 til dagsins í dag, auk dráttarvaxta, sem og að reglulegum greiðslum verði komið á án tafar.

Kærandi hafi orðið fyrir því óláni að Húsbót hafi ákveðið að fella niður húsnæðisbætur til kæranda þar sem þeir misskilji lögheimilisskráningar. Öll skilyrði um lögheimili séu uppfyllt en leigusamningi kæranda hafi verið þinglýst og samkvæmt upplýsingum frá starfsmönnum Þjóðskrár sé kærandi með lögheimili í B en þar sé hann skráður óstaðsettur í hús.

Tryggingastofnun ríkisins greiði heimilisuppbót gegn því að skilað sé inn vottorði frá félagsþjónustu B, lögreglu, presti eða lækni á þriggja mánaða fresti. Kærandi hafi sent Húsbót þetta sama vottorð sem þeir neiti að taka gilt sem staðfestingu á búsetu hans. Nú hafi það komið fyrir þrisvar sinnum að kærandi hafi þurft að leita til kærunefnda. Úrskurður frá sveitarstjórnarráðuneytinu varðandi kæru Grímsnes- og Grafningshrepps um ólögmæti lögheimilisskráningar „óstaðsettir í hús“ hafi verið á þá leið að skráning Þjóðskrár hafi staðist lög og því skuli lögheimili vera í því sveitarfélagi sem viðkomandi sannanlega búi í.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð kemur fram að í svari Húsbótar komi ekkert fram um þær undanþágur sem þeir veiti til þeirra sem skráðir séu til heimilis í öðru húsnæði en íbúðarhúsnæði. Í svari Húsbótar til kæranda frá 5. september 2019 komi fram að hann fái undanþágu frá lögheimilisskráningu með því skilyrði að það verði að lágmarki þriggja mánaða eftirlit með staðfestingu á búsetu. Eftir að tíminn hafi runnið út hafi kærandi sent nýtt og uppfært skjal en húsnæðisbótanefnd hafi neitað áframhaldandi undanþágu, þrátt fyrir staðfestingu félagsþjónustu B um að hann ætti þar heima.

Um stuttan tíma hafi kærandi þurft að nýta sér nauðungarrétt og flutt lögheimilið til Reykjavíkur til þess að sleppa í gegnum greiðslumat þar sem lánastofnanir og Creditinfo neiti að reikna lánshæfi á þá sem séu óstaðsettir í hús, þrátt fyrir staðfestingu frá yfirvöldum. Móðir kæranda hafi lagst inn á spítala eftir slys við heimilisstörf. Því hafi kærandi þurft að kaupa bifreið og það útskýri tímabundna skráningu að C í Reykjavík. Þjóðskrá sé að vinna í því að breyta skráningunni en það ferli taki nokkra daga.

Enn sé ósvarað frá HMS hver skilyrði fyrir undanþágu séu. Kærandi óski eftir því að nefndin fái frekari upplýsingar frá HMS um undanþágur og starfsreglur. Að auki hafi HMS og félagsþjónusta B staðið sig illa í lögbundinni upplýsingagjöf til kæranda sem sé að hans mati ámælisvert.

III.  Sjónarmið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar

Í greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) kemur fram að deilt sé um synjun HMS á umsókn kæranda á þeim grundvelli að hann uppfylli ekki skilyrði laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur. Ákvörðun HMS sé tekin á grundvelli a-liðar 2. mgr. 9. gr. laganna. Samkvæmt ákvæðinu sé skilyrði fyrir greiðslu húsnæðisbóta að umsækjandi og aðrir þeir sem tilgreindir séu sem heimilismenn í umsókn séu búsettir í íbúðarhúsnæðinu. Með búsetu sé hér átt við þegar einstaklingur býr í hinu leigða íbúðarhúsnæði og sé þar með skráð lögheimili samkvæmt lögum nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um húsnæðisbætur.

Í lögum um lögheimili og aðsetur sé sérstaklega fjallað um fasta búsetu og lögheimili í 2. gr. laganna. Þar segi í 2. mgr. að ,,[m]eð fastri búsetu er átt við þann stað þar sem einstaklingur hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og er svefnstaður hans þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna náms, orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika.” Þá segi í 3. mgr. ,,[l]ögheimili skal skráð í tiltekinni íbúð eða eftir atvikum húsi, við tiltekna götu eða í dreifbýli, sem er skráð sem íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands og hefur staðfang.“

Í umsókn kæranda komi fram að leiguhúsnæðið sé að Y, fastanúmer Z. Samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands sé um að ræða sumarbústað sem sé staðsettur á sumarbústaðarlandi en samkvæmt fyrrnefndum ákvæðum laga um lögheimili og aðsetur sé alfarið óheimilt að skrá lögheimili í sumarbústað í skipulagðri frístundabyggð sem sé ekki ætluð til fastrar búsetu.

Kærandi telji HMS misskilja eins og margar aðrar stofnanir lögheimilisskráningu. Áréttað sé að kærandi sé ekki með skráð lögheimili í leiguhúsnæðinu sem sé eitt af skilyrðum fyrir greiðslu húsnæðisbóta, sbr. a-lið 2. mgr. 9. gr. laga um húsnæðisbætur. Samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna þurfi tvö skilyrði að vera uppfyllt til að um búsetu sé að ræða í skilningi laganna. Annars vegar að heimilismaður búi sannanlega í viðkomandi húsnæði og hins vegar að hann sé þar með skráð lögheimili, sbr. 2. og 3. mgr. 2. gr. laga um lögheimili og aðsetur. Það sé afstaða HMS að kærandi uppfylli ekki framangreind skilyrði um lögheimilisskráningu þó svo að Þjóðskrá hafi skráð kæranda til lögheimilis í B, enda hafi kærandi verið skráður þar án tilgreinds heimilisfangs og ekki með lögheimili í sjálfu leiguhúsnæðinu.

Í viðbótargreinargerð HMS kemur fram að stofnunin árétti að ágreiningur í málinu lúti að synjun HMS á umsókn kæranda á þeim grundvelli að hann uppfylli ekki skilyrði um búsetu samkvæmt a-lið 2. mgr. 9. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna. Kærandi haldi því þó fram að enn sé því ósvarað hver séu skilyrðin fyrir undanþágu frá búsetu. HMS bendi á að kærandi hafi í tvígang móttekið frestunarbréf frá stofnuninni, dags. 28. ágúst og 18. nóvember 2019, þar sem raktar séu þær undanþáguheimildir er stofnunin líti til við mats á undanþágu frá skilyrði um búsetu samkvæmt 10. gr. laga um húsnæðisbætur. Þá hafi kærandi átt í reglulegum samskiptum við HMS vegna umsóknar sinnar þar sem starfsmenn stofnunarinnar hafi aðstoðað kæranda eftir fremsta megni. Kærandi hafi verið upplýstur um rétt sinn til húsnæðisbóta og honum veittar allar nauðsynlegar leiðbeiningar þar um í samræmi við 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í athugasemdum kæranda óski hann eftir frekari upplýsingum frá húsnæðisbótanefnd HMS um undanþágur og starfsreglur nefndarinnar. Húsnæðisbótanefnd HMS starfi á grundvelli reglna stjórnar um húsnæðisbætur og sé fjallað um hlutverk hennar í kafla 5.1. Samkvæmt því sé hlutverk nefndarinnar að annast mál sem þarfnist sérstakrar umfjöllunar og hafi kærandi verið vel upplýstur um það í samskiptum sínum við stofnunina þegar hann hafi óskað eftir sérstakri undanþágu þann 28. ágúst 2019.

HMS telji rétt að rekja aðdragandann að því að umsókn kæranda hafi verið samþykkt þann 5. september 2019. Eftir að kærandi hafi sótt um húsnæðisbætur með umsókn, dags. 23. ágúst 2019, hafi afgreiðslu umsóknar verið frestað með bréfi, dags. 28. ágúst 2019, þar sem kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði um búsetu samkvæmt a-lið 2. mgr. 9. gr. laga um húsnæðisbætur. Í framhaldi af því hafi kærandi haft samband við þjónustuver stofnunarinnar þar sem honum hafi verið leiðbeint að senda stofnuninni beiðni um undanþágu ásamt rökstuðningi sem félagsráðgjafi hans myndi staðfesta. Þann 29. ágúst 2019 hafi kærandi sent inn umbeðin gögn og fengið svar þar sem fram hafi komið að beiðnin þyrfti að fara til umfjöllunar fyrir húsnæðisbótanefnd HMS. Þann 4. september 2019 hafi nefndin tekið málið til umfjöllunar og farið yfir öll gögn málsins. Þar komi meðal annars fram í rökstuðningi frá kæranda, dags. 28. ágúst 2019, og í yfirlýsingu félagsráðgjafa B, dags. 3. september 2019, að kærandi væri á biðlista eftir félagslegri leiguíbúð hjá sveitarfélaginu en þar sem engar íbúðir væru lausar hefði hann ekki enn fengið úthlutaðri íbúð. Í rökstuðningi kæranda sé þess jafnframt getið að hann hafi átt við heilsufarsleg vandamál að etja sem hafi leitt til þess að hann hafi ekki getað unnið lengur og væri nú á varanlegri örorku, sbr. læknisskýrsla, dags. 21. ágúst 2019.

Í umfjöllun húsnæðisbótanefndar í máli kæranda hafi verið lagt heildstætt mat á aðstæður hans miðað við fyrirliggjandi gögn og hafi nefndin talið málefnalega sjónarmið vera fyrir því að veita honum tímabundna undanþágu frá skilyrði um búsetu vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem hafi verið uppi í máli hans. Kærandi væri á biðlista eftir félagslegu húsnæði og hafi mátt vænta þess innan skamms að fá úthlutað varanlegu húsnæði á vegum B og því hafi kærandi ekki átt að bera hallann af því að ekki væri í boði félagslegt húsnæði í sveitarfélaginu. Húsnæðisbótanefndin hafi talið framangreind sjónarmið vera í samræmi við markmið laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur, en með því að veita kæranda tímabundna undanþágu væri verið að koma til móts við þann vanda sem kærandi hafi staðið frammi fyrir á meðan beðið væri eftir úthlutun á félagslegu húsnæði. Með vísan til framangreinds hafi umsókn hans verið samþykkt þann 5. september 2019. Samhliða því hafi kæranda verið sendur tölvupóstur þar sem meðal annars eftirfarandi hafi komið fram:

,,Húsnæðisbótanefnd tók mál þitt fyrir í gær á fundi sínum og samþykkti að veita þér undanþágu frá lögheimilisskráningu með því skilyrði að það verði að lágmarki 3 mánaða eftirlit með staðfestingu á búsetu. […] Til að tryggja eftirlitið með búsetu þá munum við hafa samband við B til að fá staðfestingu“.

Þá hafi kærandi fengið greiddar húsnæðisbætur á grundvelli ofangreindrar undanþágu þar til HMS hafi borist tölvupóstur, dags. 29. október 2019, sem hafi innihaldið yfirlýsingu frá félagsráðgjafa B þar sem fram hafi komið að kæranda hefði verið boðið húsnæði í lok september 2019 sem hann hafi afþakkað og væri hann því enn á biðlista eftir félagslegu húsnæði. Hafi umsókn kæranda því verið frestað með bréfi, dags. 18. nóvember 2019, og hafi kærandi því næst sent tölvupóst til stofnunarinnar þar sem raktar hafi verið ástæður fyrir höfnun á félagslegu húsnæði frá sveitarfélaginu en þar segi að ,,[h]úsnæðið sem var í boði var mjög mikil fúkkalykt og ekki átti að gera neitt við íbúðina annað en að hún væri máluð“ og ,,salernisaðst[a]ðan var ekki í samræmi við það sem ég er vanur, opið rými.“ Af framangreindum ástæðum hafi kærandi hafnað húsnæðinu en óskað eftir að vera áfram á biðlista eftir öðru húsnæði.

Eins og áður hafi komið fram hafi húsnæðisbótanefndin talið málefnaleg sjónarmið vera fyrir tímabundinni veitingu á undanþágu í máli kæranda á meðan ekki væri í boði félagslegt húsnæði í sveitarfélaginu og þar sem kærandi væri á biðlista eftir slíku húsnæði. Það að kærandi hafi afþakkað félagslegt húsnæði á grundvelli ofangreindra sjónarmiða séu ekki málefnaleg rök að mati húsnæðisbótanefndarinnar. Með því að afþakka félagslegt húsnæði, sem kærandi hafi verið á biðlista eftir, hafi hann í raun fyrirgert rétti sínum til undanþágunnar og því hafi húsnæðisbótanefndin ekki talið lengur forsendu fyrir veitingu áframhaldandi undanþágu frá skilyrði um búsetu. Af þeim sökum hafi umsókn kæranda verið synjað þann 18. nóvember 2019 og samhliða synjuninni hafi verið sendur tölvupóstur þar sem þessar ástæður hafi verið raktar.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um synjun á umsókn kæranda um húsnæðisbætur. Umsókn kæranda var synjað á þeirri forsendu að hann væri ekki með skráð lögheimili í leiguhúsnæðinu, sbr. a-lið 2. mgr. 9. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur.

Í 9. gr. laga nr. 75/2016 er kveðið á um skilyrði fyrir greiðslu húsnæðisbóta en samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins koma húsnæðisbætur aðeins til álita vegna leigu á íbúðarhúsnæði. Samkvæmt a. lið 2. mgr. 9. gr. skulu húsnæðisbætur einungis veittar sé umsækjandi búsettur í íbúðarhúsnæðinu, sbr. þó 10. gr. laganna, en þar eru tilgreindar undanþágur frá skilyrðum um búsetu. Ákvæðið 1. mgr. er svohljóðandi:

Þrátt fyrir skilyrði a-liðar 2. mgr. 9. gr. um búsetu getur einstaklingur átt rétt til húsnæðisbóta vegna leigðs íbúðarhúsnæðis þótt hann eigi skráð lögheimili annars staðar á Íslandi, hafi hann tímabundið aðsetur í húsnæðinu:

a. vegna náms, sbr. 5. tölul. 3. gr., sem hann stundar fjarri lögheimili enda leggi hann fram staðfestingu á skólavist,

b. vegna veikinda enda leggi hann fram vottorð læknis um nauðsyn þess að hann sæki heilbrigðisþjónustu fjarri lögheimili sínu,

c. vegna dvalar á áfangaheimili, sbr. 1. tölul. 3. gr., enda leggi hann fram staðfestingu frá hlutaðeigandi áfangaheimili á því að hann sé þar búsettur tímabundið og hver húsnæðiskostnaður hans sé,

d. í allt að þrjú ár vegna starfs sem hann vinnur fjarri lögheimili enda leggi hann fram ráðningarsamning því til staðfestingar.

Með búsetu er átt við þegar einstaklingur býr í hinu leigða íbúðarhúsnæði og á þar skráð lögheimili samkvæmt lögum nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 75/2016. Óumdeilt er að kærandi er ekki með skráð lögheimili í hinu leigða húsnæði og að undanþáguákvæði 10. gr. laga nr. 75/2016 eiga ekki við um aðstæður hans. Að því virtu uppfyllir hann ekki skilyrði a. liðar 2. mgr. 9. gr. laganna og á því ekki rétt á greiðslu húsnæðisbóta. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 21. janúar 2020, um synjun á umsókn A um húsnæðisbætur er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta