Hoppa yfir valmynd

1 Áherslur og forgangsmál

Íslendingar hafa á síðustu árum búið við mikinn kraft í samfélaginu. Eftir að heimsfaraldri kórónuveirunnar lauk var efnahagsbatinn undraskjótur og langt umfram væntingar og raunar einn sá mesti sem sést hefur á Vesturlöndum. Mikill uppgangur hefur verið í öllu atvinnulífi og atvinnuleysi verið með minnsta móti, bæði í sögulegu samhengi og í alþjóðlegum saman­burði. Kaupmáttur launa hefur vaxið áfram ólíkt því sem hefur verið reyndin í flestum löndum sem við berum okkur saman við. Samhliða hafa kjör þeirra efnaminni vaxið hlutfallslega mest í samræmi við áherslur ríkisstjórnarinnar. Allt hefur þetta komið fram í miklum hagvexti og jákvæðri þróun ríkisfjármála að undanförnu. Jafnframt hefur íbúum landsins fjölgað verulega og hefur atvinnuþátttaka sjaldan verið meiri.

Eftir snarpan hagvaxtarsprett undanfarin þrjú ár er komið að því að hægja á ferðinni og afleiðingin af þessum öra vexti og krafti er að mikil spenna hefur myndast í efnahagslegu sam­hengi. Eftirspurn eftir fjármagni, vörum, þjónustu og vinnuafli hefur verið mikil og það hefur ýtt undir þenslu og neyslu í samfélaginu. Fylgifiskurinn var aukin verðbólga sem náði hámarki á síðasta ári. Ytri aðstæður hafa einnig ýtt undir verðbólgu, s.s. hækkandi verð á innflutningi á framleiðsluvörum og neysluvörum. Fjölskyldur og fyrirtæki eru farin að finna mikið fyrir þessu. Verðbólgan er einn af okkar fornu fjendum. Brýnasta verkefnið fram undan er að ráða niðurlögum hennar í samstilltu átaki um stefnuna í peningamálum, á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum. Seðlabankinn hefur stigið fast á bremsuna með vaxtastýritækinu og sjást ýmis merki um að farið sé að draga úr þenslunni. Þá voru samningar á almennum vinnumarkaði mikilvægt skref til að tryggja nauðsynlegan stöðugleika sem grundvöll fyrir þann árangur sem stefnt er að í íslensku efnahagslífi. Ríkisstjórnin hefur sett fram aðgerðaáætlun sem styður við þessa mikilvægu sátt, m.a. með auknum stuðningi við barnafjölskyldur og uppbyggingu hag­kvæms húsnæðis.

Ríkisstjórnin hefur sett sér skýr og ákveðin markmið um að beita ríkisfjármálunum til að vinna að lækkun verðbólgunnar. Þau áform komu skýrt fram í fjármálaáætluninni sem kynnt var í vor og styðja þar með við markmið Seðlabankans um verðstöðugleika. Í þessu frumvarpi kristallast sá ásetningur að íslenskt efnahagslíf nái að aðlaga sig að breyttum aðstæðum og að búa í haginn fyrir nýtt vaxtarskeið á traustum grunni. Í þessari áætlun felst markmið um bætta afkomu ríkissjóðs og markvisst aðhald í opinberum umsvifum í því skyni að styðja við hjöðnun verðbólgu og skapa skilyrði fyrir lækkun vaxta en þó ekki í þeim mæli að það gæti valdið lífskjararýrnun og verulega auknu atvinnuleysi. Á sama tíma er ríkisstjórnin einbeitt í því að verja þau grunnkerfi sem velferð samfélagsins byggist á. Ríkisstjórnin vill hlúa að viðkvæmum hópum og styðja við öflugt atvinnulíf. Hvort tveggja er mikilvægt enda leggur aukin verð­mætasköpun atvinnulífsins grunninn að góðu velferðarkerfi.

Þau efnahagsáform sem birtast bæði í fjármálaáætlun og frumvarpi að fjárlögum fyrir árið 2025 eru ábyrg og markviss og til þess fallin að ná settum markmiðum um lækkun verðbólgu og vaxta án þess að höggva í velferðarkerfið og án þess að hægja um of á uppbyggingu mikil­vægra innviða samfélagsins. Ríkisstjórnin hefur sett fram trúverðugar og metnaðarfullar áætlanir í efnahagsmálum sem alþjóðastofnanir á borð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn telja að séu viðeigandi í ljósi efnahagsaðstæðna.

