Hoppa yfir valmynd

35 Alþjóðleg þróunarsamvinna

Utanríkisráðuneytið

Skilgreining málefnasviðs

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð utanríkisráðherra og fellur í einn málaflokk. Í eftirfarandi töflu má sjá fjárhagslega þróun málefnasviðsins og einstakra málaflokka á tímabilinu 2023–2025. Helstu áherslum, framtíðarsýn og meginmarkmiðum á málefnasviðinu er lýst í fjármálaáætlun.

Alþjóðleg þróunarsamvinna

Heildaryfirlit útgjalda og breytingar eftir tilefnum

Myndin hér á eftir sýnir sundurliðaðar breytingar á útgjaldaramma málefnasviðsins eftir helstu tilefnum sem nánar er greint frá í inngangskafla málefnasviða.

Breyting á ramma á milli áranna 2024 og 2025

Heildargjöld málefnasviðs 35 Alþjóðleg þróunarsamvinna árið 2025 eru áætluð 15.010,3 m.kr. og aukast um 1.903,5 m.kr. á föstu verðlagi fjárlaga 2024, eða sem svarar til 14,5%. Þar sem útgjöld málefnasviðsins eru miðuð við tiltekið hlutfall af vergum þjóðartekjum eru ekki gerðar almennar launa- eða verðlagsbreytingar á fjárheimild málefnasviðsins á milli ára.

Myndin endurspeglar þá útfærslu og forgangsröðun sem unnin er út frá stefnumótun málefnasviðsins. Sú niðurstaða getur eftir atvikum vikið frá þeim viðmiðum sem sett voru í fjármálaáætlun, t.a.m. þannig að nýju útgjaldasvigrúmi hafi að einhverju leyti verið jafnað á móti aðhaldsmarkmiði. Aðhaldsmarkmiðið felur m.a. í sér sértækar afkomubætandi aðhalds­ráðstafanir á málefnasviðum og er nánar fjallað um þær í kafla 5 Gjöld ríkissjóðs.

Framlög til þróunarsamvinnu reiknast sem hlutfall af áætluðum vergum þjóðartekjum. Samkvæmt stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands fyrir árin 2024–2028, sem var samþykkt af Alþingi hinn 15. desember 2023, var gert ráð fyrir að framlög Íslands til þróunar­samvinnu færu hækkandi yfir tímabil fjármálaáætlunarinnar úr 0,35% af vergum þjóðartekjum (VÞT) árið 2024 í 0,46% árið 2028.

Hagræn skipting útgjalda

Í eftirfarandi töflu eru útgjöld málefnasviðsins, þróun fjárheimilda og fjármögnun frá árinu 2023 greind í fjóra þætti eftir hagrænni skiptingu, eins og nánar er greint frá í inngangskafla málefnasviða. Hagræn skipting útgjalda niður á málaflokka birtist í fylgiriti með fjárlögum.

Alþjóðleg þróunarsamvinna

35.10 Þróunarsamvinna

Starfsemi málaflokksins er í höndum þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytis, sendiskrifstofa Íslands í Lilongwe, Kampala og Freetown sem og fastanefnda Íslands í New York, Genf, París og Róm. Íslensk stjórnvöld leggja sig fram um að vera áreiðanlegur samstarfs­aðili í þróunarsamvinnu, fara vel með þróunarfé og vinna samkvæmt bestu starfs­venjum. Utanríkisráðuneytið á í markvissu samstarfi við alþjóðastofnanir og samstarfs­lönd með framgang heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi. Ramma­samningum við áherslustofnanir og frjáls félagasamtök er ætlað að auka sveigjanleika, fyrirsjáanleika og viðbragðsflýti þeirra. Yfirmarkmið þróunarsamvinnu Íslands er útrýming fátæktar, virðing fyrir mannréttindum og bætt lífsskilyrði sem grundvallast á framtíðarsýn heims­markmiða Sameinuðu þjóðanna. Nánar er fjallað um málaflokkinn í fjármálaáætlun, þar á meðal ábyrgðarskiptingu, helstu áskoranir og tækifæri, markmið og mælikvarða um árangur o.fl.

Í eftirfarandi töflu má sjá helstu verkefni málaflokksins árið 2025 og tengingu þeirra við markmið ásamt helstu breytingum sem verða á fjárveitingum á milli ára. Eingöngu eru sýndar breytingar sem verða á fjárveitingum til verkefna frá fjárlögum ársins 2024. Þannig endur­spegla fjárhæðir ekki heildarfjárveitingar til verkefna nema í tilvikum þar sem breyting á milli ára felur í sér heildarfjármögnun verkefnisins.

 

Helstu verkefni 2025

Framkvæmdaraðili

Breyting á fjárveitingu til verkefnis

Markmið 1: Uppbygging mannauðs og samfélagslegra grunnstoða með áherslu á mann­réttindi og jafnrétti kynjanna

Byggðaþróunarverkefni í Malaví, Síerra Leóne og Úganda (HM 4, 3, 6, 5).

Utanríkisráðuneyti

Innan ramma

Samstarfsverkefni með Mannfjölda­sjóði SÞ um aðgerðir gegn fæðingar­fistli í Malaví, Síerra Leóne og Úganda (HM 3, 5).

Utanríkisráðuneyti

Innan ramma

Stuðningur við kjarnastofnanir SÞ sem vinna í þágu mannréttinda og kynja­jafnréttis (HM 5, 10).

Utanríkisráðuneyti

Innan ramma

Markmið 2: Viðbrögð gegn loftslagsvánni, efling viðnámsþróttar samfélaga og sjálfbær nýting náttúruauðlinda

Verkefni í Síerra Leóne á sviði fiski­mála og bláa hagkerfisins (HM 14).

Utanríkisráðuneyti

Innan ramma

Þátttaka í verkefni NDF um aukna nýtingu og aðgang að endurnýjanlegri orku í Afríku (HM 7, 13).

Utanríkisráðuneyti

Innan ramma

Stuðningur við GRÓ – þekkingar­miðstöð þróunarsamvinnu með færni- og þekkingaruppbyggingu (HM 7, 15, 14, 13).

Utanríkisráðuneyti

Innan ramma

 

Markmið 3: Ísland er áreiðanlegur samstarfsaðili í alþjóðlegri þróunarsamvinnu og mannúðarmálum og beitir sér í þágu stöðugleika og friðar

Fyrirsjáanlegur og tímanlegur stuðn­ingur við lykilstofnanir SÞ á sviði mannúðaraðstoðar.

Utanríkisráðuneyti

Innan ramma

Efnahags- og mannúðarstuðningur við Úkraínu í samræmi við þingsályktun.

Utanríkisráðuneyti

2.000 m.kr.

Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2025 er áætluð 15.010,3 m.kr. og hækkar um 1.903,5 m.kr. frá gildandi fjárlögum. Ekki eru gerðar almennar launa- og verðlagsbreytingar á fjárheimild málaflokksins. Ekki er um verulegar breytingar á hagrænni skiptingu innan málaflokksins að ræða.

Helstu breytingar á fjárheimildum málaflokksins eru eftirtaldar:

  1. Framlög til málaflokksins hækka um 2.500 m.kr. vegna aukins stuðnings við mannúðar- og uppbyggingarstarf í Úkraínu á grundvelli þingsályktunartillögu utan­ríkisráðherra sem samþykkt var á Alþingi í apríl 2024. Framlögunum verður varið til verkefna í Úkraínu sem talist geta til þróunarsamvinnu samkvæmt skilgreiningu þróunarsamvinnunefndar OECD (DAC) og þannig stuðla að því að Ísland uppfylli skuldbindingar sínar varðandi framlög til þróunarsamvinnu eins og kveðið er á um í stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands fyrir árin 2024–2028. Aðkoma að verkefnum sem falla undir þennan stuðning er fjölbreytt og snertir í reynd flesta málaflokka ráðuneytis.
  2. Fjárheimild til málaflokksins lækkar á móti um 500 m.kr. vegna niðurfellingar tímabundins framlags til aukinnar mannúðar- og efnahagsaðstoðar við Úkraínu sem kom inn í 2. umræðu fjárlagafrumvarps 2024.
  3. Framlög til málaflokksins aukast um 20 m.kr., byggt á spá Hagstofunnar um vergar þjóðartekjur. Tillagan er liður í stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands fyrir árin 2024–2028 þar sem stefnt var að því að framlög Íslands til þróunarsamvinnu færu hækkandi yfir tímabil fjármálaáætlunar 2024–2028 úr 0,35% af vergum þjóðartekjum (VÞT) árið 2024 í 0,46% árið 2028 og næmu 0,37% árið 2025 að undanskildum stuðningi Íslands við Úkraínu.
  4. Hlutdeild málaflokksins í aðhaldskröfu málefnasviðsins nemur 116,5 m.kr. Þar af eru 100 m.kr. sem miðast við 4% af framlögum til nýrra og aukinna verkefna. Ný og aukin verkefni í fjármálaáætlun 2025–2029 felast fyrst og fremst í hækkun framlaga vegna Úkraínu. Framlög vegna þessara verkefna eru því í skert í samræmi við sértækar aðhaldsaðgerðir fyrir 2025 en forgangsraðað verður innan viðkomandi málaflokka þannig að staðið verður við skuldbindingar sem Ísland hefur nú þegar undirgengist varðandi stuðning við Úkraínu. Annað verður útfært við gerð rekstraráætlunar fyrir árið 2025.
Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum