Hoppa yfir valmynd
26. nóvember 2024 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Meira og betra verknám með stækkun FB

Óskar Jósefsson forstjóri FSRE, Lovísa Eðvarðsdóttir formaður nemendaráðs, Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir skólameistari, Einar Þorsteinsson borgarstjóri og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, taka fyrstu skóflustungurnar að nýrri byggingu fyrir starfsnám í FB / Mynd: Hallur Karlsson - mynd

Framkvæmdir eru að hefjast á 2.654 fermetra verknámsaðstöðu fyrir húsasmíði, rafvirkjun og listgreinar við Fjölbrautaskólann í Breiðholti (FB). Mennta- og barnamálaráðherra, borgarstjóri, forstjóri FSRE, skólameistari, formaður nemendaráðs tóku fyrstu skóflustungur við hátíðlega athöfn með nemendum og starfsfólki í dag.

Nýja viðbyggingin mun stórauka aðgang að starfs- og verknámi á höfuðborgarsvæðinu og meira en tvöfalda starfsnámsaðstöðu FB.

„Stækkun verknámsaðstöðu FB er lykilskref á þeirri vegferð að auka aðgengi að starfsmenntun og mæta þörfum fjölbreytts vinnumarkaðar. Þetta er fjárfesting í framtíð ungs fólks og íslensks samfélags,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra að þessu tilefni.

“Með þessari viðbyggingu aukast tækifæri ungs fólks í Reykjavík. Það er afar mikilvægt að styrkja þessar námsleiðir og auka fjölbreytileika í valkostum til náms. FB er afar framsækinn skóli og ánægjulegt að ráðast í enn frekari uppbyggingu á framhaldsskólastigi hér í Breiðholtinu,” segir Einar Þorsteinsson borgarstjóri.

Verktakafyrirtækið Eykt annast framkvæmdina. Kostnaður er 1,8 milljarðar króna og skiptist milli ríkis (60%) og borgar (40%).

Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir skólameistari, Páll Daníel Sigurðsson framkvæmdastjóri Eyktar, Einar Þorsteinsson borgarstjóri, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Óskar Jósefsson forstjóri FSRE við undirritun samnings um framkvæmdina í dag

Framkvæmdin er liður í aðgerðum stjórnvalda um meira og betra verknám. Gengið var frá samkomulagi um nýjan tækniskóla við Flensborgarhöfn í Hafnarfirði í sumar. Opnuð var ný pípulagningardeild í Borgarholtsskóla í fyrra og frekari stækkun fyrirhuguð. Þá voru gerðir samningar í vor um stækkun verknámsaðstöðu Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Verkmenntaskólans á Akureyri, Menntaskólans á Ísafirði og Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, samtals um allt að 5.800 m2.

Fjölbrautaskólinn í Breiðholti er elsti fjölbrautaskóli landsins, stofnaður 1975. Stefna skólans er að leggja jafna áhersla á bók-, list- og verknám og mæta þannig námsþörfum og áhugasviði ólíkra nemenda.

Fjöldi nemenda stundar nám í húsasmíði (332) og rafvirkjun (412) við FB jafnt í dagskóla sem kvöldskóla. Með flutningi rafvirkjadeildar í hið nýja húsnæði og stórbættri aðstöðu fyrir kennslu í húsasmíði og myndlist verður stuðlað að frjóu samlífi verknáms og listnáms í skólanum þar sem kennsla ungmenna fer fram á daginn og kennsla fullorðinna á kvöldin.

Skólinn styrkist sem lifandi vettvangur fjölbreytts mannlífs í hjarta Breiðholtsins.

Ráðherra í essinu sínu

Mennta- og barnamálaráðuneytið
Reykjavíkurborg
Fjölbrautaskólinn í Breiðholti

Uppfært 26.11.24 kl. 14:20

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta