Hoppa yfir valmynd

35 Alþjóðleg þróunarsamvinna

Utanríkisráðuneytið

Skilgreining málefnasviðs

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð utanríkisráðherra og fellur í einn málaflokk. Í eftirfarandi töflu má sjá fjárhagslega þróun málefnasviðsins á tímabilinu 2022–2024. Helstu áherslum, framtíðarsýn og meginmarkmiðum á málefnasviðinu er lýst í fjármálaáætlun.

Fjárhagsleg þróun málefnasviðsins á tímabilinu 2022–2024

Útgjaldarammi – heildaryfirlit og breytingar eftir tilefnum

Myndin hér á eftir sýnir sundurliðaðar breytingar á útgjaldaramma málefnasviðsins eftir helstu tilefnum sem nánar er greint frá í inngangskafla málefnasviða.

Breytingar á ramma milli áranna 2023–2024

Heildargjöld málefnasviðs 35 Alþjóðleg þróunarsamvinna árið 2024 eru áætluð 12,066,8 m.kr. og lækka um 820,5 m.kr. frá fjárlögum ársins 2023 eða sem svarar til 6,4%.

Lækkun til málefnasviðsins kemur einungis til vegna gífurlegrar hækkunar á kostnaði í tengslum við umsækjendur um alþjóðlega vernd.

Til að telja megi þann kostnað til þróunarframlaga er nauðsynlegt að útreikningar á þeim kostnaði sem núverandi áætlun gerir ráð fyrir að falli undir þróunarsamvinnuframlög séu í samræmi við reglur Þróunarsamvinnunefndar OECD (DAC).

Myndin endurspeglar þá útfærslu og forgangsröðun sem unnin er út frá stefnumótun málefnasviðsins. Niðurstaðan getur eftir atvikum vikið frá þeim viðmiðum sem gengið var út frá í fjármálaáætlun, t.a.m. þannig að nýju útgjaldasvigrúmi hafi að einhverju leyti verið jafnað á móti aðhaldsmarkmiði. Aðhaldsmarkmiðið felur m.a. í sér sértækar afkomubætandi aðhalds­ráðstafanir á málefnasviðum og er nánar fjallað um þær í kafla 5 Gjöld ríkissjóðs.

Framlög til þróunarsamvinnu reiknast sem hlutfall af áætluðum vergum þjóðartekjum. Námu þau 0,34% af VÞT árið 2022, en í þingsályktun nr. 26/149 um alþjóðlega þróunar­samvinnu Íslands 2019–2023 er gert ráð fyrir að árleg framlög til þróunarsamvinnu nemi 0,35% af VÞT. Því er ljóst að íslensk stjórnvöld náðu ekki settu markmiði árið 2022 þrátt fyrir viðbótarfjárveitingu vegna stuðnings við Úkraínu. Skýrist það einungis af kostnaði við umsækjendur um alþjóðlega vernd sem gert hafði verið ráð fyrir en raungerðist ekki. Þings­ályktunartillaga um stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2024–2028 verður lögð fram á fyrstu vikum 154. löggjafarþings þar sem fram koma áherslur íslenskra stjórnvalda næstu fimm árin.

Útgjaldarammi – hagræn skipting útgjalda

Í eftirfarandi töflu eru útgjöld málefnasviðsins, þróun fjárheimilda og fjármögnun frá árinu 2022 greind í fjóra þætti eftir hagrænni skiptingu, eins og nánar er greint frá í inngangskafla málefnasviða. Hagræn skipting útgjalda niður á málaflokka birtist í fylgiriti með fjárlögum.

Útgjöld málefnasviðsins, þróun fjárheimilda og fjármögnun frá árinu 2022 greind í fjóra þætti eftir hagrænni skiptingu

35.10 Þróunarsamvinna

Starfsemi málaflokksins er sinnt af þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins, sendiskrifstofum Íslands í Lilongwe, Kampala og Freetown ásamt fastanefndum Íslands í New York, Genf, París og Róm. Íslensk stjórnvöld leggja sig fram um að vera áreiðanlegur samstarfsaðili í þróunarsamvinnu, fara vel með þróunarfé og vinna samkvæmt bestu starfs­venjum. Utanríkisráðuneytið á í markvissu samstarfi við alþjóðastofnanir og samstarfslönd með framgang heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi. Rammasamningum við áherslustofnanir og frjáls félagasamtök er ætlað að auka sveigjanleika, fyrirsjáanleika og við­bragðsflýti þeirra. Ólöglegt innrásarstríð Rússa í Úkraínu hefur stóraukið þörf á mannúðar- og þróunaraðstoð og hafa íslensk stjórnvöld ekki látið sitt eftir liggja. Í þróunarsamvinnu er áhersla lögð á að nýta íslenska sérþekkingu til uppbyggingar í þróunarríkjum þar sem við á, m.a. á sviði jarðhita og endurnýjanlegrar orku, sjálfbærrar nýtingar auðlinda hafs og vatna og kynja­jafnréttis. Áfram verður unnið að framkvæmd stefnu Íslands á sviði alþjóðlegrar þróunarsamvinnu þar sem heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru í fyrirrúmi og áhersla er lögð á baráttuna gegn fátækt og hungri og fyrir bættum lífsskilyrðum. Mannréttindi, þ.m.t. kynjajafnrétti og loftslagsmál, verða sem áður höfð að leiðarljósi.

Nánar er fjallað um málaflokkinn í fjármálaáætlun, þar á meðal ábyrgðarskiptingu, helstu áskoranir og tækifæri, markmið og mælikvarða um árangur o.fl.

Í eftirfarandi töflu má sjá helstu verkefni málaflokksins árið 2024 og tengingu þeirra við markmið ásamt helstu breytingum sem verða á fjárveitingum á milli ára. Eingöngu eru sýndar breytingar sem verða á fjárveitingum til verkefna miðað við fjárlög ársins 2023. Þannig endurspegla fjárhæðir ekki heildarfjárveitingar til verkefna nema í tilvikum þar sem breyting á milli ára felur í sér heildarfjármögnun verkefnisins.

Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2024 er áætluð 12.066,8 m.kr. og lækkar um því um 820,5 m.kr. frá gildandi fjárlögum. Ekki verður um miklar breytingar á hagrænni skiptingu innan málaflokksins að ræða. Skorið verður niður þvert á áætlun að undanskildum samningsbundnum framlögum og verkefnum.

 

Helstu verkefni 2024

Framkvæmdaraðili

Breyting á fjárveitingu til verkefnis

Markmið 1: Uppbygging félagslegra innviða og störf í þágu friðar; jafnréttis-, mennta-, vatns- og salernismál á samstarfssvæðum í Malaví, Síerra Leóne og Úganda

Byggðaþróunarverkefni í Nkhotakota-héraði í Malaví (HM 4,3,6,5).

Utanríkisráðuneyti

Innan ramma

Byggðaþróunarverkefni í Buikwe- og Namayingo-héruðum í Úganda (HM 4,6,3,5).

Utanríkisráðuneyti

Innan ramma

Markmið 2: Verndun jarðarinnar og aukin geta samfélaga í þróunarlöndum til vaxtar á grundvelli jafnaðar og sjálfbærrar nýtingar náttúruauðlinda

Verkefni í Síerra Leóne á sviði fiskimála og bláa hagkerfisins (HM 14).

Utanríkisráðuneyti

Innan ramma

     

Helstu breytingar á fjárheimildum málaflokksins eru eftirtaldar:

Fjárheimild málaflokksins lækkar um 820,5 m.kr.

  1. Framlög til málaflokksins hækka um 1.981 m.kr. í samræmi við markmið um að framlög Íslands taki mið af vergum þjóðartekjum sem hafa hækkað á tímabilinu. Í samræmi við áherslur og markmið í þróunarsamvinnu er gert ráð fyrir áframhaldandi starfi byggðaþróunarverkefnis í nýju héraði Nkhotakota í Malaví, áframhaldandi stuðningur við héraðsverkefni í Buikwe og Namayingo í Úganda ásamt framlögum til verkefna nýs sendiráðs í Síerra Leóne eru innan ramma.
  2. Framlög til málaflokksins lækka um 1.276 m.kr. vegna hækkunar á áætluðum út­gjöldum vegna umsækjenda um alþjóðlega vernd. Til þess að mæta lækkun á fram­lögum til málefnasviðsins er ráðgert að lækka framlög verkefna innan þverlægra markmiða (mannréttinda-, jafnréttis- og loftslagsmál) í tvíhliða þróunarsamvinnu um alls 120 m.kr. Einnig verður lækkun á framlögum til alþjóðastofnana og félagasamtaka á sviði þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar. Loks kemur til lækkunar á framlögum til GRÓ – þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu. Ráðgerð lækkun nemur um 520 m.kr. Þá er gert ráð fyrir að dregið verðir úr þátttöku í ungliðaáætlun Sameinuðu þjóðanna um 60 m.kr. og dregið verði úr framlögum til verkefna sem tengjast bláa hagkerfinu, umhverfis-, loftslags- og orkumála, 120 m.kr. Byggt á reynslu fyrri ára er gert ráð fyrir lækkun á lið innanlandssamstarfs um 25 m.kr.
  3. Fjárheimild til málaflokksins lækkar um 1.500 m.kr. vegna niðurfellingar tímabundins framlags sem veitt var í fjárlögum fyrir árið 2023 vegna innrásar Rússlands í Úkraínu. Framlaginu hefur verið ráðstafað í samvinnu við stofnanir Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðabankann og í gegnum annað fjölþjóðasamstarf, í samræmi við óskir og þarfir úkraínskra stjórnvalda á hverjum tíma. Þessi stuðningur hefur komið til viðbótar stuðningi við önnur mikilvæg alþjóðleg verkefni á sviði þróunarsamvinnu.
Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta