Hoppa yfir valmynd
28. júní 2024 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fundargerð fjármálastöðugleikaráðs 10. júní 2024

Fundur haldinn í fjármála- og efnahagsráðuneyti.
Ráðsmenn: Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, formaður, og Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri.

Aðrir fundarmenn: Arnór Sighvatsson, settur varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, Björk Sigurgísladóttir, varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits, Haukur C. Benediktsson, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabankans, Flóki Halldórsson forstöðumaður skrifstofu skilavalds Seðlabankans, Rósa Björk Sveinsdóttir, hagfræðingur á skrifstofu bankastjóra í Seðlabankanum, Hermann Sæmundsson, ráðuneytisstjóri í fjármála- og efnahagsráðuneyti, Guðrún Þorleifsdóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu fjármálamarkaðar í fjármála- og efnahagsráðuneyti, Sigurður Páll Ólafsson, staðgengill skrifstofustjóra á skrifstofu efnahagsmála í fjármála- og efnahagsráðuneyti, Ingveldur Sæmundsdóttir, aðstoðarmaður fjármála- og efnahagsráðherra og Sigríður Rafnar Pétursdóttir, ritari fjármálastöðugleikaráðs.

Fundur hófst kl. 15:30.

1. Helstu áhættuþættir í fjármálakerfinu og hagkerfinu
Seðlabankinn fór yfir helstu áhættuþætti í fjármála- og hagkerfinu. Fjármálakerfið hér á landi stendur traustum fótum. Hækkandi raunvextir og vaxandi greiðslubyrði lánþega hægja þó á innlenda hagkerfinu. Fjármagnskostnaður þrengir að rekstrarumhverfi fyrirtækja og hægt hefur á vexti ferðaþjónustu. Umsvif á íbúðamarkaði hafa aukist, meðal annars í kjölfar atburðanna á Reykjanesskaga. Á húsnæðismarkaði eru verðtryggð íbúðalán ráðandi í fjármögnun. Eiginfjárstaða heimila hefur styrkst, en greiðslubyrði þyngst. Töluverð fjárhæð íbúðalána með tímabundið fasta vexti nálgast vaxtaendurskoðun. Heimili hafa nýtt sér ýmis úrræði til að minnka greiðslubyrði lána, m.a. endurfjármögnun óverðtryggðra lána með verðtryggðum lánum. Vanskil eru lítil. Seðlabankinn greinir merki um jákvæða þróun útlánagæða íbúðalána og lánstími nýrra íbúðalána er að styttast. Íbúðaverð mælist þó enn hátt á flesta mælikvarða og hlutfall íbúða sem selst undir ásettu verði lækkar. Mikill fjöldi íbúða er í byggingu. Skuldahlutföll einkageirans eru lág í sögulegu samhengi. Byggingageiri og fasteignafélög leiða skuldavöxt og hlutdeild verðtryggingar í fyrirtækjaskuldum eykst, líkt og á íbúðamarkaði. Vísitala raunverðs atvinnuhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu lækkaði á fyrsta ársfjórðungi 2024. Fjöldi ferðamanna hefur aukist á fyrstu mánuðum ársins, en gistinóttum fækkar. Eiginfjár- og lausafjárstaða kerfislega mikilvægu bankanna er sterk og aðgengi að lánsfjármörkuðum greitt. Bregðast þarf við aukinni rekstraráhættu fjármálafyrirtækja. Gjaldeyrisforðinn hefur stækkað.

Sérstaklega var fjallað um þróun innstæðna og innstæðutrygginga. Eignir innstæðudeildar Tryggingarsjóðs vegna fjármálafyrirtækja námu um síðastliðin áramót 1,5% af tryggðum innstæðum. Lágmarksviðmið laga nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingarkerfi fyrir fjárfesta, er 0,8% og sjóðurinn því vel fjármagnaður miðað við sambærilega sjóði í Evrópu.

2. Viðbúnaðar- og innviðamál
Seðlabankinn kynnti stöðu vinnu við miðlægan innvið fyrir greiðslubeiðnir, sem áformað er að verði í eigu og rekstri Seðlabankans. Tilgangur hans er að auka viðnámsþrótt í smágreiðslumiðlun hér á landi. Gert er ráð fyrir að innviðurinn nýtist fyrir greiðslur til söluaðila vöru og þjónustu og milli einstaklinga. Söluaðilar geti tengst honum í gegnum þjónustuveitendur sína (færsluhirða, banka og greiðsluvirkjendur), einstaklingar geti framkvæmt greiðslur í gegnum innviðinn með smáforritum banka, söluaðila eða greiðsluvirkjenda. Undirbúningur skemareglna, tæknilegrar högunar og öryggismála er langt kominn og í samráði við innlánsstofnanir, en byggt er á alþjóðlegum og evrópskum stöðlum. Vinna við mat á fjárfestingar- og rekstrarkostnaði mun hefjast á komandi vikum en það er ein af forsendum þess að unnt sé að framkvæma samkeppnismat samkvæmt samkeppnislögum. Stefnt er að því að taka nýja innviðinn í notkun á árinu 2025.

Seðlabankinn kynnti einnig fyrirhugaða þátttöku í viðlagaæfingu sem áætlað er að fari fram síðar í ár, en samkvæmt viljayfirlýsingu um samvinnu Norðurlanda og Eystrasaltsríkja á sviði fjármálastöðugleika skal slík æfing haldin á fimm ára fresti, en hún var síðast haldin árið 2019. Megintilgangur æfingarinnar er að prófa samskipti/boðleiðir og láta reyna á upplýsingamiðlun milli viðeigandi yfirvalda í krísu og við skilameðferð.

3. Önnur mál
Áformuð er fimmta úttekt FATF um aðgerðir gegn peningaþvætti, fjármögnun hryðjuverka o.fl. árið 2025. Seðlabankinn og fjármála- og efnahagsráðuneyti eru einhuga um góðan og tímanlegan undirbúning fyrir úttektina, ásamt dómsmálaráðuneyti sem málefnasviðið heyrir formlega undir.

Skilavald Seðlabankans hefur ekki tekið neinar ákvarðanir frá síðasta fundi ráðsins.
Drög að fréttatilkynningu voru samþykkt með breytingum.

Fundi slitið um kl. 16:30.

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, formaður fjármálastöðugleikaráðs


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta