Hoppa yfir valmynd
11. apríl 2025 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Nemendum Kvikmyndaskóla Íslands boðið nám hjá Tækniskólanum

Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur farið þess á leit við Tækniskólann að nemendur Kvikmyndaskóla Íslands fái boð um að innritast í skólann og ljúka námi sínu frá Tækniskólanum. Nemendur yrðu hluti af Tækniakademíu skólans, þar sem nám á fjórða hæfniþrepi fer fram en þar eru fyrir námsbrautirnar stafræn hönnun og vefþróun auk iðnmeistaranáms. Þeir nemendur sem þiggja boð um áframhaldandi nám í Tækniskólanum munu njóta stuðnings náms- og starfsráðgjafa og stjórnenda skólans við yfirfærsluna og öll stoðþjónusta skólans stendur nemendum til boða. Með þessum aðgerðum er verið að koma til móts við þá nemendur, sem ella hefðu ekki kost á að ljúka námi sínu frá Kvikmyndaskóla Íslands, með það að markmiði að mennta þau til brautskráningar í sínu fagi.

Framkvæmd og skipulag yfirfærslunnar verður unnin í nánu samráði við mennta- og barnamálaráðuneytið og aðra hlutaðeigandi og mun Tækniskólinn bjóða nemendum á upplýsingafund eftir helgi. Það er mat stjórnenda Tækniskólans að kjarnastarfsemi skólans og þekking starfsfólks geri þessa yfirfærslu mögulega. Þá er fjölbreytileiki náms í Tækniskólanum mikill kostur fyrir jafn skapandi nám og um ræðir. Samlegðaráhrif ólíkra brauta og fjölbreytt námsframboð skólans getur opnað fjölmörg tækifæri fyrir bæði nemendur og fagið.

Kvikmyndaskóli Íslands hefur verið rekinn með halla um árabil og tilkynnti skólinn um gjaldþrotameðferð í lok marsmánaðar. Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur leitað leiða til að bjóða áfram upp á nám í kvikmyndagerð, en Kvikmyndaskóli Íslands var með eftirtaldar brautir í boði; Leikstjórn og framleiðsla, Skapandi tækni, Handrit og leikstjórn og Leiklist. Allar námsbrautir voru á fjórða hæfniþrepi.

Samhliða ofangreindum aðgerðum hefst vinna við gerð nýrrar námsbrautar í kvikmyndagerð hjá Tækniskólanum. Námsbrautin verður hluti af Tækniakademíunni með námslokum á 4. hæfniþrepi. Námsskipulag á nýrri braut verður byggt á kvikmyndatækni, verkefnastjórn, framleiðslu og handritsgerð. Aukinheldur verður leitað til fyrirtækja í atvinnulífinu um samstarf, m.t.t tækjabúnaðar og vinnustaðanáms. Tilgangurinn er að mennta á framhaldsskólastigi fagfólk í ört vaxandi kvikmyndaiðnaði á Íslandi.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta