28 Málefni aldraðra
Skilgreining málefnasviðs
Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð félags- og vinnumarkaðsráðherra. Það skiptist í þrjá málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu. Þar má jafnframt sjá fjárhagslega þróun málefnasviðsins og einstakra málaflokka á tímabilinu 2022–2024. Helstu áherslum, framtíðarsýn og meginmarkmiðum á málefnasviðinu er lýst í fjármálaáætlun.
Útgjaldarammi - heildaryfirlit og breytingar eftir tilefnum
Myndin hér á eftir sýnir sundurliðaðar breytingar á útgjaldaramma málefnasviðsins eftir helstu tilefnum, sem nánar er greint frá í inngangskafla málefnasviða.
Heildargjöld málefnasviðs 28 Málefni aldraðra árið 2024 eru áætluð 122.445,4 m.kr. og lækka um 1.171 m.kr. á föstu verðlagi fjárlaga 2023, eða sem svarar til 1%. Þegar tekið er tillit til áhrifa af almennum launa- og verðlagsbreytingum hækka útgjöldin um 7.428,1 m.kr. milli ára, eða sem svarar til 6,5%.
Myndin endurspeglar þá útfærslu og forgangsröðun sem unnin er út frá stefnumótun málefnasviðsins. Sú niðurstaða getur eftir atvikum vikið frá þeim viðmiðum sem sett voru í fjármálaáætlun, t.a.m. þannig að nýju útgjaldasvigrúmi hafi að einhverju leyti verið jafnað á móti aðhaldsmarkmiði. Aðhaldsmarkmiðið felur m.a. í sér sértækar afkomubætandi aðhaldsráðstafanir á málefnasviðum og er nánar fjallað um þær í kafla 5 Útgjöld ríkissjóðs.
Útgjaldarammi - hagræn skipting útgjalda
Í eftirfarandi töflu eru útgjöld málefnasviðsins, þróun fjárheimilda og fjármögnun frá árinu 2022 greind í fjóra þætti eftir hagrænni skiptingu, eins og nánar er greint frá í inngangskafla málefnasviða. Hagræn skipting útgjalda niður á málaflokka birtist í fylgiriti með fjárlögum.
28.1 Bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar, lífeyrir aldraðra
Starfsemi málaflokksins er í höndum Tryggingastofnunar sem annast framkvæmd með greiðslum samkvæmt lögum um almannatryggingar, en það eru greiðslur ellilífeyris og vasapenings ellilífeyrisþega. Nánar er fjallað um málaflokkinn í fjármálaáætlun, þar á meðal ábyrgðarskiptingu, helstu áskoranir og tækifæri, markmið og mælikvarða um árangur o.fl.
Í eftirfarandi töflu má sjá helstu verkefni málaflokksins árið 2024 og tengingu þeirra við markmið ásamt helstu breytingum sem verða á fjárveitingum á milli ára. Eingöngu eru sýndar breytingar sem verða á fjárveitingum til verkefna frá fjárlögum ársins 2023. Þannig endurspegla fjárhæðir ekki heildarfjárveitingar til verkefna nema í tilvikum þar sem breyting á milli ára felur í sér heildarfjármögnun verkefnisins.
Helstu verkefni 2024 |
Framkvæmdaraðili |
Breyting á fjárveitingu til verkefnis |
Markmið 1: Hækka heildartekjur ellilífeyrisþega og jafna kynjadreifingu |
||
Vinna úr tillögum starfshóps um afkomuöryggi eldra fólks, aukinn sveigjanleika í starfslokum og úrbætur í húsnæðismálum í því skyni að bæta fjárhagslega stöðu aldraðra. |
Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti |
Innan ramma |
Markmið 2: Aukin atvinnuþátttaka aldraðra |
||
Vinna úr tillögum starfshóps um afkomuöryggi eldra fólks, aukinn sveigjanleika í starfslokum og úrbætur í húsnæðismálum í því skyni að gera öldruðum í auknum mæli kleift að vera þátttakendur á vinnumarkaði. |
Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti |
Innan ramma |
Markmið 3: Auka stuðning við aldraða sem lakast standa |
||
Vinna úr tillögum starfshóps um afkomuöryggi eldra fólks, aukinn sveigjanleika í starfslokum og úrbætur í húsnæðismálum í því skyni að bæta efnahagslega og félagslega stöðu þeirra sem lakast standa. |
Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti |
Innan ramma |
Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2024 er áætluð 112.139,2 m.kr. og lækkar um 1.429 m.kr. frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum en þær nema 7.885,1 m.kr.
Ekki er um breytingar á hagrænni skiptingu innan málaflokksins að ræða.
Helstu breytingar á fjárheimildum málaflokksins eru eftirtaldar:
- Fjárheimild málaflokksins er aukin um 3.171 m.kr. til að mæta áætlaðri lýðfræðilegri fjölgun fólks.
- Fjárheimild málaflokksins lækkar um 4.600 m.kr. vegna aukinna tekna ellilífeyrisþega á undanförnum árum.
- Málaflokkurinn er undanþeginn aðhaldskröfu.
28.2 Bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, öldrun
Starfsemi málaflokksins er í höndum Tryggingastofnunar sem ber ábyrgð á framkvæmd greiðslna málaflokksins. Samkvæmt lögum um félagslega aðstoð er heimilt að greiða ýmiss konar styrki og uppbætur eins og heimilisuppbót, uppbót á lífeyri vegna tiltekins kostnaðar lífeyrisþega og uppbætur og styrki vegna bifreiðakaupa og reksturs bifreiða. Nánar er fjallað um málaflokkinn í fjármálaáætlun, þar á meðal ábyrgðarskiptingu, helstu áskoranir og tækifæri en eðli málaflokksins er með þeim hætti að ekki eru gerð markmið eða mælikvarðar um árangur.
Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2024 er áætluð 9.781,3 m.kr. og hækkar um 258 m.kr. frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum en þær nema 678,3 m.kr.
Ekki er um breytingar á hagrænni skiptingu innan málaflokksins að ræða.
Helstu breytingar á fjárheimildum málaflokksins eru eftirtaldar:
- Fjárheimild málaflokksins er aukin um 258 m.kr. til að mæta áætlaðri lýðfræðilegri fjölgun fólks.
- Málaflokkurinn er undanþeginn aðhaldskröfu.
28.3 Þjónusta við aldraða og aðrar greiðslur
Starfsemi málaflokksins er í höndum Tryggingastofnunar sem ber ábyrgð á framkvæmd greiðslna málaflokksins. Undir málaflokkinn falla greiðslur samkvæmt lögum um eftirlaun til aldraðra, nr. 113/1994, og lög um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða, nr. 74/2020. Nánar er fjallað um málaflokkinn í fjármálaáætlun, þar á meðal ábyrgðarskiptingu, helstu áskoranir og tækifæri, en starfsemi málaflokksins er þess eðlis að ekki eru gerð markmið og mælikvarðar um árangur.
Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2024 er áætluð 524,9 m.kr. og er óbreytt frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum en þær nema 35,7 m.kr.
Engar breytingar eru á hagrænni skiptingu innan málaflokksins.
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.