Ríkisstjórnin styrkir gerð heimildaþátta um COVID-19 og Eurovision-safn á Húsavík
Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í morgun að styrkja gerð heimildaþátta um COVID-19 faraldurinn á Íslandi og uppbyggingu Eurovision-safns á Húsavík.
Styrkurinn vegna heimildaþátta um COVID-19 faraldurinn nemur 5 milljónum króna. Í þáttunum, sem Jóhannes Kr. Kristjánsson og Sævar Guðmundsson standa að, er ætlunin að skrásetja útbreiðslu og áhrif COVID-19 faraldursins á íslensku þjóðina sem og viðbrögð stjórnvalda við honum. Vonir standa til að sex þættir verði tilbúnir til sýningar næsta haust.
Þá verður uppbygging Eurovison-safns á Húsavík styrkt um 2 milljónir króna. Stefnt er að opnun safnsins í maí nk. á 65 ára afmæli Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Könnunarsögusafnið á Húsavík stendur fyrir opnun Eurovision-safnsins í samstarfi við Húsavíkurstofu, RÚV, Samband evrópskra sjónvarpsstöðva og Netflix.