Hoppa yfir valmynd

34 Almennur varasjóður og sértækar fjárráðstafanir

Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Skilgreining málefnasviðs

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð fjármála- og efnahagsráðherra. Það skiptist í þrjá málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu. Þar má jafnframt sjá fjárhagslega þróun málefnasviðsins og einstakra málaflokka á tímabilinu 2023–2025. Helstu áherslum, framtíðarsýn og meginmarkmiðum á málefnasviðinu er lýst í fjármálaáætlun.

Almennur varasjóður og sértækar fjárráðstafanir

Heildaryfirlit útgjalda og breytingar eftir tilefnum

Myndin hér á eftir sýnir sundurliðaðar breytingar á útgjaldaramma málefnasviðsins eftir helstu tilefnum, sem nánar er greint frá í inngangskafla málefnasviða.

Breyting á ramma á milli áranna 2024 og 2025

Heildargjöld málefnasviðs 34 Almennur varasjóður og sértækar fjárráðstafanir árið 2025 eru áætluð 35.899,2 m.kr. og lækka um 35.502,7 m.kr. á föstu verðlagi fjárlaga 2024, eða sem svarar til 49,7%. Þegar tekið er tillit til áhrifa af almennum launa- og verðlagsbreytingum lækka útgjöldin um 35.006,5 m.kr. milli ára, eða sem svarar til 49,4%.

Myndin endurspeglar þá útfærslu og forgangsröðun sem unnin er út frá stefnumótun málefnasviðsins. Sú niðurstaða getur eftir atvikum vikið frá þeim viðmiðum sem sett voru í fjármálaáætlun, til að mynda þannig að nýju útgjaldasvigrúmi hafi að einhverju leyti verið jafnað á móti aðhaldsmarkmiði. Aðhaldsmarkmiðið felur m.a. í sér sértækar afkomubætandi aðhaldsráðstafanir á málefnasviðum og er nánar fjallað um þær í kafla 5 Gjöld ríkissjóðs.

Hagræn skipting útgjalda

Í eftirfarandi töflu eru útgjöld málefnasviðsins, þróun fjárheimilda og fjármögnun frá árinu 2023 greind í fjóra þætti eftir hagrænni skiptingu, eins og nánar er greint frá í inngangskafla málefnasviða. Hagræn skipting útgjalda niður á málaflokka birtist í fylgiriti með fjárlögum.

Almennur varasjóður og sértækar fjárráðstafanir

34.10 Almennur varasjóður

Starfsemi málaflokksins er á ábyrgð fjármála- og efnahagsráðherra. Samkvæmt 24. gr. laga um opinber fjármál er almennum varasjóði ætlað að bregðast við útgjöldum sem eru tímabundin, ófyrirsjáanleg og óhjákvæmileg. Samkvæmt lögum skal sjóðurinn nema að lágmarki 1% af heildarfjárheimild fjárlaga. Almennum varasjóði er einkum ætlað að mæta frávikum í launa-, gengis- og verðlagsforsendum fjárlaga og meiri háttar ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum, s.s. vegna náttúruhamfara, eða útgjöldum sem ókleift er að mæta með öðrum hætti samkvæmt fjárlögum. Óheimilt er að gjaldfæra útgjöld á almenna varasjóðinn en fjármála- og efnahagsráðherra er einum heimilt að ráðstafa fjármunum úr honum. Skal það gert að uppfylltum tilteknum skilyrðum og eru fjárheimildir þá millifærðar á þá málaflokka þar sem kostnaður fellur til. Nánar er fjallað um framangreind skilyrði og verkferlið í kafla 5.7 Varasjóðir og millifærslur fjárheimilda innan fjárlagaárs.

Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2025 er áætluð 28.908,1 m.kr. og lækkar um 17.200 m.kr. frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum en þær nema 491 m.kr.

Helstu breytingar á fjárheimildum málaflokksins eru eftirtaldar:

  1. Fjárheimild málaflokksins er lækkuð um 16.900 m.kr. en um er að ræða fjárheimild sem var tímabundið staðsett á almenna varasjóðnum í fjárlögum 2024 til að mæta kjarasamningshækkunum á yfirstandandi ári þegar samningar næðust. Á yfirstandandi ári enn ósamið hjá þorra opinberra starfsmanna og því nokkur óvissa um endanlega kostnað ríkissjóðs. Í frumvarpinu eru fjárheimildir málefnasviða og málaflokka hækkaðar varanlega sem nemur áætluðum kostnaði við kjarasamningana á ársgrundvelli og er því fyrrgreind fjárheimild felld niður á móti.
  2. Fjárheimild málaflokksins er lækkuð um 700 m.kr. vegna aðhalds sem á uppruna sinn í fjármálaáætlun árin 2025–2029, en eftir er að útfæra á viðeigandi málefnasvið þar sem aðgerðir eru enn í mótun. Aðgerðir miðað að því að ná fram aukinni hagkvæmni með sameiningu stofnana og sameiningu og einföldun sjóða.
  3. Fjárheimild málaflokksins er aukin um 200 m.kr. vegna verkefna í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd, flóttafólks og innflytjenda, en gert er ráð fyrir að heimildin verði millifærð á næsta ári. Heimildin á uppruna sinn í 1,6 ma.kr. viðbótarframlag til þessara verkefna í fjármálaáætlun 2025–2029, en nú þegar er búið að dreifa 1,4 ma.kr. af þeirri heimild á önnur málefnasvið. Nánar er fjallað um þessi framlög í kafla 5.1.

34.20 Sértækar fjárráðstafanir

Starfsemi málaflokksins er á ábyrgð fjármála- og efnahagsráðherra en nánar er fjallað um hann í fjármálaáætlun. Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2025 er áætluð 481,1 m.kr. og lækkar um 125,7 m.kr. frá gildandi fjárlögum vegna tímabundinna verkana sem falla niður. Ekki eru gerðar breytingar á hagrænni skiptingu innan málaflokksins.

34.30 Afskriftir skattkrafna

Starfsemi málaflokksins er í höndum fjármála- og efnahagsráðherra. Eðli málaflokksins er með þeim hætti að ekki verður fjallað um markmið og aðgerðir varðandi starfsemi hans. Um er að ræða fjárheimild á móti gjaldfærslu á bæði beinum afskriftum skattkrafna sem taldar eru sannanlega tapaðar, t.d. vegna gjaldþrota, og óbeinum afskriftum þar sem kröfur eru færðar niður um tiltekinn hluta sem reynsla bendir til að muni að líkindum ekki innheimtast. Um er að ræða kröfur vegna álagðra skatta, álagðra vaxta á ógreidda skatta og annarra tekna.

Fjárheimild málaflokksins lækkar um 18,2 ma.kr. vegna breyttrar aðferðafræði við afskriftir skattkrafna. Undanfarin ár hefur Fjársýslan innleitt nýja aðferðafræði, í áföngum, sem miðar að því að kröfur séu ekki ofmetnar út frá líkum á því að þær innheimtist. Áætlanir gera ráð fyrir að kröfur og afskriftir þeirra verði að jafnaði minni í framtíðinni en þær hafa verið sögulega en eftir miklar afskriftir á tímabilinu 2018–2021 lækkuðu afskriftir í uppgjöri ársins 2022. Innleiðingarferli breyttra matsaðferða Fjársýslunnar er lokið og sérstök áhrif tengd aðgerðum í veirufaraldrinum að mestu leyti að baki. Horfur um þróun eftirstöðva og afskrifta eru því orðnar mun skýrari og þykir tímabært að taka tillit til þess í tekjuáætlun ríkissjóðs. Afskriftir skattkrafna eru færðar til gjalda samkvæmt IPSAS-staðli en til tekjulækkunar samkvæmt GFS-staðli. Þær hafa því sem slíkar bein áhrif á afkomu en hvorki á sjóðstreymi né skuldir ríkissjóðs. Nánar er fjallað um framangreindar breytingar í fjármálaáætlun 2025–2029.

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum