Hoppa yfir valmynd

13 Sjávarútvegur og fiskeldi

Matvælaráðuneytið

Skilgreining málefnasviðs

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð matvælaráðherra. Það skiptist í tvo málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu. Þar má jafnframt sjá fjárhagslega þróun málefnasviðsins og einstakra málaflokka á tímabilinu 2023–2025. Helstu áherslum, framtíðarsýn og megin­markmiðum á málefnasviðinu er lýst í fjármálaáætlun.

Sjávarútvegur og fiskeldi

Heildaryfirlit útgjalda og breytingar eftir tilefnum

Myndin hér á eftir sýnir sundurliðaðar breytingar á útgjaldaramma málefnasviðsins eftir helstu tilefnum sem nánar er greint frá í inngangskafla málefnasviða.

Breyting á ramma á milli áranna 2024 og 2025

Heildargjöld málefnasviðs 13 Sjávarútvegur og fiskeldi árið 2025 eru áætluð 8.279,6 m.kr. og aukast um 150,3 m.kr. á föstu verðlagi fjárlaga 2024, eða sem svarar til 1,9%. Þegar tekið er tillit til áhrifa af almennum launa- og verðlagsbreytingum hækka útgjöldin um 527,6 m.kr. milli ára, eða sem svarar til 6,8%.

Myndin endurspeglar þá útfærslu og forgangsröðun sem unnin er út frá stefnumótun málefnasviðsins. Sú niðurstaða getur eftir atvikum vikið frá þeim viðmiðum sem sett voru í fjármálaáætlun, t.a.m. þannig að nýju útgjaldasvigrúmi hafi að einhverju leyti verið jafnað á móti aðhaldsmarkmiði. Aðhaldsmarkmiðið felur m.a. í sér sértækar afkomubætandi aðhalds­ráðstafanir á málefnasviðum og er nánar fjallað um þær í kafla 5 Gjöld ríkissjóðs.

Hagræn skipting útgjalda

Í eftirfarandi töflu eru útgjöld málefnasviðsins, þróun fjárheimilda og fjármögnun frá árinu 2023 greind í fjóra þætti eftir hagrænni skiptingu, eins og nánar er greint frá í inngangskafla málefnasviða. Hagræn skipting útgjalda niður á málaflokka birtist í fylgiriti með fjárlögum.

Sjávarútvegur og fiskeldi

13.10 Stjórnun sjávarútvegs og fiskeldis

Starfsemi málaflokksins er í höndum Fiskistofu og Verðlagsstofu skiptaverðs og auk þess heyra Fiskræktarsjóður, Umhverfissjóður sjókvíaeldis, Fiskeldissjóður og Alþjóðlegt samstarf í sjávarútvegi undir málaflokkinn. Þá má nefna að Matvælastofnun, sem heyrir undir málefna­svið 12, sinnir ýmsum verkefnum á sviði fiskeldis. Nánar er fjallað um málaflokkinn í fjármála­áætlun, þar á meðal ábyrgðarskiptingu, helstu áskoranir og tækifæri, markmið og mælikvarða um árangur o.fl.

Í eftirfarandi töflu má sjá helstu verkefni málaflokksins árið 2025 og tengingu þeirra við markmið ásamt helstu breytingum sem verða á fjárveitingum á milli ára. Eingöngu eru sýndar breytingar sem verða á fjárveitingum til verkefna frá fjárlögum ársins 2024. Þannig endur­spegla fjárhæðir ekki heildarfjárveitingar til verkefna nema í tilvikum þar sem breyting á milli ára felur í sér heildarfjármögnun verkefnisins.

 

Helstu verkefni 2025

Framkvæmdaraðili

Breyting á fjárveitingu til verkefnis

Markmið 1: Skapa sjávarútvegi skilyrði til aukinnar verðmætasköpunar með sjálfbæra nýtingu og vistkerfisnálgun að leiðarljósi

Efling hafrannsókna.

Hafrannsóknastofnun

230 m.kr.*

Efling eftirlits á sviði fiskveiða.

Fiskistofa

20 m.kr.

Skilgreining verndarsvæða í hafi á grunni rannsókna og í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.

Matvælaráðuneyti

Innan ramma

Markmið 2: Draga úr losun gróðurhúsalofttegunda við fiskveiðar

Innleiðing aðgerða í sjávarútvegi skv. endurskoðaðri aðgerðaáætlun í loftslags­málum, mat á árangri ívilnana til smábáta og efling hafrannsókna.***

Matvælaráðuneyti

Innan ramma

Áframhaldandi áhersla á minnkun kolefnisspors við fiskveiðar.

Matvælaráðuneyti

Innan ramma

Markmið 3: Skapa lagareldi skilyrði til aukinnar verðmætasköpunar með sjálfbæra nýtingu og vistkerfisnálgun að leiðarljósi

Efling eftirlits með lagareldi.**

Matvælaráðuneyti

Innan ramma

Efling Fiskeldissjóðs.

Matvælaráðuneyti

Innan ramma

Efling ferskvatnsrannsókna og vöktun umhverfisáhrifa vegna sjókvíaeldis.

Hafrannsóknastofnun

50 m.kr.*

*Fjárveiting til verkefnisins kemur fram í málaflokki 13.20, sem Hafrannasóknastofnun heyrir undir, en umfjöllun um markmið og helstu verkefni koma fram undir málaflokki 13.10.

**Fjárveiting til verkefnisins kemur fram í málaflokki 12.10 sem Matvælastofnun heyrir undir og er að öðru leyti vísað í umfjöllun þar. Verkefnið styður jafnframt við markmið 1 í málaflokki 12.10.

***Tengist aðgerð undir markmiði 1.

Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2025 er áætluð 2.051,8 m.kr. og hækkar um 8,7 m.kr. frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum en þær nema 82,7 m.kr.

Ekki er um miklar breytingar á hagrænni skiptingu innan málaflokksins að ræða.

Helstu breytingar á fjárheimildum málaflokksins eru eftirtaldar:

  1. Fjárheimild málaflokksins hækkar um 49,5 m.kr. til eflingar Fiskeldissjóðs. Í lögum nr. 89/2019, um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð, er miðað við að 1/3 af gjaldinu fari til Fiskeldissjóðs, sbr. greinargerð með lögunum. Markmiðið með hækkun framlagsins er að stuðla að enn frekari uppbyggingu innviða þar sem fiskeldi í sjókvíum er stundað og styrkja þar með samfélög og stoðir atvinnulífs á þeim svæðum. Verkefnið er í samræmi við markmið 3 í málaflokki 13.10.
  2. Gert er ráð fyrir að fjárheimild málaflokksins hækki um 20 m.kr. til fjölgunar stöðu­gilda eftirlitsmanna Fiskistofu. Kemur sú hækkun til viðbótar 45 m.kr. framlagi til verkefnisins í fjárlögum 2024. Ljóst er að styrkja þarf veiðieftirlitið sem komið er að þolmörkum en í gildandi fjármálaáætlun er gert ráð fyrir að framlagið hækki á kom­andi árum og verði nærri 100 m.kr. frá og með árinu 2026. Tillagan er hluti af aðgerð­um stjórnvalda til að bregðast við áskorunum í sjávarútvegi og fiskeldi með því að efla stjórnsýslulega umgjörð þessara málaflokka og stuðla þannig að aukinni verð­mætasköpun fyrir íslenskt þjóðarbú til framtíðar. Verkefnið er í samræmi við markmið 1 í málaflokki 13.10.
  3. Hlutdeild málaflokksins í aðhaldskröfu málefnasviðsins nemur 61,8 m.kr.

13.20 Rannsóknir, þróun og nýsköpun í sjávarútvegi

Undir málaflokkinn falla verkefni Hafrannsóknastofnunar, bygging hafrannsóknaskips, Verkefnasjóður sjávarútvegsins, Umhverfissjóður sjókvíaeldis og framlög til ýmissa samninga og verkefna í sjávarútvegi og fiskeldi, s.s. vegna rannsókna, þróunar og nýsköpunar. Nánar er fjallað um málaflokkinn í fjármálaáætlun, þar á meðal ábyrgðarskiptingu, helstu áskoranir og tækifæri, markmið og mælikvarða um árangur o.fl.

Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2025 er áætluð 6.227,8 m.kr. og hækkar um 141,6 m.kr. frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum en þær nema 294,6 m.kr.

Fjárfestingarframlög hækka um 142 m.kr. að frátöldum launa- og verðlagsbreytingum sem skýrist fyrst og fremst af 144 m.kr. viðbótarframlagi til tækjakaupa í nýtt hafrannsóknaskip. Að öðru leyti er ekki um miklar breytingar á hagrænni skiptingu innan málaflokksins að ræða.

Helstu breytingar á fjárheimildum málaflokksins eru eftirtaldar:

  1. Fjárheimild málaflokksins hækkar um 230 m.kr. til eflingar hafrannsókna hjá Haf­rannsóknastofnun með það að markmiði að skapa sjávarútvegi skilyrði til aukinnar verðmætasköpunar með sjálfbæra nýtingu og vistkerfisnálgun að leiðarljósi. Kemur sú hækkun til viðbótar 180 m.kr. framlagi til verkefnisins í fjárlögum 2024. Tillagan er hluti af aðgerðum stjórnvalda til að bregðast við áskorunum í sjávarútvegi og fisk­eldi með því að efla stjórnsýslulega umgjörð þessara málaflokka og stuðla þannig að aukinni verðmætasköpun fyrir íslenskt þjóðarbú til framtíðar. Í fjármálaáætlun 2024–2028 og fjárlagafrumvarpi 2024 er gerð ítarleg grein fyrir því hvernig gert er ráð fyrir að ráðstafa þessum auknu fjárveitingum til stofnunarinnar vegna verkefnisins og er að öðru leyti vísað í nánari umfjöllun þar. Verkefnið er í samræmi við markmið 1 í málaflokki 13.10.
  2. Fjárheimild málaflokksins hækkar um 50 m.kr. til að styrkja verkefni Haf­rannsóknastofnunar á sviði burðarþolsmats fjarðakerfa, þ.m.t. eldissvæða­skiptingu, mat á umhverfisáhrifum sjókvíaeldis, áhættumat erfðablöndunar og rannsóknir á dreif­ingu laxa- og fiskilúsar. Kemur sú hækkun til viðbótar 126 m.kr. framlagi til verkefnis­ins í fjárlögum 2024. Tillagan er hluti af aðgerðum stjórnvalda til að bregðast við áskorunum í sjávarútvegi og fiskeldi með því að efla stjórnsýslulega umgjörð þessara málaflokka og stuðla þannig að aukinni verðmætasköpun fyrir íslenskt þjóðarbú til framtíðar. Mikil þörf hefur verið að auka eftirlit, rannsóknir og vöktun á sviði lagar­eldis. Sjókvíaeldi hefur verið í miklum vexti undanfarin fimm ár og er mikilvægt að styrkja vöktun og rannsóknir vegna samspils lífríkis við sjókvíaeldið.
  3. Fjárheimild málaflokksins hækkar tímabundið um 144 m.kr. í eitt ár til tækjakaupa í nýtt hafrannsóknaskip.
  4. Tímabundin 200 m.kr. fjárheimild til málaflokksins fellur niður sem veitt var í fjárlögum 2024 til hvalatalninga.
  5. Hlutdeild málaflokksins í aðhaldskröfu málefnasviðsins nemur 61,4 m.kr.
Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum