Að sofa vel án svefnlyfja
Sofduvel.is er nýr upplýsinga- og fræðsluvefur átaks til vitundarvakningar um skaðsemi svefnlyfja. Markmiðið er að fræða fólk um virkni og margvíslegar aukaverkanir svefnlyfja, stuðla að skynsamlegri notkun þeirra og leiðbeina fólki hvernig það getur bætt svefn sinn án lyfja. Alma D. Möller heilbrigðisráðherra var meðal gesta þegar vitundarvakningunni var ýtt úr vör og ræddi þar um ýmsar skuggahliðar svefnlyfjanotkunar, ekki síst þegar eldra fólk á í hlut. Hún fagnar vitundarvakningunni og leggur áherslu á að til séu öruggari og betri lausnir við svefnvanda en lyf.
Allar upplýsingar og ráðleggingar á Sofduvel eru byggðar á gagnreyndri þekkingu um svefnvandamál og voru þróaðar vegna sambærilegs átaks sem ráðist var í í Kanada og nefnist Sleepwell og hefur verið notað þar með góðum árangri. Íslenska átakið var þróað af Önnu Birnu Almarsdóttur, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla í nánu samstarfi við Landssamband eldri borgara, ásamt fjölda aðila í heilbrigðisþjónustu á Íslandi.
Svefnlyfjanotkun sérlega varasöm fyrir eldra fólk
Í ávarpi sínu sagði Alma með sanni mega segja að svefn sé undirstaða lífsgæða og vandamál tengd svefni sem flestir glími við einhvern tíma á lífsleiðinni geti valdið vanlíðan sem jafnvel heltaki daglegt líf. Margir leiti bót á vandanum með töku svefnlyfja, en það sé hvorki örugg né áhrifarík langtímalausn. Ávinningurinn sé takmarkaður, áhrif svefnlyfjanna séu mest í upphafi en dvíni eftir fjórar vikur. Veruleg hætta sé á að fólk festist í þeim vítahring að telja sig ekki geta án lyfjanna verið og verði háð þeim, því þau eru ávanabindandi Þetta sé alvarlegt, því skaðsemi svefnlyfja er mikil: „Þau auka líkur á byltum og beinbrotum, þau skerða jafnvægi, einbeitingu og minni, og þau geta aukið hættu á heilabilun og lungnabólgu.“ Alma benti einnig á langtímaafleiðingar beinbrota á heilsu eldra fólks og að þess séu fjölmörg dæmi að beinbrot á efri árum marki þáttaskil hjá fólki um getu þess til að búa áfram heima hjá sér í sjálfstæðri búsetu.
„Eldra fólk á skilið að njóta lífsgæða, að vera virkt, heilbrigt og öruggt. Meðvitund okkar um skaðsemi svefnlyfja og betri lausnir er lykillinn að því að ná þessum markmiðum. Það þarf kjark og þolinmæði til að hætta á svefnlyfjum og mikilvægt að gera það samkvæmt leiðbeiningum því fólk mun fá tímabundin fráhvarfseinkenni. En það er til mikils að vinna gott fólk“ sagði Alma að lokum.
Ráðherra hvetur fólk til að kynna sér vefinn Sofduvel þar sem eru vandaðar gagnreyndar upplýsingar um leiðir til að endurheimta gæðasvefn og hætta á svefnlyfjum.