Áhrif endurlána á lánsfjárjöfnuð - Rammagrein 10
Endurlán ríkissjóðs eru lán sem veitt eru til ríkisaðila utan A1-hlutans. Æskilegt er talið að takmarka skuldabréfaútgáfu ríkisaðila til eigin fjármögnunar og veita í stað endurlán. Þannig nást betri tök á heildarumsvifum ríkisaðila og þeir eru síður í samkeppni sín á milli um lánsfjármögnun sem gæti leitt til hærri fjármögnunarkostnaðar heildarinnar. Húsnæðissjóður, Vaðlaheiðargöng, LÍN og Byggðastofnun eru meðal þeirra sem hafa notið slíkrar fjármögnunar frá ríkissjóði.
Endurlánum fylgir þó ákveðinn freistnivandi. Hann leiðir af því að lánveitingar eru ekki gjaldfærðar og koma þannig ekki fram í afkomu ríkissjóðs. Í stað þess að horfast í augu við vöxt útgjalda kunna stjórnvöld að leitast við að forðast verri afkomu með því að veita opinberum félögum, hverra afkoma er í besta falli háð óvissu, tiltekið hlutverk og endurlána til þeirra fremur en að stofna til útgjalda sem veikja afkomu ríkissjóðs. Þannig má t.a.m. uppfylla afkomureglur laga um opinber fjármál jafnvel þó undirliggjandi rekstur hins opinbera geri það í reynd ekki. Skuldareglur sömu laga ná hins vegar til endurlána og mynda þannig vörn gagnvart framangreindum freistnivanda. Það er mikilvægt því skuldsetningu sem af endurlánum leiðir getur fylgt veruleg áhætta og því þarf undirbúningur að vera vandaður og fjárhagsleg sjálfbærni verkefna metin áður en farið er í skuldbindandi ákvarðanir. Útlánakjör þurfa einnig að endurspegla markaðsvexti og áhættu verkefna.
Gert er ráð fyrir að endurlán úr ríkissjóði vaxi verulega á tímabili fjármálaáætlunarinnar. Útlit er fyrir að fjárhæð endurlána nemi 4,7% af VLF árið 2029, samanborið við 2,4% árið 2023. Vöxtur endurlána mun að óbreyttu auka lántökuþörf ríkissjóðs á næstu árum. Endurlán til Húsnæðissjóðs eru þar fyrirferðamest og í lok tímabils áætlunarinnar má gera ráð fyrir að þau verði um helmingur allra endurlána ríkissjóðs. Lán til Menntasjóðs munu einnig fara vaxandi en báðir þessir lánasjóðir eru í uppbyggingarfasa í takt við stefnu stjórnvalda í viðkomandi málaflokkum.
Lánsfjárjöfnuður lýsir hreinni fjármögnunarþörf ríkissjóðs og þörf á nýjum lántökum. Nánar er fjallað um lánsfjárjöfnuð í kafla 3.2 um skuldaþróun. Eins og sjá má á mynd hér að neðan hafa endurlán umtalsverð áhrif á lántökuþörf ríkissjóðs sem er veruleg á tímabili fjármálaáætlunar en gert er ráð fyrir að nýjar lántökur fari hæst í 84 ma.kr. (1,6% af VLF) árið 2026. Þá má benda á að inni í áætlunum fyrir árið 2025 er gert ráð fyrir sölu á helmingshlut ríkissjóðs í Íslandsbanka sem svarar til um 1% af VLF.
Eftir því sem umfang endurlána vex þarf afkoma ríkissjóðs að vera þeim mun betri til að uppfylla markmið stjórnvalda um ábyrga ríkisfjármálastefnu og hófleg skuldahlutföll. Samfélagslegur kostnaður halla á lánsfjárjöfnuði er mikill um þessar mundir. Kostnaðurinn leiðir hvoru tveggja af því að skuldsetning er afar dýr í núverandi umhverfi hárra vaxta og af því að frekari skuldsetning viðheldur háum vöxtum og verðbólgu sem um þessar mundir eru langt umfram það sem samrýmist efnahagslegum stöðugleika til lengdar.
Ábata af slíkum hallarekstri, þ.m.t. endurlánum, þarf að vega á móti þeim kostnaði sem af honum leiðir.