Hoppa yfir valmynd
28. ágúst 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Stefnt að því að samræma greiðslur almannatrygginga við greiðslur annarra opinberra kerfa

Fyrsti fundur starfshóps um eftirágreiðslur almannatrygginga var haldinn í morgun í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Hlutverk starfshópsins er að skoða og útfæra leiðir til að breyta núverandi greiðslufyrirkomulagi almannatrygginga. Almannatryggingar eru til dæmis örorkulífeyrir og breytingarnar til þess fallnar að auka samræmi og einfalda kerfið fyrir notendur þess.

Vinna starfshópsins tengist breytingum á örorkulífeyriskerfinu sem Alþingi samþykkti í júní síðastliðinn og ráðherra kynnti í Þjóðmenningarhúsinu í vor undir merkjunum Öll með.

Í núverandi kerfi berast greiðslur almannatrygginga fyrsta dag hvers mánaðar en ekki eftir á eins og almennt tíðkast með launagreiðslur og aðrar greiðslur frá hinu opinbera. Atvinnuleysisbætur eru til dæmis greiddar fyrsta virka dag hvers mánaðar fyrir mánuðinn á undan og það sama á við um greiðslur í fæðingarorlofi. Þá er lífeyrir frá lífeyrissjóðum að jafnaði greiddur eftir á. Greiðslur almannatrygginga í dag eru þannig í ósamræmi við önnur opinber kerfi. Fyrirkomulagið getur auk þess reynst hamlandi, til dæmis við endurkomu fólks á vinnumarkað að lokinni endurhæfingu, því þá getur myndast tekjulaust tímabil í allt að tvo mánuði. Fyrirhugaðar breytingar munu jafnframt koma sér vel fyrir fólk með hlutaörorkulífeyri þar sem greiðslurnar verða til samræmis við launagreiðslur á vinnumarkaði.

Breytingarnar munu enn fremur fela í sér að fólk fær réttari greiðslur þar sem Tryggingastofnun fær þá fyrr upplýsingar um mánaðartekjur greiðsluþega. Stofnunin getur með því uppfært tekjuáætlanir fyrr og þannig minnkað frávik sem myndast við endurreikning og uppgjör viðkomandi árs. Einnig er talið að hagræði felist í breytingu í eftirágreiðslur samhliða fyrirhuguðum rafrænum tengingum Tryggingastofnunar við lífeyrissjóði.

Auk þess að skoða og útfæra leiðir til að breyta núverandi greiðslufyrirkomulagi almannatrygginga skal hópurinn skoða hvort tilefni sé til að breyta greiðslufyrirkomulagi annarra greiðslna sem Tryggingastofnun innir af hendi með það að markmiði að einfalda og jafnvel samræma greiðslufyrirkomulag allra greiðslna frá stofnuninni. Þá er það hlutverk hópsins að leggja mat á kostnað við þær leiðir sem kunna að vera færar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum