Hoppa yfir valmynd
9. febrúar 2022 Heilbrigðisráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

​Norðurlöndin ráðast í greiningu á sameiginlegri getu til að þróa og framleiða bóluefni

​Norðurlöndin ráðast í greiningu á sameiginlegri getu til að þróa og framleiða bóluefni - myndHeilbrigðisráðuneytið

Norðurlandaþjóðirnar hafa ákveðið að ráðast í greiningu á sameiginlegri getu sinni til að rannsaka, þróa og framleiða bóluefni og fýsileika norræns samstarfs til nýsköpunar á þessu sviði. Ráðist er í verkefnið að frumkvæði iðnaðar- og viðskiptaráðherra Svía en heimsfaraldur Covid-19 hefur varpað ljósi á mikilvægi öflugs samstarfs Norðurlandaþjóðanna, m.a. með samhæfingu aðgerða og viðbúnaði gegn skorti á hráefnum og aðföngum þegar vá stendur fyrir dyrum.

Á vegum norrænu heilbrigðisráðherranna hefur einnig átt sér stað umræða um aðgerðir til að tryggja aðföng lyfja á Norðurlöndunum, möguleika á sameiginlegri framleiðslu lífsnauðsynlegra lyfja og samstarfi innan Evrópu um viðbúnað við faraldri. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og heilbrigðisráðherra hafa því ákveðið að standa sameiginlega að þátttöku Íslands í norræna greiningarverkefninu,  þar sem eftirfarandi þættir verða kannaðir:

  • Samlegðaráhrif og helstu tækifæri til samstarfs á sviði bóluefna, þ.m.t. í rannsóknum, þróun, nýsköpun, framleiðslu og dreifingu.
  • Helstu veikleika í núverandi framleiðslu og dreifingu bóluefna á Norðurlöndum á tímum faraldurs og hvernig bregðast megi við þeim.
  • Hvernig norrænt samstarf gæti styrkt þátttöku landanna í verkefnum Evrópusambandsins á þessu sviði og öðru alþjóðlegu samstarfi.

„Mikilvægi norræns samstarfs verður seint ofmetið og það er rík ástæða til að styrkja það enn frekar. Þjóðirnar búa að sterkum innviðum og miklum mannauði og geta áorkað miklu með því að leggja saman krafta sína. Ég fagna þessu frumkvæði Svía, segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.

„Það er orðið löngu tímabært að greina þau tækifæri sem eru til staðar hér á landi, þegar kemur að rannsóknum og nýsköpun í heilbrigðistækni og heilbrigðisþjónustu. Íslendingar geta lagt mikilvægan skerf til rannsókna og nýsköpunar á sviði bóluefna, í góðu samstarfi við grannþjóðir okkar á Norðurlöndunum. Við fögnum því verkefni sem nú fer af stað og hlökkum til að sjá tillögur um næstu skref“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Gerður hefur verið samningur við fyrirtækið Landás ehf. um að annast greiningarvinnuna hér á landi. Miðað er við að sameiginleg skýrsla Norðurlandaþjóðanna verði tilbúin í maí næstkomandi og tillögur til norrænu ráðherranna um samstarf á þessu sviði kynntar í framhaldinu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta