Hoppa yfir valmynd

25 Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta

Heilbrigðisráðuneytið

Skilgreining málefnasviðs

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð heilbrigðisráðherra. Það skiptist í tvo málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu. Þar má jafnframt sjá fjárhagslega þróun málefnasviðsins og einstakra málaflokka á tímabilinu 2022–2024. Helstu áherslum, framtíðarsýn og meginmarkmiðum á málefnasviðinu er lýst í fjármálaáætlun.

Fjárhagslega þróun málefnasviðsins og einstakra málaflokka á tímabilinu 2022–2024

Útgjaldarammi - heildaryfirlit og breytingar eftir tilefnum

Myndin hér á eftir sýnir sundurliðaðar breytingar á útgjaldaramma málefna­sviðsins eftir helstu tilefnum sem nánar er greint frá í inngangskafla málefnasviða.

Breytingar á ramma milli áranna 2023–2024Heildargjöld málefnasviðs 25 Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta árið 2024 eru áætluð 79.397,5 m.kr. og lækka um 3.124,6 m.kr. á föstu verðlagi fjárlaga 2023 eða sem svarar til 4,1%. Þegar tekið er tillit til áhrifa af almennum launa- og verðlagsbreytingum hækka útgjöldin um 2.278,7 m.kr. milli ára eða sem svarar til 3,0%.

Myndin endurspeglar þá útfærslu og forgangsröðun sem unnin er út frá stefnumótun málefnasviðsins. Sú niðurstaða getur eftir atvikum vikið frá þeim viðmiðum sem sett voru í fjármálaáætlun, t.a.m. þannig að nýju útgjaldasvigrúmi hafi að einhverju leyti verið jafnað á móti aðhaldsmarkmiði. Aðhaldsmarkmiðið felur m.a. í sér sértækar afkomubætandi aðhaldsráðstafanir á málefnasviðum og er nánar fjallað um þær í kafla 5 Útgjöld ríkissjóðs.

Útgjaldarammi - hagræn skipting útgjalda

Í eftirfarandi töflu eru útgjöld málefnasviðsins, þróun fjárheimilda og fjármögnun frá árinu 2022 greind í fjóra þætti eftir hagrænni skiptingu, eins og nánar er greint frá í inngangskafla málefnasviða. Hagræn skipting útgjalda niður á málaflokka birtist í fylgiriti með fjárlögum.

Útgjöld málefnasviðsins, þróun fjárheimilda og fjármögnun frá árinu 2022 greind í fjóra þætti eftir hagrænni skiptingu

25.10 Hjúkrunar-, dvalar- og dagdvalarrými

Starfsemi málaflokksins er í höndum sjálfseignarstofnana, sveitarfélaga, hlutafélaga og heilbrigðis­stofnana. Nánar er fjallað um málaflokkinn í fjármálaáætlun, þar á meðal ábyrgðarskiptingu, helstu áskoranir og tækifæri, markmið og mælikvarða um árangur o.fl.

Í eftirfarandi töflu má sjá helstu verkefni málaflokksins árið 2024 og tengingu þeirra við markmið ásamt helstu breytingum sem verða á fjárveitingum á milli ára. Eingöngu eru sýndar breytingar sem verða á fjárveitingum til verkefna frá fjárlögum ársins 2023. Þannig endurspegla fjárhæðir ekki heildarfjárveitingar til verkefna nema í tilvikum þar sem breyting á milli ára felur í sér heildarfjármögnun verkefnisins.

 

Helstu verkefni 2024

Framkvæmdaraðili

Breyting á fjárveitingu til verkefnis

Markmið 1: Biðtími eftir hjúkrunarrýmum verði undir 90 dögum

Halda áfram byggingu hjúkrunarrýma sem taka á í notkun á næstu árum, sbr. framkvæmdaáætlun.*
**

Heilbrigðisráðuneyti

-5.158 m.kr.

Bæta framsetningu biðlista eftir hjúkrunarrýmum og verklag færni- og heilsumats til einföldunar fyrir notendur og skjólstæðinga.

Heilbrigðisráðuneyti

Innan ramma

     

* Áætlað heildarumfang verkefnisins er 23.667 m.kr. og gert er ráð fyrir að byggingu allra rýmanna verði lokið árið 2028.
** Fjárveitingar til verkefna geta verið breytilegar á milli ára. Sem dæmi getur lækkun fjárveitingar endurspeglað að tímabundin fjárveiting fellur niður, eða lækkun í samræmi við áætlun eins og endurspeglast í fjármálaáætlun.

Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2024 er áætluð 72.210,9 m.kr. og lækkar um 2.893,6 m.kr. frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum en þær nema 4.891,9 m.kr.

Ekki er um miklar breytingar á hagrænni skiptingu innan málaflokksins að ræða.

Helstu breytingar á fjárheimildum málaflokksins eru eftirtaldar:

  1. Fjárheimild málaflokksins er aukin um 2.200 m.kr. til reksturs nýrra hjúkrunarrýma sem eru á framkvæmdaáætlun um byggingu hjúkrunarrýma, sbr. markmið nr. 1.
  2. Fjárheimild málaflokksins lækkar um 5.157,6 m.kr. til framkvæmdaáætlunar í uppbygg­ingu hjúkrunarrýma, sbr. markmið nr. 1. Lækkunin er í samræmi við áætlanir líkt og endurspeglast í fjármálaáætlun og er uppsafnað fjármagn að fjárhæð 10,5 ma.kr. nýtt til áframhaldandi uppbyggingar.
  3. Almennt útgjaldasvigrúm er 72 m.kr. eftir 18 m.kr. lækkun vegna sértækra aðhaldsráðstafana sem liður í útfærslu á 9 ma.kr. afkomubætandi ráðstöfunum úr fjármálaáætlun 2024–2028.
  4. Fjárheimild málaflokksins er aukin um 190 m.kr. til þess að fjárveiting til Fram­kvæmdasjóðs aldraðra samsvari áætluðum tekjum af gjaldi í sjóðinn.
  5. Fjárheimild málaflokksins er hækkuð um 105,7 m.kr. vegna breytinga á rekstrar­tekju­áætlun heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni.
  6. Fjárheimild málaflokksins lækkar um 303,7 m.kr. vegna sértækra aðhaldsráðstafana sem liður í útfærslu á 9 ma.kr. afkomubætandi ráðstöfunum úr fjármálaáætlun 2024–2028.

25.20 Endurhæfingarþjónusta

Starfsemi málaflokksins er m.a. í höndum Reykjalundar, Heilsustofnunar Náttúrulækninga­félags Íslands og annarra endurhæfingarstofnana auk SÁÁ. Nánar er fjallað um málaflokkinn í fjármálaáætlun, þar á meðal ábyrgðar­skiptingu, helstu áskoranir og tækifæri, markmið og mælikvarða um árangur o.fl.

Í eftirfarandi töflu má sjá helstu verkefni málaflokksins árið 2024 og tengingu þeirra við markmið ásamt helstu breytingum sem verða á fjárveitingum á milli ára. Eingöngu eru sýndar breytingar sem verða á fjárveitingum til verkefna frá fjárlögum ársins 2023. Þannig endur­spegla fjárhæðir ekki heildarfjárveitingar til verkefna nema í tilvikum þar sem breyting á milli ára felur í sér heildarfjármögnun verkefnisins.

 

Helstu verkefni 2024

Framkvæmdaraðili

Breyting á fjárveitingu til verkefnis

Markmið 1: Samfella í endurhæfingarþjónustu

Einn biðlisti eftir endurhæfingarúrræðum í stað margra

Heilbrigðisráðuneyti

Innan ramma

Samþætt tilvísanakerfi í endurhæfingu

Heilbrigðisráðuneyti

Innan ramma

 

 

Markmið 2: Bætt þjónusta við notendur endurhæfingarþjónustu

Árangursmarkmið og framvinda skráð milli úrræða og samfellt þjónustuferli

Heilbrigðisráðuneyti

Innan ramma

     

Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2024 er áætluð 7.186,6 m.kr. og lækkar um 231 m.kr. frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum en þær nema 511,4 m.kr.

Ekki er um miklar breytingar á hagrænni skiptingu innan málaflokksins að ræða.

Helstu breytingar á fjárheimildum málaflokksins eru eftirtaldar:

  1. Fjárheimild málaflokksins lækkar um 198 m.kr. vegna tímabundinna framlaga til SÁÁ, Samhjálpar og til vinnu gegn fíknisjúkdómum sem Alþingi veitti í eitt ár.
  2. Aðhaldskrafa málaflokksins nemur 0,2 m.kr. og er útfært á varasjóð málaflokksins.
  3. Fjárheimild málaflokksins lækkar um 32,8 m.kr. vegna sértækra aðhaldsráðstafana, sem liður í útfærslu á 9 ma.kr. afkomubætandi ráðstöfunum úr fjármálaáætlun 2024–2028.
Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta