Hoppa yfir valmynd
11. september 2024 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Listaháskólinn verði á Skólavörðuholti í stað Tollhússins

Samþykkt hefur verið í ríkisstjórn að skoða af mikilli alvöru þá ósk Listaháskóla Íslands (LHÍ) að starfsemi skólans verði sameinuð í húsnæði Tækniskólans á Skólavörðuholti í stað Tollhússins við Tryggvagötu, sem áður var áætlað. Samkvæmt nýrri greiningu myndi þessi breyting ekki aðeins bæta verulega aðstöðu fyrir nemendur og kennara heldur einnig spara milljarða króna í framkvæmdakostnaði.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, fagnar frumkvæði Listaháskólans og segir hugmyndina afar skynsamlega.

„Með þessari lausn nýtum við betur fjármuni ríkisins og lækkum kostnað verulega – jafnvel um allt að 10 milljarða króna. Þetta er skýrt dæmi um hvernig árangurstengd fjármögnun sem nú er verið að innleiða í háskólunum knýr fram betri ákvarðanir og hagkvæmari lausnir. Þegar gagnsæi er til staðar á sama tíma og innleiddir eru hvatar til að nýta fjármagn sem best í þágu nemenda forgangsraða skólarnir fjármagni sínu betur. Áður kepptust skólar við að byggja sem mest húsnæði og kostnaðurinn hafði ekki áhrif á rekstur skólanna. Nú fá skólarnir heildarfjárveitingu byggða á árangri þeirra í menntun nemenda og rannsóknum og hluti af fjármagninu fer í leigu á húsnæði sem þeir nota. Við sjáum að þessi nýja nálgun fær skólana til að hugsa sín húsnæðismál upp á nýtt og nú leggja þeir í auknum mæli áherslu á hagkvæmt húsnæði, sem nýtist starfseminni sem best. Þetta sýnir hvernig fjárveitingar sem byggja á heilbrigðum hvötum geta leitt til betri ákvarðana.“

Að sögn Kristínar Eysteinsdóttur þá fagnar Listaháskólinn stuðningi ríkis og borgar í þessu máli.

„Meginmarkmið mitt í starfi er að koma Listaháskólanum undir eitt þak í framtíðarhúsnæði sem samræmist þörfum og kröfum skólans. Skólavörðuholtið stóð okkur ekki til boða þegar áform um Tollhúsið voru samþykkt og því dýpra sem við skoðuðum Tollhúsið þá blasti við okkur sífellt meiri óvissa varðandi kostnað, niðurrif og framkvæmdir, auk þess voru verklok þar ekki áætluð fyrr en eftir 8 til 10 ár. Ég vil taka ábyrga ákvörðun sem raunverulega færir okkur framtíðarhúsnæði fyrir Listaháskólann sem fyrst enda er það afar aðkallandi að leysa húsnæðisvanda skólans. Á Skólavörðuholtinu getum við unnið þetta helmingi hraðar og lækkað kostnað um fleiri milljarða sem felur í sér að Listaháskólinn getur mætt leigusamningi sínum við ríkið en sá samningur mun taka mið af heildarkostnaði framkvæmdarinnar. Skólavörðuholtið býður upp á góðar tengingar við menningarstofnanir borgarinnar og almenningssamgöngur eru góðar. Möguleikar til stækkunar og þróunar eru fyrir hendi og þessi staðsetning býður upp á tækifæri fyrir Listaháskólann til að vera afgerandi þátttakandi í mótun borgarumhverfisins. Út frá umhverfis sjónarmiðum er þetta líka jákvætt skref því ekki er þörf á niðurrifi á húsnæði Tækniskólans og framkvæmdir við viðbyggingu eru tiltölulega einfaldar. Við hlökkum því til framhaldsins og að sigla þessu verkefni í höfn.“

Tilefni til að endurskoða fyrri áætlanir

Fyrstu áform um að sameina LHÍ í Tollhúsinu voru kynnt á ríkisstjórnarfundi í ágúst 2021, en kennsla skólans fer í dag fram í sex byggingum víðsvegar um Reykjavík. Uppbyggingar framtíðarhúsnæðis LHÍ í Tollhúsinu er jafnframt getið í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og í maí 2022 var undirrituð viljayfirlýsing sama efnis milli ríkis, LHÍ og Reykjavíkurborgar.

Með flutningi Tækniskólans í nýtt húsnæði í Hafnarfirði, sem áætlað er að rísi haustið 2029, skapast tækifæri til að nýta húsnæði skólans á Skólavörðuholti með öðrum hætti. LHÍ hafði frumkvæði að því að vinna greinargerð um mögulegan flutning starfsemi sinnar á Skólavörðuholt og gefur sú greinargerð tilefni til að endurskoða fyrri áætlanir um nýtt framtíðarheimili LHÍ í Tollhúsinu.

Framkvæmdasýsla-Ríkiseignir áætlar að framkvæmdir við Tollhúsið muni kosta tæplega 17 milljarða króna, sem er um 5 milljörðum meira en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir. Ekki aðeins þyrfti að rífa hluta Tollhússins heldur einnig reisa um 9000 fermetra nýbyggingu til að húsnæðið nýttist starfsemi LHÍ, auk þess sem aðstæður í Kvosinni auka flækjustig slíkrar framkvæmdar. Aukni kostnaðurinn myndi leiða til ríflega 45% hærra leiguverðs hjá LHÍ frá fyrri áætlunum sem mæta þyrfti með hagræðingu á öðrum sviðum. Jafnframt eru takmarkaðir stækkunarmöguleikar fyrir hendi við Tryggvagötu en aðsókn í LHÍ hefur aukist mikið eftir niðurfellingu skólagjalda.

Von á niðurstöðum í lok nóvember

Aðra sögu er að segja af Skólavörðuholti. Húsnæði Tækniskólans er þegar hannað fyrir kennslu, bæði í verk- og bókgreinum, og húsnæðið þarfnast ekki viðlíka niðurrifs eða viðbygginga. Að sama skapi væru fleiri stækkunarmöguleikar fyrir hendi á Skólavörðuholti en í Tryggvagötu, ef þörf krefði. Áætlað hefur verið að LHÍ gæti flutt inn í Tollhúsið eftir átta til tíu ár en í tilfelli Skólavörðuholts yrðu það að líkindum fjögur til fimm ár.

Til þess að greiða úr ýmsum óvissuþáttum verður skipaður verkefnahópur með fulltrúum háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins, forsætisráðuneytisins, fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Reykjavíkurborgar og LHÍ. Hópurinn mun kanna fýsileika þess að koma LHÍ fyrir í húsnæði Tækniskólans á Skólavörðuholti og er miðað við að hann skili af sér niðurstöðu fyrir 29. nóvember næstkomandi. Meðan á vinnu hópsins stendur verða ekki gerðar aðrar ráðstafanir með húsnæði Tækniskólans. Verði niðurstaða hópsins á þá leið að Skólavörðuholt sé óhagkvæmara fyrir LHÍ verður áfram unnið út frá upphaflegum áætlunum um flutning skólans í Tollhúsið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum