Hoppa yfir valmynd

21 Háskólastig

Menningar- og viðskiptaráðuneytið
Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Umfang

Starfsemi á þessu málefnasviði heyrir undir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, utan Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum sem heyrir undir menningar- og viðskipta­ráðherra. Málefnasviðið skiptist í þrjá málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhags­legri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2022–2024.

Heildarútgjöld

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Framtíðarsýnin er að á Íslandi starfi háskólar sem eru samkeppnishæfir við háskóla í nágranna­löndum hvað varðar gæði kennslu, rannsóknavirkni og samfélagslega þátttöku. Háskólarnir eru vettvangur nýrrar þekkingar og lausna við samfélagslegum áskorunum, hvort sem er í þjóð­hagslegu eða hnattrænu samhengi. Þeir gegna mikilvægu hlutverki svo samfélagið geti mætt fyrirséðri öldrun þjóðarinnar, tryggt matvæla- og orkuöryggi, unnið gegn loftslagsbreytingum og eflt samkeppnishæfni þjóðarinnar. Þannig sporna þeir við sveiflukenndu efnahagslífi og beina atvinnulífi í þá átt að hugvitið verði stærsta útflutningsgreinin. Leiðarljósið í starfi há­skólanna er að efla gæði náms og rannsókna og tryggja að þaðan útskrifist einstaklingar sem fái störf við hæfi eða geti skapað sér áhugaverð tækifæri sem byggjast á þekkingu, hugviti og nýsköpun. Farsæld Íslands byggist á öflugu háskólastarfi.

Fjármögnun

Fjárframlög til háskóla aukast á tímabili áætlunarinnar, með það að markmiði að auka gæði og samkeppnishæfni háskólastarfs. Árið 2025 aukast framlög til reksturs háskólanna um 1,4 ma.kr. Framlög til reksturs háskóla halda áfram að hækka á árunum 2026–2029 og á síðasta ári áætlunarinnar hafa árleg framlög til reksturs aukist um samtals 2,8 ma.kr. frá árinu 2024. Með aukningunni á að gera háskólum kleift að sækja fram á grundvelli nýrrar Árangurs­tengdrar fjármögnunar, fjölga nemendum og auka færni í samræmi við þróun samfélagsins. Unnið verður að því að bæta aðstöðu til kennslu og rannsókna í heilbrigðisvísindum og STEM-greinum og áfram unnið að auknu samstarfi og sameiningum háskóla.

Framlög verða líka aukin til að bæta húsnæðisaðstöðu háskóla. Hús heilbrigðisvísindasviðs HÍ á Landspítalalóð verður reist á tímabili áætlunarinnar og framkvæmdir eru að fullu fjár­magnaðar af Happdrætti Háskóla Íslands. Framkvæmdir við nýtt húsnæði Listaháskóla Íslands (LHÍ) í Tollhúsinu hefjast, líkt og kveðið er á um í stjórnarsáttmála. Í samræmi við heimildir í 5. gr. fjárlaga mun ríkissjóður fjármagna framkvæmdir vegna endurbyggðs Tollhúss undir starfsemi LHÍ með láni til fasteignafélags Háskóla Íslands. Gert er ráð fyrir að bygging Jarð­ræktarmiðstöðvar á Hvanneyri hefjist árið 2025. Jafnframt er gert ráð fyrir að nýtt færni- og hermisetur rísi við háskólann á Akureyri sem nýtist m.a. til að fjölga nemendum í hjúkrunar­fræði.

Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.

Útgjaldarammi

Helstu áherslur 2025–2029

Nemendur búnir undir tækifæri þekkingarsamfélagsins

21.1 Háskólar og rannsóknastarfsemi

Verkefni

Opinberir jafnt sem einkareknir háskólar eru sjálfstæðar mennta- og rannsóknastofnanir sem sinna kennslu, rannsóknum, varðveislu og miðlun þekkingar, þekkingarleit og sköpun á sviðum vísinda, fræða, tækniþróunar og lista. Sjá nánar á bls. 345 í fjármálaáætlun 2023–2027.

Helstu áskoranir

Háskólar og rannsóknastofnanir gegna meginhlutverki í að ná fram áherslum stjórnvalda í gildandi stjórnarsáttmála, ekki einungis í mennta- og vísindamálum, heldur einnig til að takast á við samfélagslegar áskoranir sem Ísland stendur frammi fyrir, s.s. á sviði loftslagsmála og náttúruvár eða vegna stafrænnar umbyltingar og öldrunar þjóðarinnar.

Ein helsta áskorunin sem háskólar standa frammi fyrir er sú að viðhalda samkeppnishæfni og auka gæði náms og rannsókna. Það er nauðsynlegt svo hægt sé að bæta stöðu íslenskra háskóla á alþjóðlegum samanburðarlistum en þar hefur staða þeirra farið versnandi. Hér á landi eru sjö starfandi háskólar og talsverðar áskoranir tengjast því að bjóða upp á nám samkvæmt alþjóðlegum gæðastöðlum í litlum háskólum með takmarkað fjármagn. Leggja þarf áherslu á aukið samstarf milli háskóla, hvort sem er á sviði kennslu, rannsókna eða umsýslu, og vinna að sameiningum háskóla eftir því sem við á, í því skyni að efla samkeppnishæfni skólanna í alþjóðlegum samanburði. Sjálfstætt starfandi háskólar gegna mikilvægu hlutverki í háskóla­starfi hér á landi, s.s. í tæknigreinum, listgreinum og fjarnámi, en um 26% ársnema við íslenska háskóla stunda þar nám. Mikilvægt er að opinber fjármögnun háskóla mismuni ekki nemendum eftir rekstrarformi háskólanna, ekki síst í þeim greinum sem eingöngu eru kenndar við sjálfstætt starfandi skóla.

Mikilvægt er að opinber fjármögnun háskólastigsins feli í sér hvatningu til aukinna gæða í kennslu og árangurs í námi. Einnig er mikilvægt að opinber fjármögnun veiti umbun fyrir rannsóknarstarf og samfélagslega þátttöku, ekki síst gagnvart þeim hópum sem minna mega sín í samfélaginu. Mikilvægt er að fjárveitingar styðji við allar fræðigreinar, jafnt náttúruvísindi sem félags- og hugvísindi, til þess að stuðla að uppbyggingu þekkingar á náttúru, umhverfi og samfélagi og gagnkvæmum áhrifum þar á milli. Sérstaka áherslu þarf að leggja á greinar sem stuðla að aukinni sjálfbærni, t.d. hvað varðar heilbrigðisþjónustu, menntun, STEM-greinar, matvælaframleiðslu og umhverfisvernd, í samræmi við velsældaráherslu ríkisstjórnarinnar. Hæfni og færni menntaðs vinnuafls þarf að haldast í hendur við síkvikan vinnumarkað, ekki síst þegar horft er til samanburðarþjóða, og háskólarnir þurfa að geta boðið upp á fjölbreytt framboð náms til starfsþróunar. Á tímum tækniframfara og breyttra starfshátta er nauðsynlegt að sérfræðimenntað fólk geti lagað færni sína og þekkingu að nýjum veruleika, samfélaginu öllu til heilla.

Græn og stafræn bylting krefst hæfni og kunnáttu sem mikil eftirspurn er eftir um alla álfuna. Íslenskt atvinnulíf stendur því frammi fyrir harðri samkeppni um hæfa sérfræðinga, ekki síst í STEM-greinum. Miðað við aðsókn í þessar greinar í gegnum tíðina og frammistöðu íslenskra ungmenna í STEM-greinum, t.a.m. í PISA-prófunum, þarf að gefa verulega í og þurfa háskólarnir að koma þar að. Ekki einungis er nauðsynlegt að fjölga nemendum nú þegar á háskólastiginu, heldur þurfa fagsvið að styðja og efla hæfni kennara á öllum skólastigum til að kenna STEM-greinar, menntavísindi og heilbrigðisgreinar, svo dæmi séu nefnd.

Starfsumhverfi, þar á meðal húsakostur, og rannsóknainnviðir háskólastarfsins þurfa að vera þess eðlis að mögulegt sé að byggja upp og þróa metnaðarfullar námsleiðir, s.s. á sviði landbúnaðar og matvælaframleiðslu og tryggja þarf aðstöðu til að mæta sívaxandi þörf fyrir kennslu í heilbrigðisvísindum. Þörf er á aukinni uppbyggingu rannsóknainnviða hér á landi á sama tíma og þess sé gætt að nýta vel þá alþjóðlegu innviði sem Ísland hefur aðgang að. Marka þarf stefnu um opin og ábyrg vísindi til að tryggja aðgengi sem flestra að þeim gögnum sem til verða fyrir opinbert fé og niðurstöður rannsókna skili sér sem best til samfélagsins en þess þó jafnframt gætt að aðgengi að viðkvæmum gögnum sé verndað og rannsóknir séu í samræmi við vandaða starfshætti í vísindum.

Tryggja þarf sem best jafnrétti mismunandi samfélagshópa og vinna að velsældaráherslu ríkisstjórnarinnar um virkni í námi og starfi og velsæld borgaranna. Jafna þarf aðstöðumun landsbyggðarinnar til háskólanáms með aukinni áherslu á fjarnám og gæði þess. Vísbendingar eru um að nemendur með erlendan bakgrunn skili sér síður í háskóla en aðrir og því þarf að leggja áherslu á að hvetja fólk í öllum samfélagshópum til háskólanáms og vekja athygli á þeim tækifærum sem felast í aukinni menntun.

Líta þarf sérstaklega til mismunandi stöðu kynja innan háskólasamfélagsins, annars vegar hvað varðar nemendur og hins vegar hvað varðar akademíska starfsmenn. Í þessu samhengi má líta til heimsmarkmiðs Sameinuðu þjóðanna 4.5 um að afnema kynjamismunun í menntakerfinu. Af nemendum háskólanna hér á landi eru um 34% karlar en 66% konur. Aðeins um 29% karlmanna á aldrinum 25–34 ára hafa lokið háskólaprófi hér á landi og er þetta hlutfall mun lægra en á öðrum Norðurlöndum og lægra en meðaltal OECD-ríkja sem er 41%. Hér eru því tækifæri til umbóta hvað varðar fjölgun háskólanema. Hvað varðar akademíska starfsmenn háskóla eru konur í meiri hluta stunda­kennara en þau störf fela í sér ótryggara starfsumhverfi og lakari kjör en gerist meðal fastráðinna starfsmanna. Hlutfall kvenna lækkar eftir því sem ofar dregur í framgangskerfi háskólanna.

Í alþjóðlegu umhverfi menntunar og rannsókna er nauðsynlegt að grunngildi háskólastarfs, s.s. akademískt frelsi og sjálfstæði stofnana, verði höfð að leiðarljósi og að tryggt verði að samstarf við erlenda aðila samræmist þeim kröfum sem gerðar eru til vísindamanna hérlendis. Þetta á einnig við um opin og ábyrg vísindi og vandaða starfshætti í vísindum þar sem mikil­vægt er að fylgja alþjóðlegum viðmiðum.

Sjá nánar í umfjöllun á bls. 345–348 í fjármálaáætlun 2023–2027.

Tækifæri til umbóta

Unnið verður að því að styrkja og efla íslenska háskóla, ekki aðeins til þess að færa háskóla­stigið nær því sem þekkist á Norðurlöndum, heldur jafnframt og ekki síður til að leggja grunn að auknum lífsgæðum á Íslandi. Áhersla verður lögð á innleiðingu nýrrar Árangurstengdrar fjármögnunar, aukið samstarf og sameiningar háskóla, stórbætta aðstöðu til kennslu og rann­sókna í heilbrigðisvísindum og STEM-greinum, fjölgun nemenda og eflingu færni og þekk­ingar í samræmi við þróun samfélagsins. 

Nýtt fjármögnunarlíkan, sem kynnt hefur verið undir heitinu Árangurstengd fjármögnun háskólastigsins, er fyrsta róttæka kerfisbreytingin á fjármögnun háskóla frá því núverandi reglur nr. 646/1999 tóku gildi. Hið nýja fjármögnunarlíkan er til þess fallið að skýra og efla þríþætt hlutverk háskóla, þ.e. á sviði kennslu, rannsókna og samfélagslegrar virkni, og auka gagnsæi og fyrirsjáanleika fjárveitinga. Í nýrri fjármögnun birtast nýir hvatar til aukinna gæða og skilvirkni í kennslu, auk rannsóknalíkans sem umbunar fyrir árangur af erlendri styrkjasókn, gæði birtinga og brautskráningu doktorsnema. Er þetta í fyrsta sinn sem fjárveitingar munu að hluta ráðast af árangri á sviði rannsókna. Mikilvægt er að innleiðing líkansins takist vel og að samhliða nýju fyrirkomulagi fari fram gagnasöfnun og greining á því hvaða áhrif breytingarnar hafa á háskóla, nemendur og samfélag. Einnig er mikilvægt að séð verði fyrir fjármögnun þess ásamt nauðsynlegu svigrúmi við upptöku þess og aðlögun háskóla að nýjum og breyttum forsendum.

Í árangurstengdri fjármögnun háskóla er hvatt til sóknar í STEM-greinum en sú hvatning samræmist áherslu í stjórnarsáttmála um að búa íslenskt samfélag undir aukna tæknivæðingu, fjölga fólki með tækni- og raungreinamenntun og auka samkeppnishæfni með því að hlúa að skapandi hugsun, þekkingu og vísindum og auka þverfaglegt samstarf ólíkra greina. Mikilvægt er að nýta aðferðir lista og skapandi greina í sókninni þó að markmiðið sé að fjölga útskrifuðum í STEM-greinum á háskólastigi eins og mælikvarði í töflunni hér fyrir neðan ber með sér.

Í anda þeirrar hugmyndafræði að fé skuli fylgja nemanda að fullu og að hið opinbera mis­muni ekki nemendum eftir rekstrarformi háskóla hefur sjálfstætt starfandi háskólum verið boðið að afnema skólagjöld gegn óskertu fjárframlagi frá ríkinu. Vorið 2024 þáðu Listaháskóli Íslands og Háskólinn á Bifröst boðið og munu fella niður skólagjöld frá og með haustönn 2024. Unnið verður að áframhaldandi útfærslu og innleiðingu hins nýja fyrirkomulags.

Samstarf háskóla var sett á fót árið 2022 með það að markmiði að efla háskólastigið, auka gæði náms og hvetja háskólana til aukins samstarfs. Markmiðið er að efnt sé með gagnsæjum hætti til samkeppni um umbóta-, samstarfs- eða sameiningarverkefni en verkefnið er fjár­magnað af safnlið háskólastigsins. Þess er vænst að háskólarnir sýni frumkvæði í greiningu á samstarfs- og sameiningarmöguleikum sín á milli og sjálfstæði í vali verkefna sem styðja við rannsóknir, nýsköpun og framfarir á háskólastigi. Sérstök áhersla er lögð á stuðning við sameiningar háskóla í samræmi við áherslur ríkisstjórnarinnar um eflingu háskólastarfs og einföldun stofnanakerfisins. Fjármagni verður varið til fyrirhugaðra sameininga Háskólans á Akureyri (HA) og Háskólans á Bifröst sem og Háskóla Íslands (HÍ) og Háskólans á Hólum.

Fjölga á leiðum til náms á háskólastigi fyrir einstaklinga sem hafa farið óhefðbundnar leiðir í námi og starfi en búa yfir nægilega traustum undirbúningi fyrir háskólanám í samræmi við velsældaráherslu ríkisstjórnarinnar um virkni í námi og starfi. Í því skyni er unnið að þróun raunfærnimats til styttingar háskólanáms, m.a. með það fyrir augum að auka sýnileika og meta að verðleikum þá hæfni og þekkingu sem fólk hefur aflað sér í starfi á ýmsum vettvangi. Fjórir háskólar vinna nú sameiginlega að því að móta staðlað ferli raunfærnimats sem mun nýtast öllum háskólum landsins og nýta til þess þá reynslu sem til staðar er innan lands og utan. Einnig er unnið að innleiðingu örnáms (e. micro-credentials) í íslenska háskóla sem mun auka aðgengi fólks að símenntun/starfsþróun á háskólastigi sem og áframhaldandi þróun fagháskólanáms sem getur brúað bilið milli starfsnáms á framhaldsskólastigi og náms til viðurkenndrar háskóla­gráðu. Hugað verður að jafnrétti í sem víðustum skilningi í íslensku háskólasamfélagi. Þetta á m.a. við um aukna sókn karla í nám sem hingað til hefur höfðað mest til kvenna, t.d. mennta­vísindi og heilbrigðisvísindi. Þá verður leitað leiða til að auka hlut kvenna meðal prófessora í háskólum.

Unnið verður að mótun og innleiðingu stefnu um opin og ábyrg vísindi á tímabilinu með það að markmiði að styrkja gæði vísindastarfs, inngildingu og jafnræði meðal vísindafólks ásamt því að auka samfélagslegan ávinning af rannsóknum.

Mikilvægt er að vísinda- og rannsóknarstarf skili sér í þverfaglegu þekkingarsamfélagi með bættu aðgengi að þekkingu og færni, virðisaukandi nýsköpun, nýjum og verðmætum fyrir­tækjum, hugverkaréttindum, fjölbreyttara atvinnulífi og öflugu samspili háskóla og atvinnulífs.

Sjá nánar í umfjöllun á bls. 345–348 í fjármálaáætlun 2023–2027.

Áhættuþættir

Helstu áhættuþættir í starfsemi háskólastigsins lúta að nauðsynlegri uppbyggingu svo tryggja megi gæði náms og rannsókna. Ef ekki tekst að halda í við þau lönd, sem við kjósum að bera okkur saman við, eykst hættan á því að samkeppnishæfni íslenskra háskóla minnki, nemendur og starfsfólk leiti á önnur mið og nemendur í námi erlendis komi ekki aftur heim til Íslands að námi loknu. Ef nauðsynleg nýliðun starfsfólks í háskóla næst ekki getur það valdið auknu álagi á það starfsfólk sem fyrir er, rýrt tækifæri þess til að þróa sig í starfi, hvort sem er í kennslu eða rannsóknum og haft neikvæð áhrif á innleiðingu nýrra hugmynda, tækni og alþjóðlegt starf í háskólunum. Þá er hætta á að ekki verði mögulegt að fjárfesta í rannsókna­innviðum með slæmum afleiðingum fyrir nýsköpun, rannsóknir og vísindastarf í landinu.

Markmið og mælikvarðar

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2023

Viðmið 2025

Viðmið 2029

Aukið samstarf háskóla í þágu gæða og samfélags.

4.4 4.c.

1. Fjöldi sameiginlegra námsleiða innlendra háskóla.

3

10

20

4.3

2. Fjöldi nemenda sem fara í háskólanám á grundvelli raunfærnimats.

34

50

120

4.3

3. Hlutfall brautskráðra úr háskólum í STEM-greinum.

a) Öll kyn

b) kk.

c) kvk.

 

a) 17%

b) 31%

c) 10%

 

a) 18%

b) 32%

c) 12%

 

a) 22%

b) 35%

c) 15%

 

4. Hlutfall brautskráðra úr háskólum í heilbrigðis­vísindum.

a) Öll kyn

b) kk.

c) kvk.

 

 

a) 17%

b) 8%

c) 21%

 

 

a) 18%

b) 10%

c) 22%

 

 

a) 20%

b) 12%

c) 23%

Aukin gæði náms og námsumhverfis.

16.6

5. Hlutfall akademískra starfsmanna undir 40 ára (fastráðnir starfsmenn).

17%

18%

21%

16.6

6. Fjöldi íslenskra skiptinema erlendis og erlendra gráðu­nema við íslenska háskóla.

377/

1879

430/

2000

480/

2300

 

7. Hlutfall karlkyns nemenda í háskólanámi.

34%

38%

>40%

Styrkja rannsóknarstarf og umgjörð þess.

16.6

8. Ritrýndar birtingar háskóla (þriggja ára meðaltal)/þar af í opnum aðgangi.

1626/

72%

2000/

75%

2400/

85%

16.6

9. Fjöldi og heildarupphæð alþjóðlegra samstarfsverkefna í háskólum (úr Samstarfs­áætlun ESB).

9/

7,3 m.€

15/
10 m.€

20/
15 m.€

16.6

10. Hlutfall kvenna meðal prófessora.

36%

38%

42%

           

1 Framvinda samstarfsverkefna háskólanna.
2 Framvinda samstarfsverkefna háskólanna
3 og 4 Upplýsingar frá Hagstofu Íslands.
5 Upplýsingar frá öllum háskólum.
6 Upplýsingar frá Landsskrifstofu Erasmus+ og alþjóðaskrifstofum háskólanna. Leiðrétt frá síðustu fjármálaáætlun. Tölurnar þá áttu við um erlenda skiptinema við íslenska háskóla.
7 Upplýsingar frá Hagstofu Íslands hagstofa.is/talnaefni/samfelag/menntun/haskolastig/ skólaárið 2021–2022.
8 scopus.com/sources.uri Undir málefnasviði 7 er einnig mælikvarði um fjölda birtinga í opnum aðgangi.
9 cordis.europa.eu
10 Upplýsingar frá öllum háskólum.
 

21.3 Stuðningur við námsmenn

Verkefni

Málaflokkurinn tekur til Menntasjóðs námsmanna. Meginhlutverk sjóðsins er að veita námsmönnum fjárhagslegan stuðning og tryggja þeim tækifæri til náms hérlendis og erlendis án tillits til efnahags. Mikilvægt er að námsmenn haldi áfram að sækja sér menntun utan land­steinanna til að auka fjölbreytni í námi og efla alþjóðleg tengsl íslensks samfélags.

Menntasjóður námsmanna styður markvisst við áherslur stjórnvalda um að efla atvinnulíf samhliða menntun og breyttum þörfum samfélagsins. Hann er auk þess tæki til að gera sem flestum fært að mennta sig og stuðla að faglegri þróun fólks á vinnumarkaði um allt land.

Helstu áskoranir

Tryggja þarf að sjóðurinn sinni grundvallarmarkmiði sínu sem er að tryggja jafnrétti til náms og að framkvæmd nýrra laga um Menntasjóð námsmanna, nr. 60/2020, styðji við það samfélagslega hlutverk sjóðsins. Framkvæmdina þarf að skoða t.d. í samhengi við fækkun lán­þega á síðustu árum, skerðingu námslána vegna tekna og hækkunar á framfærslu námsmanna vegna hærri vaxta- og húsnæðiskostnaðar.

Tækifæri til umbóta

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur skilað Alþingi skýrslu um sjóðinn þar sem fram kemur að lögin þarfnist bæði heildarendurskoðunar og minni breytinga sem geti verið komnar til framkvæmda á árinu 2025. Unnið er að breytingum sem koma til móts við lánþega vegna áhrifa sem skyndileg eða ófyrirséð hækkun verðbólgu og vaxta getur haft á afborganir námslána, hafa áhrif á skilyrði fyrir veitingu námsstyrkja og varðandi ábyrgðarmannakerfið. Að auki verður horft til breytinga á úthlutunarreglum sjóðsins til að mæta ábendingum í nýrri skýrslu um sjóðinn.1

Markmið og mælikvarðar

Markmið Menntasjóðs námsmanna eru:

  1. Að tryggja námsmönnum sem falla undir lögin tækifæri til náms, án tillits til efnahags, með því að veita námsmönnum fjárhagslega aðstoð til náms á Íslandi og erlendis í formi náms­lána og styrkja.
  2. Jöfn og gagnsæ dreifing á framlagi ríkisins til nemenda og bætt námsframvinda nemenda í háskólum. Bætt námsframvinda dregur úr skuldsetningu nemenda og stuðlar að bættri nýt­ingu fjármuna í menntakerfinu og aukinni skilvirkni.
  3. Að styðja við öflugt menntakerfi sem er forsenda framfara. Mikilvægt er að Menntasjóður námsmanna geti stutt við þær áherslur stjórnvalda að draga úr skorti á ákveðnum starfs­stéttum á borð við kennara og heilbrigðisstarfsfólk og efla list-, tækni-, verk- og starfsnám til að bregðast við breyttum atvinnuháttum. 

Sjá nánar í fjármálaáætlun 2023–2027 bls. 349–350.

21.4 Stjórnsýsla háskóla, iðnaðar og nýsköpunar

Verkefni

Meðal helstu viðfangsefna ráðuneytis háskóla, iðnaðar og nýsköpunar eru endurskoðun reglna um fjármál háskóla, endurskoðun á umhverfi samkeppnissjóða og fjármögnun nýsköpunar, uppbygging rannsóknainnviða, efling staf­rænnar væðingar og netöryggis, ljós­tenging landsins o.fl. Markmið málaflokka ráðuneytisins styðja a.m.k. við þrjár velsældar­áherslur ríkisstjórnarinnar, um grósku í nýsköpun, bætt samskipti við almenning og virkni í námi og starfi. Ráðherra fer með yfirstjórn þeirra stjórnvalda sem undir hann heyra og hefur eftirlit með starfrækslu, fjárreiðum og eignum á vegum þeirra.

Helstu áskoranir og tækifæri til umbóta

Uppbygging nýs ráðuneytis. Þegar gildandi fjármálaáætlun var gefin út var ráðuneytið rúmlega eins árs gamalt og ljóst að það tæki tíma að koma nýju ráðuneyti á fót. Á tveggja ára starfstíma ráðuneytisins hefur stefna ráðherra í málaflokknum verið sett fram og unnið hefur verið að forgangsmálum með breyttu vinnulagi og í skipuriti sem styður við það vinnulag. Breytingar á markmiðum og mælikvörðum í nýrri fjármálaáætlun endurspegla þessar breyttu áherslur ráðuneytisins. Markmiðið er að horfa stöðugt til þess hvernig unnt er að gera hlutina betur en áður, hvernig hægt er að innleiða nýjungar og gera þannig bæði einstaklingum og fyrirtækjum kleift að bæta hag sinn og framtíðarhorfur. Ráðuneytið heldur áfram að styðja við umhverfi vísinda og nýsköpunar þar sem sköpunarkraftur fólks fær að njóta sín, dafna og vaxa í opnu og frjálsu samfélagi sem byggist á hugviti, nýsköpun og aukinni samkeppnishæfni.

Hugvitið stærsta útflutningsgreinin. Verkefni ráðuneytisins miða að því að gera hugvitið að stærstu útflutningsgrein þjóðarinnar. Slíkt kallar á hæfan mannafla og fjölbreytni í atvinnu­lífinu, s.s. með auknum tækifærum fyrir erlenda sérfræðinga til að koma hingað til lands og setjast hér að. Öll vinna í málaflokkum ráðuneytisins miðar að því að styrkja samkeppnisstöðu Íslands. Virkja þarf tækifærin, nýta þekkingu og ryðja braut nýsköpunar og iðnaðar á öllum sviðum samfélagsins. Ráðuneytið hyggst því styrkja enn frekar undirstöður rannsókna, vísinda og nýsköpunar í landinu svo að samfélagið verði betur í stakk búið til að takast á við áskoranir framtíðarinnar.

https://www.althingi.is/altext/pdf/154/fylgiskjol/s0765-f_I.pdf

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta