Kjarasamningar – að bættum vinnubrögðum, aukinni skilvirkni og efnahagslegum stöðugleika - Rammagrein 2
Í stjórnarsáttmála er sett markmið um bætt vinnubrögð og aukna skilvirkni við gerð kjarasamninga að höfðu samráði við aðila vinnumarkaðarins.
Í átt að bættu kjarasamningsferli að norrænni fyrirmynd
Lengi hefur verið vilji á meðal aðila vinnumarkaðarins til að bæta kjarasamningsferlið þannig að kjarasamningar styðji við efnahagslegan stöðugleika. Nokkur skref hafa verið stigin í þá átt undanfarin ár þó að ekki hafi náðst full samstaða þar um. Horft hefur verið til Norræna módelsins sem byggist á því að á Norðurlöndum ríkir almenn samstaða á vinnumarkaði um að útflutningsgreinar í alþjóðlegri samkeppni séu leiðandi í launamyndun og gerð kjarasamninga og skapi fordæmi fyrir aðra. Mikið er lagt upp úr undirbúningi fyrir kjarasamninga og efnahagslegar forsendur greindar sem og launatölfræði sem liggur til grundvallar mati á svigrúmi til launahækkana. Aðkoma stjórnvalda að kjarasamningum er mismunandi en alls staðar er hefð fyrir þríhliða samstarfi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins.
Salek-samkomulagið frá 2015 um sameiginlega launastefnu og grunn að nýju samningalíkani var tilraun til aukins samstarfs atvinnurekanda og heildarsamtaka launafólks á almenna og opinbera vinnumarkaðnum um endurskoðun á íslenska samningalíkaninu að norrænni fyrirmynd. BHM og KÍ stóðu þó utan samkomulagsins og var það ekki endurnýjað. Engu að síður gaf Salek-hópurinn út nokkur rit um bætta kjarasamningsgerð og efnahagslegar forsendur kjarasamninga. Þjóðhagsráð var síðan stofnað árið 2016 og hefur að markmiði að styrkja samhæfingu hagstjórnar og ákvarðana á vinnumarkaði með hliðsjón af efnahagslegum og félagslegum stöðugleika og áhrifum á loftslagsmál. Í því sitja formenn ríkisstjórnarflokkanna en ávallt forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra.
Með lífskjarasamningunum sem undirritaðir voru árið 2019 voru áfram stigin skref í átt að Norræna módelinu. Þá lögðu stjórnvöld til viðamiklar aðgerðir til að liðka fyrir samningum og stuðla að efnahagslegum stöðugleika. Einnig var heildarsamtökum á vinnumarkaði boðin aðild að Þjóðhagsráði og hlutverk þess útvíkkað til að styrkja samhæfingu hagstjórnar og ákvarðana á vinnumarkaði með hliðsjón af efnahagslegum og félagslegum stöðugleika. Sama ár stofnuðu aðilar vinnumarkaðarins Kjaratölfræðinefnd sem er samstarfsvettvangur um launatölfræði og efnahagsmál og ætlað að tryggja sameiginlegan skilning á þeim tölum sem mestu varða við gerð kjarasamninga.
Að auki settu opinberir launagreiðendur fram sameiginlega kjarastefnu ríkis og sveitarfélaga sem hefur að markmiði að hið opinbera sé samkeppnisfært á vinnumarkaði og stuðli þannig að hagkvæmni, árangri og góðri frammistöðu. Jafnræði ríki í launasetningu opinbers starfsfólks og gagnsæi um laun, önnur kjör og launaþróun. Svigrúm til launabreytinga verði ákvarðað af samkeppnisstöðu leiðandi atvinnugreina gagnvart helstu viðskiptalöndum.
Jafnvel þó lífskjarasamningarnir hafi fært kjarasamningagerð hér á landi í átt að Norræna módelinu þá náðist ekki samstaða allra aðila vinnumarkaðarins á þeirri vegferð. Hjá ríkinu, þar sem háskólamenntað starfsfólk er í miklum meirihluta, er samið í miðlægum kjarasamningi um almennar hækkanir á launatöflum og röðun starfsfólks í launaflokka, þ.e. hin eiginlega launaupphæð, ákvörðuð í stofnanasamningum. Krónutöluhækkanir hafa orðið til þess að launatöflur, sem byggjast á jöfnu bili á milli launaflokka og þrepa, skekkjast sem verður til þess að launahækkanir á grundvelli stofnanasamninga geta rýrnað að verðgildi. Því getur reynst snúið að yfirfæra hækkanir á almenna markaðnum þ.e. „merki markaðarins“ á launaumhverfi ríkisins. Þrátt fyrir þetta er ekki að sjá að háskólamenntaðir sérfræðingar hjá hinu opinbera hafi fengið minni kjarabætur en sambærilegir hópar á almennum markaði. Þá hefur launavísitala háskólamenntaðra sérfræðinga hjá hinu opinbera hækkað meira en sérfræðinga á almennum markaði.
Í aðdraganda samninga vorið 2024 höfðu samtök opinbers launafólks og opinberir launagreiðendur tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri áður en að gengið var frá fyrstu kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. Stjórnvöld komu einnig að þeim samningum með viðamiklar aðgerðir til að stuðla að bættum kaupmætti og lægri verðbólgu.
Stéttarfélagsaðild og fjöldi viðsemjenda
Eitt af því sem einkennir íslenskan vinnumarkað og sker hann úr gagnvart hinum Norðurlöndunum er há stéttarfélagsaðild og fjöldi viðsemjenda. Stéttarfélagsaðild íslensks launafólks er um 90%.
Á íslenskum vinnumarkaði eru fjögur stór heildarsamtök launafólks og fjöldi félaga sem standa utan heildarsamtaka. Hjá ríkinu eru þar stærstu félögin: Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og Læknafélag Íslands. Skurðlæknar eru með sér félag og standa einnig utan bandalaga.
Í samningalotu vorsins 2023 gerði samninganefnd ríkisins 53 kjarasamninga við um 90 félög og ein miðlunartillaga var samþykkt. Fjölmennasti hópur félagsfólks að baki eins samnings er um 4000 einstaklingar en einungis 3 einstaklingar í fámennasta hópnum. Um 60% stéttarfélaga sem gera kjarasamning við ríkið hafa færri en 200 einstaklinga að baki hvers samnings.
Mörg stéttarfélög hafa þó sameinast undanfarin ár eða myndað samflot við gerð kjarasamninga. Samninganefnd ríkisins, í samstarfi við aðra opinbera launagreiðendur, heldur áfram að leggja áherslu á að semja við heildarsamtök sé það mögulegt en virðir að sjálfsögðu samningsrétt hvers félags.
Nokkrar framfarir hafa átt sér stað í átt að skilvirkara ferli og bættum vinnubrögðum við gerð kjarasamninga. Má þar nefna samvinnu og samtal aðila í Þjóðhagsráði, Kjaratölfræðinefnd, samvinnu opinberra launagreiðenda og sameiginlega kjarastefnu. Kjarasamningsviðræður á almenna markaðnum vorið 2024 einkenndust af hógværum kröfum um launaliðinn til að stuðla að auknum kaupmætti launafólks og meiri samhljómi en áður um það sem væri til skiptanna. Er slíkt samtal og sátt um markmið samninga lykilatriði í árangursríkri kjarasamningsgerð.
Áfram mun samninganefnd ríkisins, fyrir hönd fjármála- og efnahagsráðherra, vinna í átt að bættum vinnubrögðum og skilvirkni við gerð kjarasamninga bæði við kjarasamningsborðið sem og á milli samninga og hafa verkefni þess efnis verið skilgreind í ársáætlun ráðherra.