Dregið hefur úr fátækt á síðustu 20 árum
Dregið hefur úr hlutfalli tekjulágra á Íslandi á síðastliðnum 20 árum. Staðan á Íslandi er með því besta sem þekkist meðal samanburðarlanda sem breytir þó ekki þeirri staðreynd að fátækt er til staðar í íslensku samfélagi. Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu sem unnin var fyrir forsætisráðherra. Ríkisstjórnin samþykkti í morgun að áfram verði unnið að rannsóknum á fátækt meðal einstakra hópa og lagt fram reglulegt stöðumat.
Skýrslunni sem ber heitið Fátækt og áætlaður samfélaglegur kostnaður hefur verið dreift á Alþingi en tilefni gerð hennar er skýrslubeiðni til forsætisráðherra sem samþykkt var á þingi síðastliðið haust.
Í skýrslunni kemur fram að hlutfall tekjulágra á Íslandi hafi verið 13,5% árið 2020 en til samanburðar var hlutfallið 15,3% árið 2000. Þá er líklegt að hlutfall tekjulágra meðal háskólanema sé ofmetið þar sem ekki var unnt að fá gögn um námslán.
Sem fyrr standa einstæðir foreldrar, örorkulífeyrisþegar og innflytjendur verst þegar kemur að fátækt. Í skýrslunni er dregið fram að vinna þurfi að sérhæfðari greiningu á hverjum hópi fyrir sig til að lyfta þessum hópum upp fyrir lágtekjumörk. Þá ætti fátækt barna að vera sérstakt viðfangsefni enda má ætla að um 9.000 börn hafi talist undir lágtekjumörkum árið 2020.
Skýrsluhöfundar áætla að heildarkostnaður samfélagsins vegna fátæktar nemi á bilinu 31-92 milljörðum króna á ári eða um 1-2,8% af vergri landsframleiðslu. Þó er tekið fram að slíkum útreikningum beri að taka með fyrirvara en þeir byggja á forsendum og þeim gögnum sem liggja fyrir.
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í dag að veita 8 milljónir króna af ráðstöfunarfé sínu til frekari rannsókna á fátækt á Íslandi. Þannig mun hópur fræðimanna vinna með sérfræðingum Stjórnarráðsins að því að vinna úr gögnum um fátækt og skila forsætisráðherra samantekt um stöðumat og valkosti á 3-4 mánaða fresti.