Hoppa yfir valmynd
20. nóvember 2024 Matvælaráðuneytið

Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðiráðið samþykkir verndunar- og stjórnunarráðstafanir fiskistofna, áframhaldandi bann við karfaveiðum á Reykjaneshrygg

Verndunar- og stjórnunarráðstafanir fyrir norsk-íslenska síld, makríl, búrfisk (búra) og ýsu á Rockall-banka voru samþykktar á ársfundi Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðiráðsins (NEAFC), sem haldinn var í London dagana 12.-15. nóvember.

Samþykktirnar gilda fyrir árið 2025 og eru gerðar á á grundvelli nýjustu ráðgjafar Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES). Stjórnunarráðstafanir fyrir háf voru einnig framlengdar auk banns við veiðum á hámeri. Þá samþykktu öll aðildarríki tillögu um stjórn karfaveiða í Síldarsmugunni eftir ósamkomulag til margra ára.

Ekki liggur fyrir samkomulag varðandi veiðar úr deilistofnunum norsk-íslenskri síld, kolmunna og makríl. Því nær ákvörðun ársfundarins eingöngu til sameiginlegs viðmiðunar heildaraflamarks, að ríkin skuli setja sér takmarkanir og að öðrum en aðildarríkjum sé óheimilt að veiða úr þessum stofnum á úthafinu.

Á grunni vísindaráðgjafar ICES var að auki samþykkt áframhaldandi bann við veiðum á karfa á Reykjaneshrygg. Rússland greiddi atkvæði, eins og hingað til, á móti þessu veiðibanni og mun líklega mótmæla reglunum formlega til að vera ekki bundið af þeim. Önnur aðildarríki munu framfylgja veiðibanninu og ýmsum reglum sem þrengja að stöðu þeirra rússnesku skipa sem taka þátt í veiðunum.

Áhrif innrásar Rússlands inn í Úkraínu hefur að stórum hluta lamað starfsemi nefnda og vinnuhópa NEAFC. Á fundinum var því lögð áhersla á að finna leiðir til að auka virkni innan stofnunarinnar þrátt fyrir að önnur aðildarríki viðhaldi þeirri stefnu að eiga ekki í venjulegum samskiptum við Rússland vegna árásarstríðsins.

NEAFC hefur á undanförnum árum verið í nánu samstarfi við ýmsar aðrar alþjóðastofnanir, t.d. vegna OSPAR samningsins um verndun Norðaustur-Atlantshafsins. Til stendur að efla slíkt samstarf enn frekar, og í því sambandi m.a. að útnefna ákveðin hafsvæði til S.þ. samningsins um líffræðilega fjölbreytni. Þá mun NEAFC halda áfram að nýta sérfræðiþekkingu sína til að efla fiskveiðistjórnun víða um heiminn, í samstarfi við Landbúnaðar- og matvælastofnun S.þ. (FAO).

Stefán Ásmundsson var kosinn forseti NEAFC á fundinum og mun hann gegna því hlutverki næstu tvö árin. Embættið gengur milli aðildarlanda NEAFC og tekur Stefán við af Janet Skarðsá frá Færeyjum sem verið hefur forseti síðastliðin fjögur ár. Aðildarríki NEAFC eru Bretland, Danmörk (varðandi Færeyjar og Grænland), Evrópusambandið, Ísland, Noregur og Rússland. Ráðið fer með stjórn fiskveiða á úthafinu í Norðaustur-Atlantshafi.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta