04 Utanríkismál
Skilgreining málefnasviðs
Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð utanríkisráðherra. Það skiptist í fjóra málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu. Þar má jafnframt sjá fjárhagslega þróun málefnasviðsins og einstakra málaflokka á tímabilinu 2022–2024. Helstu áherslum, framtíðarsýn og meginmarkmiðum á málefnasviðinu er lýst í fjármálaáætlun.
Útgjaldarammi – heildaryfirlit og breytingar eftir tilefnum
Myndin hér á eftir sýnir sundurliðaðar breytingar á útgjaldaramma málefnasviðsins eftir helstu tilefnum, sem nánar er greint frá í inngangskafla málefnasviða.
Heildargjöld málefnasviðs 04 Utanríkismál árið 2024 eru áætluð 15.732,8 m.kr. og lækka um 1.914,7 m.kr. á föstu verðlagi fjárlaga 2023, eða sem svarar til 11,4%. Þegar tekið er tillit til áhrifa af almennum launa- og verðlagsbreytingum lækka útgjöldin um 1.053,4 m.kr. milli ára, eða sem svarar til 6,3%.
Myndin endurspeglar þá útfærslu og forgangsröðun sem unnin er út frá stefnumótun málefnasviðsins. Niðurstaðan getur eftir atvikum vikið frá þeim viðmiðum sem gengið var út frá í fjármálaáætlun, t.a.m. þannig að nýju útgjaldasvigrúmi hafi að einhverju leyti verið jafnað á móti aðhaldsmarkmiði. Aðhaldsmarkmiðið felur m.a. í sér sértækar afkomubætandi aðhaldsráðstafanir á málefnasviðum og er nánar fjallað um þær í kafla 5 Gjöld ríkissjóðs.
Útgjaldarammi – hagræn skipting útgjalda
Í eftirfarandi töflu eru útgjöld málefnasviðsins, þróun fjárheimilda og fjármögnun frá árinu 2021 greind í fjóra þætti eftir hagrænni skiptingu, eins og nánar er greint frá í inngangskafla málefnasviða. Hagræn skipting útgjalda niður á málaflokka birtist í fylgiriti með fjárlögum.
04.10 Utanríkisþjónusta og stjórnsýsla utanríkismála
Starfsemi málaflokksins er í höndum aðalskrifstofu ráðuneytisins, þýðingamiðstöðvar, sendiráða, sendiskrifstofa og borgaraþjónustu. Markmið og aðgerðir málaflokksins skarast að einhverju leyti við markmið og aðgerðir málaflokks 04.20 Utanríkisviðskipti. Utanríkisþjónustan öll sinnir hagsmunagæslu gagnvart erlendum ríkjum og á vettvangi alþjóðastofnana, þjónustu við íslenska ríkisborgara erlendis, viðskiptasamningum og markaðssetningu erlendis á íslenskum vörum, þjónustu og menningu. Fjölþjóðastofnanir, alþjóðalög, lýðræðisleg gildi og mannréttindi hafa átt á brattann að sækja og er það stefna íslenskra stjórnvalda að Ísland leggi sitt af mörkum til að sporna við þeirri þróun. Ísland á allt sitt undir því að alþjóðalög, lögsaga og landamæri séu virt og því felast lykilhagsmunir í virkri þátttöku í alþjóðlegu og svæðisbundnu samstarfi. Íslensk stjórnvöld taka einnig virkan þátt í loftslagsaðgerðum og samstarfi umhverfis- og auðlindamála til að stuðla að sjálfbærri þróun. Störf Íslands á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og undirstofnana þeirra eru veigamikill liður í þessu og formennska Íslands í Evrópuráðinu er dæmi um ábyrgðarhlutverk sem Ísland tekur að sér til að fylgja eftir stefnu- og hagsmunamálum Íslands og leggja um leið sín lóð á vogarskálarnar til að auka virðingu fyrir mannréttindum og efla samstarf og skilning meðal þjóða. Þróunarsamvinna, öryggis- og varnarmálasamstarf, sem heyra undir önnur málefnasvið og málaflokka, sem og alþjóðaviðskipti miða að sama marki.
Nánar er fjallað um málaflokkinn í fjármálaáætlun, þar á meðal skiptingu ábyrgðar, helstu áskoranir og tækifæri, markmið og mælikvarða um árangur o.fl.
Í eftirfarandi töflu má sjá helstu verkefni málaflokksins árið 2024 og tengingu þeirra við markmið ásamt helstu breytingum sem verða á fjárveitingum á milli ára. Eingöngu eru sýndar breytingar sem verða á fjárveitingum til verkefna frá fjárlögum ársins 2023. Þannig endurspegla fjárhæðir ekki heildarfjárveitingar til verkefna nema í tilvikum þar sem breyting á milli ára felur í sér heildarfjármögnun verkefnisins.
Helstu verkefni 2024 |
Framkvæmdaraðili |
Breyting á fjárveitingu til verkefnis |
Markmið 1: Standa vörð um grunngildi Íslands á vettvangi fjölþjóðlegrar samvinnu |
||
Fastanefnd Íslands hjá Evrópuráðinu í framhaldi af formennsku (2022–2023). |
Utanríkisráðuneyti |
58,5 m.kr. |
Virkt málsvarastarf á vettvangi fjölþjóðastofnana og þátttaka í alþjóðlegu samstarfi í þágu mannréttinda, lýðræðis og þjóðaréttar. |
Utanríkisráðuneyti |
Innan ramma |
Aukin þátttaka í svæðisbundnu samstarfi Norðurlanda og norðurslóðaríkja. |
Utanríkisráðuneyti |
Innan ramma |
Efling samstarfs þvert á fagráðuneyti og aukin þátttaka í alþjóðlegu samstarfi um sjálfbæra nýtingu auðlinda, þ.m.t. á sviði hafréttar. |
Utanríkisráðuneyti |
Innan ramma |
Fylgja eftir jafnréttisáherslum Íslands á alþjóðavettvangi. |
Utanríkisráðuneyti |
Innan ramma |
Markmið 2: Standa vörð um hagsmuni íslenskra ríkisborgara erlendis |
||
Styrking borgaraþjónustu, aukin upplýsingamiðlun til almennings á vef og innleiðing stafrænna lausna. |
Utanríkisráðuneyti og stjórnsýslustofnanir |
Innan ramma |
Fjölgun kjörræðismanna og stuðningur við þjónustu þeirra við íslenska ríkisborgara erlendis. |
Utanríkisráðuneyti |
Innan ramma |
Markmið 3: Standa vörð um hagsmuni Íslands með tvíhliða samvinnu við þjóðríki |
||
Aukið pólitískt samráð við helstu samstarfsríki og kynning á afstöðu og áherslum Íslands. |
Utanríkisráðuneyti |
Innan ramma |
Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2024 er áætluð 7.070,1 m.kr. og lækkar um 534,3 m.kr. frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum en þær nema 477,1 m.kr.
Ekki er um miklar breytingar á hagrænni skiptingu innan málaflokksins að ræða.
Helstu breytingar á fjárheimildum málaflokksins eru eftirtaldar:
- Fjárheimild málaflokksins lækkar um 210 m.kr. sem skýrist af niðurfellingu tímabundinna framlaga vegna formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni, 75 m.kr., og Evrópuráðinu, 135 m.kr.
- Hlutdeild málaflokksins í aðhaldskröfu málefnasviðsins nemur 402,3 m.kr. og er gert ráð fyrir að um 286 m.kr. verði útfærðar á aðalskrifstofu ráðuneytisins og þýðingamiðstöð og um 116 m.kr. komi til lækkunar á framlögum til sendiskrifstofa.
- Á móti hækka framlög sem nemur 78 m.kr., eða 65 m.kr. vegna áframhaldandi starfsemi fastanefndar Íslands hjá Evrópuráðinu og 13 m.kr. vegna almenns útgjaldasvigrúms sem ekki hefur verið fellt niður.
04.20 Utanríkisviðskipti
Utanríkisviðskipti eru í höndum aðalskrifstofu ráðuneytisins, sendiskrifstofa og Íslandsstofu en fjárheimildir undir málaflokki 04.20 renna eingöngu til starfa Íslandsstofu. Íslandsstofu er falið að sjá um markaðssetningu og kynningarstarf erlendis á íslenskum vörum, þjónustu og menningu í samstarfi við ráðuneytið. Markmið og aðgerðir málaflokksins skarast að einhverju leyti við markmið og aðgerðir málaflokks 04.10 Utanríkisþjónusta og stjórnsýsla utanríkismála en alþjóðlegt og tvíhliða samstarf um utanríkisviðskipti, tengd hagsmunagæsla og samningagerð um utanríkisviðskipti eru fjármögnuð undir málaflokki 04.10. Markmiðasetning fellur þó undir málaflokk 04.20. Sú markmiðasetning snýr að starfi ráðuneytisins sem viðkemur framkvæmd samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES), málefnum Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA), Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) og Alþjóðaviðskiptamálastofnunarinnar (WTO). Áhersla er lögð á að tryggja stuðning við íslenska útflutningshagsmuni enda lögbundið hlutverk utanríkisþjónustunnar og forgangsmál. Viðskiptaþjónusta er einn lykilþátta í starfi sendiskrifstofa Íslands erlendis sem ásamt Íslandsstofu kynna Ísland, íslenska menningu, vörur og þjónustu og veita ráðgjöf til fyrirtækja.
Nánar er fjallað um málaflokkinn í fjármálaáætlun, þar á meðal helstu áskoranir og tækifæri, markmið og mælikvarða um árangur o.fl.
Í eftirfarandi töflu má sjá helstu verkefni málaflokksins árið 2024 og tengingu þeirra við markmið, ásamt helstu breytingum sem verða á fjárveitingum milli ára. Eingöngu eru sýndar breytingar sem verða á fjárveitingum til verkefna frá fjárlögum ársins 2023. Þannig endurspegla fjárhæðir ekki heildarfjárveitingar til verkefna nema í þeim tilvikum þar sem breyting á milli ára felur í sér heildarfjármögnun verkefnisins.
Helstu verkefni 2024 |
Framkvæmdaraðili |
Breyting á fjárveitingu til verkefnis |
Markmið 1: Efla ímynd og orðspor Íslands og styrkja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs á erlendum mörkuðum |
||
Framfylgja Framtíðarstefnu fyrir íslenskan útflutning. Þar hafa verið skilgreind mælanleg árangursviðmið sem verða notuð til að meta árangur af starfi.[1] |
Utanríkisráðuneyti og Íslandsstofa |
Innan ramma |
Styrkja viðskiptaþjónustu sendiskrifstofa við fyrirtæki í samræmi við stefnumarkandi áherslur í Framtíðarstefnu fyrir íslenskan útflutning.* |
Utanríkisráðuneyti |
Innan ramma |
Koma íslenskri menningu og skapandi greinum á framfæri í tvíhliða samskiptum og með samstarfi við Íslandsstofu.** |
Utanríkisráðuneyti og Íslandsstofa |
Innan ramma |
Markmið 2: Tryggja íslenskum fyrirtækjum sem bestan aðgang að alþjóðlegum mörkuðum |
||
Fylgja eftir forgangslista ríkisstjórnarinnar í hagsmunagæslu við mótun EES-löggjafar. |
Utanríkisráðuneyti og fagráðuneyti |
Innan ramma |
Efla þekkingu á EES-samningnum og hlúa að mannauði sem kemur að framkvæmd hans, s.s. með málstofum og aukinni fræðslu, t.d. í samstarfi við Stjórnarráðsskólann. |
Utanríkisráðuneyti og fagráðuneyti |
Innan ramma |
Viðhalda frammistöðu við upptöku og innleiðingu EES-gerða. |
Utanríkisráðuneyti og fagráðuneyti |
Innan ramma |
Fjölga fríverslunarsamningum og öðrum viðskiptasamningum, s.s. tvísköttunarsamningum og loftferðasamningum. |
Utanríkisráðuneyti |
Innan ramma |
Starfrækja viðskiptavakt sem fyrirtæki geta leitað til vegna hnökra í alþjóðaviðskiptum. |
Utanríkisráðuneyti |
Innan ramma |
Markmið 3: Bæta vaxtarskilyrði fyrir íslenskt athafnalíf og nýsköpun og tryggja velsæld |
||
Halda áfram samningaviðræðum um nýtt tímabil Uppbyggingarsjóðs EES. |
Utanríkisráðuneyti |
Innan ramma |
Greiða fyrir aðgengi íslenskrar tækniþekkingar, grænna lausna og nýsköpunar á erlendum mörkuðum. |
Utanríkisráðuneyti |
Innan ramma |
* Verkefnið styður jafnframt við markmið 2.
** Verkefnið styður jafnframt við markmið 3 [í málaflokki 04.1].
Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2024 er áætluð 1.240 m.kr. og hækkar um 208 m.kr. frá gildandi fjárlögum. Hækkunin er í samræmi við áætlaða hækkun tekna ríkisins af markaðsgjaldi í fjárlögum fyrir árið 2023. Ráðherra ákvarðar fjárveitingar til Íslandsstofu á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum og skal hún aldrei vera lægri en sem nemur markaðsgjaldi, sbr. 1. gr. laga nr. 47/2018, um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um markaðar tekjur. Breytt lög um Íslandsstofu kveða á um þjónustusamning milli ríkisins og Íslandsstofu. Sú fjárhæð sem birtist hér endurspeglar á engan hátt útgjöld utanríkisþjónustunnar vegna utanríkisviðskipta enda er hér eingöngu um að ræða fjárheimildir vegna Íslandsstofu. Megnið af fjárveitingum vegna utanríkisviðskipta fellur undir málaflokkinn 04.10 Utanríkisþjónusta og stjórnsýsla utanríkismála og rennur til aðalskrifstofu, þýðingamiðstöðvar og sendiskrifstofa.
Ekki er um breytingar á hagrænni skiptingu innan málaflokksins að ræða.
Helsta breyting á fjárheimildum málaflokksins er eftirtalin:
- Fjárheimild málaflokksins hækkar alls um 208 m.kr. í samræmi við áætlaða hækkun tekna ríkisins af markaðsgjaldi í fjárlagafrumvarpi fyrir 2024.
04.30 Samstarf um öryggis- og varnarmál
Starfsemi málaflokksins er í höndum aðalskrifstofu ráðuneytisins og skiptist í þrjú meginsvið.
Í fyrsta lagi er fjölþjóðasamstarf um öryggis- og varnarmál. Tvíhliða og fjölhliða samstarf og samráð um öryggispólitísk málefni heyrir hér undir en þau hafa vaxið að mikilvægi undanfarin ár vegna breytinga í alþjóðlegu öryggisumhverfi sem urðu enn meiri við innrás Rússlands í Úkraínu 2022. Aðildin að Atlantshafsbandalaginu er ásamt varnarsamningnum við Bandaríkin hornsteinn öryggis og varna Íslands og er þátttöku Íslands í öryggispólitísku og hernaðartengdu samstarfi á vettvangi bandalagsins sinnt af ráðuneytinu og fastanefnd Íslands hjá bandalaginu. Ráðuneytið sinnir einnig þátttöku Íslands í norræna varnarsamstarfinu (NORDEFCO), samráði á vettvangi Norðurhópsins og NB8-ríkjanna um öryggis- og varnarmál og samstarfi á vettvangi Sameiginlegu viðbragðssveitarinnar (JEF) sem Ísland gerðist aðili að á árinu 2021. Önnur viðfangsefni eru framkvæmd öryggisráðsályktunar 1325 á vettvangi Atlantshafsbandalagsins, öryggispólitísk málefni á vettvangi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) og framkvæmd afvopnunarsamninga og stöðugleikaaðgerða á vettvangi ÖSE, SÞ og annarra alþjóðastofnana. Tvíhliða samstarf og samráð á grundvelli grannríkjasamninga er jafnframt á borði ráðuneytisins og stefnumótun, greining, samráð og miðlun upplýsinga um öryggis- og varnartengd málefni.
Í öðru lagi eru fjölþáttaógnir þar sem hugað er sérstaklega að: netöryggisatvikum, sem eiga upptök sín erlendis; mögulegum markvissum fjárfestingum erlendra aðila í þjóðhagslega mikilvægum innviðum eða fyrirtækjum; falsfréttum og misvísandi upplýsingum sem eiga uppruna sinn frá erlendum ríkjum eða aðilum tengdum ríkjum og því að auka viðnámsþol stjórnkerfisins, m.a. með fræðslu og miðlun upplýsinga á málefnasviðinu. Unnið er markvisst að því að auka skilvirkni í samskiptum ólíkra ráðuneyta, stofnana, ráða, fræðasamfélagsins og einkafyrirtækja sem fást við málefni sem snerta fjölþáttaógnir og að því að auka enn frekar samstarf okkar við hlutaðeigandi aðila í okkar nánustu vina- og bandalagsríkjum á þessu málefnasviði.
Í þriðja lagi er rekstur og fjármögnun varnartengdra rekstrarverkefna og yfirumsjón með öryggis- og varnarsvæðum á Íslandi, rekstur tvíhliða varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna sem m.a. felur í sér reglulegt samráð við bandarísk stjórnvöld, bæði hér á landi og vestan hafs, og undirbúningur og framkvæmd varnaræfinga sem haldnar eru á íslensku yfirráðasvæði. Enn fremur útsending íslenskra sérfræðinga til Atlantshafsbandalagsins sem hluti af framlagi Íslands til stofnunarinnar og sérfræðinga til annarra erlendra samstarfsaðila. Að því er varðar framkvæmd varnartengdra rekstrarverkefna er náið samstarf við dómsmálaráðuneytið og annast varnarmálasvið Landhelgisgæslu Íslands framkvæmd ýmissa varnartengdra rekstrarverkefna á sviði öryggis- og varnarmála á grundvelli þjónustusamnings milli ráðuneytanna frá 1. ágúst 2021. Ráðuneytið felur ríkislögreglustjóra einnig að annast tiltekin verkefni á sviði öryggis- og varnarmála með þjónustusamningi. Nánar er fjallað um málaflokkinn í fjármálaáætlun, þar á meðal helstu áskoranir og tækifæri, markmið og mælikvarða um árangur o.fl.
Í eftirfarandi töflu má sjá helstu verkefni málaflokksins árið 2023 og tengingu þeirra við markmið ásamt helstu breytingum sem verða á fjárveitingum á milli ára. Eingöngu eru sýndar breytingar sem verða á fjárveitingum til verkefna frá fjárlögum ársins 2023. Þannig endurspegla fjárhæðir ekki heildarfjárveitingar til verkefna nema í tilvikum þar sem breyting á milli ára felur í sér heildarfjármögnun verkefnisins.
Helstu verkefni 2024 |
Framkvæmdaraðili |
Breyting á fjárveitingu til verkefnis |
Markmið 1: Tryggja varnir og viðbúnaðargetu Íslands |
||
Hefja uppsetningu á öruggum samskiptarýmum og búnaði í sendiskrifstofum Íslands. |
Utanríkisráðuneyti |
130 m.kr. |
Markmið 2: Efla þátttöku Íslands í öryggis- og varnarsamstarfi |
||
Virk þátttaka Íslands í starfi NATO, ÖSE, NORDEFCO, Norðurhópsins, JEF og Sameinuðu þjóðanna á sviði öryggis- og varnarmála, m.a. með þátttöku í fundum og æfingum. |
Utanríkisráðuneyti |
Innan ramma |
Markmið 3: Efla gistiríkjastuðning Íslands |
||
Auka og þétta loftrýmisgæslu á Íslandi. |
Utanríkisráðuneyti og Landhelgisgæslan |
Innan ramma |
Fjölga gistirýmum á öryggissvæðunum. |
Utanríkisráðuneyti og Landhelgisgæslan |
Innan ramma |
Senda einn starfsmann á ári á námskeið hjá bandalagsríkjunum og stofnunum Atlantshafsbandalagsins sem vinnur að loftrýmisgæslu og rekstri ratsjárkerfisins. |
Utanríkisráðuneyti og Landhelgisgæslan |
Innan ramma |
Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2024 er áætluð 4.835,9 m.kr. og hækkar um 58,5 m.kr. frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum en þær nema 316,4 m.kr.
Ekki er um miklar breytingar á hagrænni skiptingu innan málaflokksins að ræða.
Helstu breytingar á fjárheimildum málaflokksins eru eftirtaldar:
- Fjárheimild málaflokksins lækkar um 896 m.kr. vegna niðurfellingar tímabundinna verkefna, 750 m.kr. sem veittar voru vegna stuðnings við Úkraínu á sviði varnartengdra verkefna, 130 m.kr. vegna flýtingar framkvæmda við gistiskála á varnarsvæðinu á árinu 2023 og 16 m.kr. sem veittar voru vegna samningsbundinna skuldbindinga.
- Fjárheimild málaflokksins hækkar á móti sem nemur 1.150 m.kr. Í fyrsta lagi hækkar hún um 400 m.kr. í samræmi við áform um hækkun framlaga til málaflokksins vegna þátttöku Íslands í alþjóðlegum samvinnuverkefnum á sviði fjölþáttaógna og nauðsynlegrar eflingar innviða. Í öðru lagi kemur til hækkun á ramma vegna framangreindra verkefna og áframhaldandi stuðnings við Úkraínu og í þriðja lagi er tímabundin 750 m.kr. aukning til eins árs og er sama eðlis og fjárveiting sem veitt var við 2. umræðu frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2023 vegna stríðs í Úkraínu.
- Hlutdeild málaflokksins í aðhaldskröfu málefnasviðsins nemur 195,5 m.kr. og kemur að mestu til lækkunar á fyrirhugaðri hækkun málaflokksins á framlögum til varnartengdra verkefna.
04.50 Samningsbundin framlög vegna fjölþjóðasamstarfs
Starfsemi málaflokksins er í höndum aðalskrifstofu ráðuneytisins. Undir málaflokkinn falla aðildargjöld Íslands vegna fjölþjóðasamstarfs þvert á verkefni sem falla undir málefnasviðið utanríkismál. Markmið málaflokksins er að fjármagna ýmiss konar aðildargjöld, s.s. vegna Uppbyggingarsjóðs EES, stofnana Sameinuðu þjóðanna og Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD). Aðildargjöld margra þessara stofnana taka mið af landsframleiðslu og öðrum þáttum sem íslensk stjórnvöld hafa ekki áhrif á. Því eru ekki skilgreindir mælikvarðar eða aðgerðir vegna eðlis málaflokksins. Nánar er fjallað um málaflokkinn í fjármálaáætlun.
Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2024 er áætluð 2.586,8 m.kr. og lækkar um 1.646,9 m.kr. frá gildandi fjárlögum að frátöldum launa- og verðlagsbótum sem eru 67,8 m.kr.
Helstu breytingar á fjárheimildum málaflokksins eru eftirtaldar:
- Fjárheimild málaflokksins lækkar um 1.683,9 m.kr. vegna lækkunar framlaga í Uppbyggingarsjóð EES. Ekki lá fyrir, þegar gengið var frá talnagrunni fjárlagafrumvarpsins, hver áætluð framlög yrðu vegna nýrrar áætlunar.
- Á móti hækka framlög til málaflokksins um 37 m.kr. vegna hækkunar samningsbundinna framlaga til annars fjölþjóðastarfs.
[1] Framtíðarstefnu fyrir íslenskan útflutning er að finna á: https://stefnumotun.islandsstofa.is/.
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.