Staða hagkerfisins er sterk. Hægt hefur á vexti efnahagsumsvifa undanfarið ár án þess þó að nokkur merki séu um snögga kólnun. Það er jákvætt og í samræmi við markmið hagstjórnar um hjöðnun verðbólgu að 2,5% verðbólgumarkmiði. Lækkun verðbólgu skapar skilyrði fyrir lækkun vaxta samhliða áframhaldandi sterkri stöðu á vinnumarkaði. Þrátt fyrir að nú hægi á vexti verðmætasköpunar, eftir einn þróttmesta hagvöxt vestrænna ríkja, er staða hagkerfisins í öllum meginatriðum afar sterk. Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar hefur gengið út á að byggja upp viðnámsþrótt gagnvart áföllum og það hafa heimilin líka gert. Rúmur gjaldeyrisforði, afar sterk erlend eignastaða þjóðar­búsins studd af afgangi á viðskiptajöfnuði, ábyrg ríkis­fjármála­stefna, vel fjármagnað banka­kerfi og skynsamlegar þjóðhagsvarúðarreglur sem setja skuldsetn­ingu skorður voru mikil­vægar forsendur þess að hægt var að verja efnahagsreikninga heimila og fyrirtækja í gegnum tíð áföll nýliðinna ára. Þennan viðnámsþrótt er mikilvægt að varðveita og styrkja.

Vaxtarbroddum atvinnulífsins fjölgar

Kraftur í vaxtarsprotum íslensks atvinnulífs hefur verið mikilvægur drifkraftur verðmæta­sköpunar sl. fjögur ár. Hagspár gera ráð fyrir umfangsmiklum vexti í útflutningi lyfja, fiskeldi er í mikilli sókn og útflutningur á ýmissi tæknitengdri þjónustu vex hratt. Þá hefur kvikmynda­iðnaður einnig átt góðu gengi að fagna. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að búa fyrirtækjum sam­keppnishæft rekstrarumhverfi og hyggst áfram styðja myndarlega við nýsköpun. Fjölbreytt og kröftugt atvinnulíf styður ekki aðeins við vöxt lífs­kjara til framtíðar heldur gerir samfélaginu einnig kleift að standa af sér áföll, sem reynslan sýnir að geta knúið dyra, jafnvel á nokkurra ára fresti.

Heimilin hafa sýnt fyrirhyggju, en vaxtabyrðin er orðin þung

Heimilin hafa einnig sýnt mikla ábyrgð og varið markverðum hluta kaupmáttarvaxtar, sem er einstakur í Evrópu, í sparnað og niðurgreiðslu skulda. Skuldir heimilanna, í hlutfalli við tekjur og VLF, eru þannig lágar í bæði sögulegum og alþjóðlegum samanburði. Ekki er þó hægt að fara í grafgötur með það að hægar hefur gengið að vinda ofan af verðbólgu en vonir hafa staðið til. Ein bagalegasta birtingarmynd þess er hátt vaxtastig og meiri vaxtabyrði heimila og fyrirtækja en gengið getur til lengdar.

Áfangasigrar á öllum vígstöðvum í baráttunni við verðbólgu

Í sinni einföldustu mynd má segja að drifkraftar verðbólgu séu þrír; hnökrar á framboðshlið hagkerfisins geta drifið verðbólgu til skamms tíma, þróttmikil eftirspurn umfram getu hagkerf­isins til verðmætasköpunar getur þrýst upp verðbólgu og í þriðja lagi geta væntingar um verð­bólgu reynst sjálfnærandi og viðhaldið henni um langt skeið. Í öllum þessum þáttum hafa unnist mikilvægir áfangasigrar. Framleiðsluvandræði voru mikilvægur drifkraftur verðbólgu við upp­haf verðbólguskeiðsins, bæði vegna kórónuveirufaraldursins og afleiðinga innrásar Rússlands í Úkraínu. Þau eru að baki og drífa ekki lengur verðbólguna. Greinilegt er að með ábyrgri hagstjórn er að takast að draga úr eftirspurn og umsvifum. Þótt enn sé kraftur í innlendri eftirspurn hefur vöxtur í kortaveltu heimila og veltu fyrirtækja verið sáralítill um mánaðaskeið samhliða því að verulega hefur dregið úr inn­flutningsvexti.

Eftir standa verðbólguvæntingar sem samkvæmt mælingum í könnunum og á skuldabréfa­markaði, að vísu með nokkurri óvissu, eru enn þá umfram markmið Seðlabankans. Jákvætt er að gerðir voru fjögurra ára kjarasamningar með launahækkunum sem samrýmast efnahags­legum stöðugleika til lengdar. Það segir sitt um trúverðugleika efna­hagsstefnunnar við að vinna bug á verðbólgu. Við höfum því náð mikilvægum árangri í baráttunni við verðbólguna á öllum helstu vígstöðvum hennar. Hún hefur enda hjaðnað umtalsvert og undirliggjandi verðbólga mælist nú í námunda við 4%. Þar hafa allir armar hagstjórnar, peningastefnan, ríkisfjármálin og vinnumarkaðurinn, lagt hönd á plóginn.

Greiningaraðilar spá því allir að verðbólgan fari minnkandi. Lækki vextir Seðlabankans og íbúðalána í takt við verðbólguspá bankans gæti greiðslubyrði 30 m.kr. óverðtryggðs íbúðaláns á breytilegum vöxtum lækkað um 50 þús.kr. á mánuði, þ.e. 600 þús.kr. á ári. Það er því til mikils að vinna að halda rétt á spilunum og standa við gerðar áætlanir.

Staðið verður við metnaðarfullar áætlanir

Þótt Seðlabanka Íslands hafi verið falið það markmið að tryggja verðstöðugleika og hann hafi á sinni hendi helstu stjórntæki peningamála sem þarf til að ná því markmiði gegna stjórn­málin og ríkisfjármálin vitaskuld einnig mikil­vægu hlutverki í þeim efnum. Til lengdar er verð­bólga ekki síst mælikvarði á stjórnfestu og styrk stofnana samfélagsins. Þar mælist Ísland hátt í öllum alþjóðlegum samanburði. Í því sambandi er ástæða til að benda á að verðbólga, mæld á samræmdan mælikvarða, hefur að jafnaði ekki verið hærri á Íslandi en í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins né á Norðurlöndunum frá árinu 2015. Ríkisstjórnin hefur sett fram trú­verðugar og metnaðarfullar áætlanir í ríkisfjármálum sem alþjóðastofnanir á borð við Alþjóðagjaldeyris­sjóðinn telja að séu viðeigandi í ljósi efnahagsaðstæðna. Seðlabankinn telur einnig að aðhald ríkisfjármála fari vaxandi. Fjármálaáætlun fyrir árin 2025–2029 gerir ráð fyrir að útgjaldavexti verði haldið í skefjum án þess þó að gripið verði til teljandi niðurskurðar. Þannig heldur ríkisstjórnin áfram að endur­heimta viðnámsþrótt opinberra fjármála samhliða því að varðveita efnahagslegan stöðug­leika og skapa skilyrði fyrir lækkun vaxta. Mikilvægasta framlag ríkis­fjármála til efnahags­lífsins við núverandi aðstæður er að standa við þessar áætlanir. Það er gert í þessu fjárlaga­frumvarpi.

Grunnkerfi varin með markvissum ráðstöfunum og forgangsröðun brýnna verkefna

Í þessu fjárlagafrumvarpi er áhersla lögð á hóflegan raunvöxt útgjalda. Svigrúm verður skapað til nýrra og aukinna verkefna með markvissum ráðstöfunum sem draga úr útgjaldavexti. Þannig verði dregið úr ríkisumsvifum, staða ríkissjóðs styrkt og unnið gegn þenslu og verð­bólgu í hagkerfinu. Forðast verður að grípa til aðgerða sem leitt geta til þjónustuskerðingar eða verri lífskjara. Það svigrúm sem skapast verður nýtt til að styrkja velferðarkerfin en nýtt örorkukerfi sem tekur gildi í september á næsta ári mun bæta kjör örorkulífeyris­þega verulega. Þá verður jafnframt gripið til aðgerða til að bæta kjör ellilífeyrisþega en almennt frítekjumark ellilífeyris hækkar um 46% í ársbyrjun 2025. Það þýðir 138 þús.kr. kjara­bót á ári. Aukinn þungi verður settur á inngildingu flóttafólks og innflytjenda í íslenskt samfélag og fjárframlög til styttingar málsmeðferðartíma í afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd verða hækkuð. Nýframkvæmdir og viðhald á vegakerfinu verða áfram í forgrunni og framlög til uppbyggingar samgönguinnviða og almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu verða aukin um 6,4 ma.kr. Heilbrigðismálin verða áfram forgangsmál en alls aukast framlög til málaflokksins milli ára um 10,4 ma.kr. á föstu verðlagi, eða sem nemur um 3%. Fjárveitingar til heilbrigðisstofnana og sjúkratrygginga verða auknar vegna fjölgunar og öldrunar þjóðar­innar og aukið fjármagn verður sett í rekstur nýrra hjúkrunarrýma. Framlög vegna lyfja og hjálpartækja aukast um 1,3 ma.kr. og áframhaldandi kraftur verður í byggingu nýs Landsspítala en á árinu 2025 verður 18,4 ma.kr. varið til verkefnisins. Heildarfjárheimildir til fjárfestinga og fjármagnstilfærslna verða 131 ma.kr. eða 2,7% af VLF á árinu 2025 og aukast um 9,7 ma.kr. á milli ára. Hafist verður handa við byggingu nýs fangelsis í stað Litla-Hrauns og fyrstu skrefin tekin í átt að byggingu Þjóðarhallar.

Stuðningur við ungt fólk sem verðbólga og háir vextir bitna einkum á

Með þessu fjárlagafrumvarpi er megináherslan lögð á að skapa aðstæður fyrir lækkun vaxta samhliða því að varðveita efnahagslegan stöðugleika. Á sama tíma er brýnt að horfast í augu við það að helsta meðalið við verðbólgu, þ.e. háir stýrivextir Seðlabankans, er mjög breiðvirkt. Það hefur aukaverkanir á flest heimili, en mismiklar eftir fjárhagsstöðu þeirra. Þannig er á það bent í kafla 2 Efnahagsstefna að af þeim sem á annað borð eiga skuldsetta fasteign hefur vaxta­byrði ungs fólks hækkað margfalt hraðar en annarra aldurshópa. Aðgerðir stjórnvalda til að styðja við markmið langtímakjarasamninga eru í forgangi og styðja sérstaklega við barnafólk, leigjendur og skuldsetta íbúðaeigendur á tímabili samningsins. Má nefna að sérstakur vaxta­stuðningur til heimila með íbúðalán var greiddur út á liðnu ári, gunnfjárhæðir húsnæðisbóta og eignaskerðingarmörk í húsnæðisbótakerfinu voru hækkuð umtalsvert og stuðningur við barna­fjölskyldur stórefldur. Umfang aðgerðanna nemur um 14 ma.kr. á árinu 2025.

Fjárhagsleg staða eldri borgara á Íslandi er almennt sterk og hafa kjör hópsins batnað umtalsvert síðastliðinn áratug. Gildir það hvort sem litið er til tekna, kaupmáttar eða eigna- og skulda­stöðu. Kjör hópsins á ýmsum sviðum hafa almennt batnað umfram yngri aldurshópa. Samhliða hafa útgjöld almannatrygginga vegna eldri borgara aukist verulega. Það skýrist bæði af breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar, þar sem vægi aldraðra vex hröðum skrefum, og einnig af því að lífeyrisgreiðslurnar hafa í gegnum tíðina verið hækkaðar mun meira en sem nemur hækkun á almennu verðlagi og einnig talsvert meira en launavísitala Hagstofunnar.

Góð staða ellilífeyrisþega endurspeglast bæði í lágum skuldum og góðri eignastöðu. Eigin­fjár­staða eldri borgara er almennt betri en hjá öðrum aldurshópum. Hópurinn er almennt lítið skuldsettur og vaxtagjöld hans í hlutfalli við ráðstöfunartekjur eru lág. Yfirgnæfandi meiri hluti eldri borgara býr í eigin húsnæði. Það, sem og sú staðreynd að skuldir eldri borgara eru almennt lágar, bendir til þess að húsnæðiskostnaður þeirra sé sömuleiðis lítill í samanburði við aðra aldurshópa. Viðvarandi áskorun er þó að bæta hag þeirra eldri borgara sem hafa lægstar tekjur. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að tæplega 3 ma.kr. verði varið í hækkun frítekjumarks ellilífeyrisþega úr 25.000 kr. í 36.500 kr. á mánuði líkt og vikið hefur verið að framar í kaflanum.

Tekjur umfram áætlanir hafa verið lagðar til hliðar

Undanfarin ár hefur verið gert gott betur en að standa við gerðar áætlanir. Ríkisfjármála­stefnan hefur verið gagnrýnd fyrir að vera ekki nægilega aðhaldssöm í ljósi mikillar þenslu í þjóðarbúskapnum. Hið rétta er að áætlanir í þeim efnum taka, lögum samkvæmt, mið af opin­berum þjóðhagsspám sem hafa ekki náð að fanga kraft íslenska efnahagslífsins. Þenslan og umsvifin í hagkerfinu hafa þannig ekki birst fyrr en eftir á, s.s. í kjölfar endur­skoðana Hagstof­unnar á þjóðhagsreikningum sem falið hafa í sér verulegar breytingar frá hagspám. Enda hefur afkoma ríkissjóðs ítrekað verið tugum milljarða króna betri en ráðgert var. Það er þó á sinn hátt vitaskuld afar jákvætt, enda felur það í sér að skuldahlutfall ríkissjóðs hefur þróast með mark­vert hagfelldari hætti en áður var gert ráð fyrir. Það gerist ekki af sjálfu sér, heldur aðeins ef tekjur umfram áætlanir eru lagðar til hliðar. Það hefur verið gert. Þrátt fyrir það er mikilvægt að ákvarðanir í opinberum fjármálum byggi á traustum upplýsingum um stöðu efnahagslífsins hverju sinni. Ríkisstjórnin leggur áherslu á nýtingu stafrænna lausna til að bæta bæði gæði og tímanleika gagna.

Minni samfélagslosun og sanngjarnari

Ríkisstjórnin setur umhverfis- og loftslagsmál á oddinn. Uppfærðri aðgerðaáætlun í lofts­lagsmálum, sem kynnt var í sumar, er ætlað að skila 35–45% samdrætti í samfélagslosun fyrir árið 2030. Í áætluninni, sem felur í sér ítarlegri kortlagningu aðgerða og ávinnings en áður, er með afgerandi hætti skýrt að frekari árangur í loftslagsmálum velti á því að hér á landi sé nægt framboð grænnar orku sem komi í stað jarðefnaeldsneytis.

Síðara skref við innleiðingu nýs, einfaldara og sanngjarnara gjaldtökukerfis af ökutækjum og eldsneyti verður innleitt um áramótin. Gjaldið kemur í stað sértækra vörugjalda á bensín og olíu. Markmið þess er að tryggja sjálfbæra fjármögnun öruggra og greiðra vegasamgangna um allt land samhliða orkuskiptum til framtíðar. Fyrsta skrefið við innleiðingu kerfisins var stigið um síðustu áramót þegar kílómetragjald var lagt á notkun rafmagns- og vetnisbifreiða annars vegar og tengiltvinnbíla hins vegar á vegakerfinu. Innleiðing þess gekk vel og fyrir lok janúar sl. höfðu 97% eigenda þessara bifreiða skráð kílómetrastöðu á Ísland.is. Sú reynsla sem þar hefur fengist, sá lærdómur sem af því hefur verið dreginn, auk mikilvægra ábendinga sem hafa komið fram, verður nýtt við áframhaldandi innleiðingu kerfisins árið 2025. Þá bætast við 233.000 ökutæki. Með innleiðingu kílómetragjalds munu þeir sem aka um vegakerfið greiða fyrir afnot þess í samræmi við notkun og þyngd ökutækja. Gjaldtakan mun þannig með gagn­sæjum hætti endurspegla betur raunverulegan kostnað við notkun vegakerfisins.

Tryggja þarf viðhald og uppbyggingu samgöngukerfisins

Samhliða árangri í orkuskiptum og minni eldsneytiseyðslu bílaflotans hefur landsmönnum fjölgað hratt. Óðum styttist í að Íslendingar verði 400.000. Auk þess sækja ríflega tvær milljónir ferða­manna landið heim á ári hverju. Hvort tveggja hefur leitt til aukinnar umferðar með vaxandi álagi á vegakerfið og þörf fyrir samgöngubætur. Því er mikilvægt að til staðar sé kerfi sem getur stutt fjármögnun uppbyggingar og viðhalds vegasamgangna í takt við notkun.

Styttri ferðatími, minni tafir, aukið umferðaröryggi, áhersla á að draga úr kolefnisspori, stórbættar almenningssamgöngur, fjölgun hjóla- og göngustíga og uppbygging stofnvega eru kjarninn í uppfærðum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins sem undirritaður var í ágúst. Markmiðið er að samgöngur á höfuðborgarsvæðinu verði í fremstu röð þannig að svæðið og Ísland allt sé samkeppnishæft um bæði fólk og fyrirtæki. Beint framlag ríkissjóðs til samgöngu­sáttmálans verður tæplega 3 ma.kr. árið 2025 auk árlegs 4 ma.kr. viðbótarframlags á tímabili gildandi fjármálaáætlunar. Í þingsályktunartillögu um samgönguáætlun 2024–2038 eru enn frekari framkvæmdir boðaðar með það að markmiði að tryggja greiðar og öruggar vega­samgöngur til framtíðar um allt land.

Stöðugleiki aukinn með skýrri stefnu í húsnæðismálum og uppbyggingu íbúða

Stærsta áskorun samfélagsins í húsnæðismálum á komandi árum snýr að því að tryggja nægt framboð af fjölbreyttu húsnæði. Með þingsályktun um húsnæðisstefnu, sem Alþingi sam­þykkti í sumar, er í fyrsta sinn sett fram heildstæð langtímastefnumótun í húsnæðismálum á landsvísu sem hefur það að leiðarljósi að tryggja húsnæðisöryggi í víðtækum skilningi. Vönduð áætlanagerð um uppbyggingu íbúða til langs tíma í samræmi við mann­fjöldaaukningu dregur úr óstöðugleika á húsnæðismarkaði, eykur fyrirsjáanleika og minnkar sveiflur á byggingar­markaði.

Í tengslum við gerð langtímakjarasamninga ákvað ríkisstjórnin að styðja við byggingu 1.000 íbúða á ári á samningstímanum með stofnframlögum til almennra íbúða og hlutdeildar­lánum. Ríkissjóður leggur til 7–9 ma.kr. í stofnframlög á ári til að stuðla að stöðugri uppbygg­ingu. Í júní voru heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga í íbúðarhúsnæði rýmkaðar verulega. Þannig skapast auknar forsendur fyrir því að lífeyrissjóðir komi að uppbyggingu leiguhús­næðis, sem er til þess fallið að auka stöðugleika á húsnæðismarkaði og halda aftur af verðhækk­unum. Fjársterkir langtímaeigendur eru mjög ákjósanlegir kaupendur að húsnæði og aukin þátttaka þeirra á húsnæðismarkaði styður við uppbyggingu á húsnæðismarkaði.

Ríkissjóður þarf að geta stutt við hagkerfið þegar áföll dynja yfir

Í fjármálaáætlun fyrir árin 2025–2029 er sjónum beint að þeim efnahagsáföllum og náttúru­hamförum sem Íslendingar hafa þurft að glíma við á síðustu áratugum. Á undanförnum fimm árum einum saman hafa gjaldþrot stórra fyrirtækja, skriðuföll, heimsfaraldur og eldgos haft markverð áhrif á líf fólks. Krónan hefur spilað lykilhlutverk við árangursríka aðlögun hagkerf­isins að þessum áföllum. Gengi hennar hefur verið afar stöðugt fyrir utan gengisveikingar við gjaldþrot WOW air og útbreiðslu faraldursins. Þannig studdi hún við samkeppnishæfni og útflutningsstarfsemi þegar áföll bar að garði. Forsenda þess að krónan gegni hlutverki sínu og styðji við efnahagslífið, fremur en að valda sveiflum, er að erlend skuldsetning hagkerfisins, einkum ríkissjóðs, sé hófleg. Fjármögnun ríkissjóðs verður að fara að mestu leyti fram á inn­lendum fjármálamörkuðum. Það setur hallarekstri ríkissjóðs skorður og krefur stjórnvöld um að styrkja afkomubatann enn frekar til að skapa skilyrði fyrir lækkun vaxta.

Enn sér ekki fyrir endann á jarðhræringum og eldgosum í og við Grindavík. Stjórnvöld leggja þunga áherslu á að skapa forsendur fyrir öruggari framtíð Grindvíkinga og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að Grindavík verði aftur það öfluga bæjarfélag sem það var fyrir elds­umbrotin. Áætlað er að kostnaður ríkissjóðs vegna fjölbreyttra stuðningsaðgerða við Grindavík árin 2023–2024 nemi um 80 ma.kr. Aðgerðirnar felast einkum í stuðningi til launa­greiðslna, rekstrarstuðningi til fyrirtækja, sértækum húsnæðisstuðningi, byggingu varnargarða og kaupum Fasteignafélagsins Þórkötlu á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

Viðvarandi og mögulega vaxandi áhætta af náttúruhamförum og efnahagsáföllum felur í sér að mikilvægara en ella er að treysta viðnámsþol hagkerfisins. Líkt og rakið er að framan er staða hagkerfisins sterk og rík áhersla hefur verið lögð á að byggja upp viðnámsþrótt efna­hagslífsins. Nauðsynlegt er að standa við áætlanir í ríkisfjármálum, sem alþjóðlegar stofnanir telja viðeigandi, með því að halda aftur af útgjaldavexti og styrkja afkomu og skuldastöðu ríkissjóðs. Vöxtur heildarútgjalda samkvæmt frumvarpinu er 4% miðað við endurskoðaða áætlun um útgjöld ársins 2024, að launa- og verðlagsbreytingum milli ára meðtöldum. Gangi það eftir verður það verulega undir sögulegu meðaltali útgjaldavaxtar að nafnvirði frá 2012, sem er um 7%. Útgjöld ríkissjóðs árið 2025 verða þannig rúmlega 40 ma.kr. lægri en ef útgjaldavöxtur væri við sögulegt meðaltal. Einnig má líta til þess að skv. frumvarpinu verða heildarútgjöld 30,5% af VLF en það er 0,8 prósentustigum lægra en áætluð útkoma ársins 2024. Þá er vöxtur frumgjalda, þ.e. að vaxtagjöldum frátöldum, hóflegur eða um 2,2% að raungildi milli áranna 2024 og 2025 en þá eru launa- og verðlagshækkanir undanskildar. Allt ber að sama brunni, hægt er á vexti útgjalda og ríkisfjármálin stuðla á þann hátt að hjöðnun verðbólgu og lækkun vaxta, sem mun styðja við fjár­festingar fyrirtækja og verðmætasköpun til allrar fram­tíðar. Aðeins þannig er unnt að tryggja svigrúm sameiginlegra sjóða til að styðja við fjölskyldur og efnahagslíf í gegnum áföll.

Það sést til lands í baráttunni við verðbólguna. Til að ná farsælli lendingu er brýnast að fylgja fast eftir þeirri áætlun sem lagt er upp með í gildandi fjármálaáætlun og í þessu fjárlaga­frum­varpi fyrir árið 2025. Síðustu ár hafa tekjur ríkissjóðs umfram áætlanir verið lagðar til hliðar til að lækka skuldahlutfallið. Umfram allt, þá er staða hagkerfisins sterk og rík áhersla hefur verið lögð á að byggja upp aukið þol og svigrúm til að bregðast við áföllum.

Síðustu misserin hefur allur almenningur og fyrirtækin í landinu fundið verulega fyrir háu vaxtastigi. Margt hefur verið gert til að draga úr þenslu og stuðla að efnahagslegum stöðug­leika. Gerðir voru hófsamir fjögurra ára kjarasamningar á almennum markaði. Ríkisstjórnin lagði sitt af mörkum til að skapa aðstæður fyrir þá samninga og er mikilvægt að opinberi markaðurinn fylgi fordæmi hins almenna. Til marks um ábyrgð ríkisins, þá er breyting krónu­tölugjalda í fjárlagafrumvarpinu bundin við 2,5%.

Á sama tíma og krafist er almenns aðhalds eru grunnkerfi okkar varin, þ.e. velferðarkerfi, heil­brigðiskerfi, skólakerfi, löggæsla. Forðast er að grípa til aðgerða sem leitt geta til verri lífskjara. Svigrúm verður notað í nýtt kerfi örorku- og endurhæfingar. Einnig verður aukin áhersla lögð á inngildingu þeirra sem hingað flytja í íslenskt samfélag.

Í þessu fjárlagafrumvarpi eru engar kollsteypur, heldur markviss skref í átt að auknu jafn­vægi, í átt að sterkari efnahag, öflugu samfélagi. Fjárlög eru ekki aðeins tölur á blaði. Bak við þær er rekstur heils samfélags.

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum