Hoppa yfir valmynd
20. október 2022 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Skipun í þrjú embætti skrifstofustjóra

Anna Tryggvadóttir, Árni Jón Árnason og Þorsteinn Hjartarson - mynd

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hefur ákveðið að skipa Önnu Tryggvadóttur, Árna Jón Árnason og Þorstein Hjartarson í þrjú embætti skrifstofustjóra í mennta- og barnamálaráðuneytinu samkvæmt nýju skipulagi.

Anna Tryggvadóttir er skipuð í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu ráðuneytisstjóra og innri þjónustu. Hún er með B.A.- og Mag. Jur.-próf í lögfræði frá Háskóla Íslands og hefur starfað hjá hinu opinbera allan sinn starfsferil. Hún hefur starfað innan Stjórnarráðs Íslands frá 2019, fyrst hjá félagsmálaráðuneytinu og síðar mennta- og barnamálaráðuneytinu, bæði sem yfirlögfræðingur og staðgengill skrifstofustjóra. Áður starfaði Anna m.a. sem varaformaður og staðgengill forstöðumanns hjá Kærunefnd útlendingamála 2016–2019 og sem lögfræðingur hjá Umboðsmanni Alþingis 2011–2016. Hún hefur setið í ýmsum stjórnsýslunefndum og starfað sem stundarkennari við lagadeildir Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík þar sem hún hefur m.a. kennt stjórnsýslurétt, opinberan starfsmannarétt og mannauðsstjórnun ríkis og sveitarfélaga.

Árni Jón Árnason er skipaður í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu greiningar og fjármála. Árni er M.Sc. í fjármálum frá University of Strathclyde, Glasgow með sérstaka áherslu á fjárfestingar, fjármál fyrirtækja og tölfræði. Hann er jafnframt Cand. Oecon. frá Háskóla Íslands. Árni hefur starfað sjálfstætt við fjármálaráðgjöf frá 2016 en áður var hann m.a. einn meðeiganda hjá Deloitte 2006–2016 og starfaði við eftirlit með viðskiptabönkum og fjármálafyrirtækjum hjá Fjármálaeftirlitinu. Þá starfaði hann um 10 ára skeið sem stundakennari við Háskóla Íslands þar sem hann kenndi m.a. mat fjárfestingahugmynda og opinberra framkvæmda, fjárfestingar og fjármál fyrirtækja.

Þorsteinn Hjartarson er skipaður í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu stefnumótunar og innleiðingar. Þorsteinn er með M.Ed.-gráðu í stjórnun menntastofnana frá Kennaraháskóla Íslands og íþróttakennarapróf frá Íþróttakennaraskóla Íslands. Auk þess hefur hann stundað nám við Idrætshøjskolen i Sønderborg og á félagsvísindasviði Háskóla Íslands. Þorsteinn var m.a. skólastjóri Fellaskóla 2000–2007, framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Breiðholts 2007–2011, fræðslustjóri Árborgar 2011–2019 og hefur verið sviðsstjóri fjölskyldusviðs Árborgar frá árinu 2019.

Ráðgefandi hæfnisnefndir skipaðar samkvæmt 19. gr. laga 115/2011 um Stjórnarráð Íslands lögðu mat á hæfni umsækjenda. Öll hafa þau viðamikla reynslu af breytingarstjórnun og stjórnun krefjandi verkefna auk sérþekkingar á sínum sviðum. Þá búa þau öll yfir farsælli reynslu af stjórnunarstörfum og uppbyggingu liðsheildar.

Skipað er í embættin til fimm ára.

Í ljósi áforma um viðamiklar breytingar á menntakerfinu, flutning verkefna milli stofnana og samtals við haghafa hefur verið ákveðið að fækka skrifstofum ráðuneytisins um eina með niðurlagningu skrifstofu gæða og eftirlitsmála. Var því ekki skipað í auglýst embætti skrifstofustjóra gæða og eftirlitsmála. Starfsfólk skrifstofunnar færist til annarra skrifstofa innan ráðuneytisins. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta