Leitin að peningunum skilaði árangri – og heldur áfram
Verkefninu Leitin að peningunum verður haldið áfram en Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags og vinnumarkaðsráðherra, og Ásta Sigrún Helgadóttir, umboðsmaður skuldara, hafa undirritað samning um áframhald fræðsluverkefnisins og mun það nú ná til fleiri hópa sem eiga í fjárhagsvanda.
Verkefninu var fyrst ýtt úr vör árið 2020 í kjölfar ábendinga umboðsmanns skuldara um vanda ungs fólks sem leitað hafði ráða hjá stofnuninni vegna skyndilána. Til að bregðast við þeirri aðkallandi stöðu var ákveðið að fara af stað með sérstakt fræðsluverkefni í samvinnu við félags- og barnamálaráðuneytið þar sem aðalmarkhópurinn yrði ungt fólk á aldrinum 18-25 ára.
Í kjölfarið voru gefnir út 52 hlaðvarpsþættir sem nutu mikilla vinsælda á hlaðvarpsveitum og var hlaðið niður um 250.000 sinnum á tæpu einu og hálfu ári. Þættirnir og viðfangsefni þeirra voru auk þess reglulega til umfjöllunar í fjölmiðlum meðan á verkefninu stóð. Auk þess voru helstu ráðin úr hlaðvarpsþáttunum tekin saman í hljóðbókarkafla og hefur hlustun á þá sömuleiðis verið mikil.
Dæmi um hlaðvarpsþætti:
- Þetta reddast er versta fjármálaráðið
- Ef maður nær nógu mörgum litlum markmiðum þá nær maður á endanum stóra markmiðinu
- Spurt og svarað um fjárfestingar
- Sátt manneskja kaupir sér ekki neitt
- Hagsýni við matarinnkaup og fjármál við skilnað
- Allt það sem þú vildir vita um hagfræði
Í kjölfar aukinnar umræðu um skaðsemi skyndilána og fræðslu til ungs fólks um fjármál hefur umsóknum frá þeim hópi fækkað verulega hjá umboðsmanni skuldara.
Verkefnið fram undan
Stærsti hópur allra umsækjenda um aðstoð vegna fjárhagsvanda hjá umboðsmanni skuldara það sem af er árinu 2022 eru öryrkjar. Stór hópur umsækjenda eru einnig einstaklingar í félagslega viðkvæmri stöðu. Samkvæmt ofangreindum samningi um áframhald fræðsluverkefnisins er markmiðið að reyna nú að ná til þessara hópa og miðla fræðslu með sérsniðnum upplýsingum um fjármál sem fólk getur speglað sig í. Leitað verður eftir samstarfi við hagsmunasamtök þeirra hópa sem framhaldsverkefnið snýr að.
„Það er virkilega ánægjulegt að dregið hafi úr umsóknum ungs fólks hjá umboðsmanni skuldara og spennandi að halda samstarfinu áfram. Ég hlakka til að sjá afurðina og hvet fólk sömuleiðis til að hlusta á þættina sem þegar hafa verið gerðir. Þar er heill hafsjór af fróðleik sem getur nýst okkur öllum,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.