Hoppa yfir valmynd

Skattlagning á ökutæki, eldsneyti og afnot vegakerfisins - Rammagrein 3

Fjölgun vistvænna og sparneytinna bifreiða hefur leitt til þess að skatttekjur ríkissjóðs af ökutækjum og eldsneyti hafa nú þegar rýrnað umtalsvert. Allt útlit er fyrir að slíkar tekjur ríkissjóðs muni að öllu óbreyttu halda áfram að lækka á næstu árum. Annars vegar eru tekjur af gjaldtöku á ökutæki og elds­neyti, einkum vörugjöld, teknar að fjara út sökum þess að fram hafa komið nýir orkugjafar og sparneytnari ökutæki.

Hins vegar hafa stjórnvöld markað þá stefnu að auka notkun hreinna orkugjafa í samgöngum og hraða þannig orkuskiptum, m.a. með verulegum skattastuðningi undanfarin ár sem verður í mynd beinna styrkja við bifreiðakaup næstu árin. Á sama tíma eru áform um kostnaðarsama uppbyggingu og viðhald á vegakerfinu. Með vaxandi íbúafjölda, grósku í ferðaþjónustu og til­heyrandi aukinni umferð er síst útlit fyrir að það breytist í nálægri framtíð. Nauðsynlegt er að bregðast við þessari þróun og innleiða nýtt einfaldara, gagnsærra og sjálfbærara fyrirkomulag gjaldtöku á ökutæki, eldsneyti og afnot vegakerfisins til framtíðar.

Tekjur af ökutækjum og eldsneyti 2000-2029 

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að framtíðartekjuöflunarkerfi ríkissjóðs vegna umferðar og orkuskipta verði mótað og innleitt á kjörtímabilinu. Í febrúar 2023 var sett á fót sameiginleg verkefnastofa fjármála- og efnahagsráðuneytisins og innviðaráðuneytisins til að móta tillögur um nýtt fyrirkomulag, en forsætisráðuneytið á einnig aðild að stýrihópi vegna verkefnisins.

Í þeirri vinnu hefur komið skýrt fram að eftirsóknarvert þyki að nýtt fyrirkomulag feli í sér heildstætt og samræmt gjaldtökukerfi á landsvísu þar sem tekjustofnar og hagrænir hvatar falli vel saman innbyrðis fremur en að rekast á. Einnig að gagnsæi og einfaldleiki kerf­isins verði sem mestur gagnvart greiðendum og að gjaldtaka verði notendavæn og yfir­bygging sem minnst, þannig að óhagræði og innheimtukostnaði sé haldið í lágmarki. Rauði þráðurinn í nýju kerfi felst í því að gjaldtakan færist í meira mæli á afnot af samgöngu­innviðum, m.ö.o. að þeir borgi sem nota og menga.

Frumvarp um kílómetragjald vegna notkunar hreinorku- og tengiltvinnbifreiða var sam­þykkt á Alþingi í desember sl. og varð að lögum nr. 101/2023. Með samþykkt laganna var stigið fyrsta skrefið í lögfestingu á nýju tekjuöflunarkerfi af ökutækjum og eldsneyti með upp­töku kílómetragjalds frá ársbyrjun 2024 vegna notkunar rafmagns- og vetnisbíla annars vegar og tengiltvinnbíla hins vegar (fólks- og sendibíla).

Í samræmi við þá stefnu stjórnvalda sem kemur fram í fjármálaáætlun fyrir árin 2024–2028 og í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2024 er unnið út frá því að í síðara skrefinu verði kílómetra­gjald innleitt fyrir alla bíla þar sem tekið verði mið af þyngd og vegsliti mismunandi ökutækja við afmörkun gjaldsins. Greitt verði kílómetragjald vegna ekinna kíló­metra, auk þess sem greitt verði árgjald vegna aðgangs að vegakerfinu. Gert er ráð fyrir að síðara skrefið verði stigið með framlagningu frumvarps um kílómetragjald vegna notkunar allra ökutækja á vegakerfinu, þ.m.t. bifreiða sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti, á haustþingi 155. löggjafarþings 2024–2025, og að gjaldtaka hefjist í upphafi árs 2025.

Samhliða er gert ráð fyrir að fram fari endurskoðun á þeim lagabálkum sem gilda um skattlagningu ökutækja og eldsneytis, þ.m.t. á vörugjöldum af eldsneyti, þar sem þessi eldri gjöld munu eftir atvikum lækka verulega eða falla alveg niður. Gert er ráð fyrir að áfram verði lagt kolefnisgjald á jarðefnaeldsneyti til að fanga neikvæð ytri áhrif af notkun þess og veita viðeigandi hvata til orkuskipta í samgöngum.

Innleiðing á nýja tekjuöflunarkerfinu í tveimur skrefum gerir kleift að fyrsta árið verði verk­efnið smærra í sniðum þar sem það nær þá einungis til hluta bílaflotans. Með því móti verður hægt að draga lærdóm af framkvæmd þess og endurbæta það m.t.t. reynslu og ábendinga almennings og fyrirtækja. Með þessu breytta kerfi samgöngugjalda verður Ísland fyrsta landið í heiminum til að innleiða kílómetragjöld fyrir afnot af vegakerfinu með almennum hætti. Flestöll önnur ríki eiga hins vegar við svipaðan vanda að etja vegna þverrandi tekna af vega­samgöngum og eru að skoða eða undirbúa svipaðar breytingar.

Til baka
Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta