Letur
Aðalletur Stjórnarráðs Íslands er FiraGo frá BboxType. Letrið er notað í fyrirsagnir, titla og meginmál.
- Í meginmáli er grunnreglan að nota „Book“ útgáfu letursins.
- Í fyrirsögnum skal, eftir því sem við á, nota útgáfurnar „Light“ og „Semi-Bold“, ýmist báðar í sömu fyrirsögn eða einar og sér.
Á vef Stjórnarráðsins er letrið Fira Sans notað.
Um letrið
Aðalletur ráðuneytisins er FiraGo, hannað af Ralph du Carrois, m.a. í samstarfi við Erik Spiekermann og síðan þróað áfram af fjölda hönnuða.
Letrið hentar bæði vel fyrir skjá- og prentmiðla. Það er auðlæsilegt, hlýlegt, er ekki of formlegt og aðgengilegt öllum undir SIL Open Font License. FiraGo býr yfir fjölda stafrófa, s.s. latnesku, grísku, kyrillísku, arabísku og tælensku. Það styður 59 tungumál og fjölbreytt úrval tákna af öllum gerðum. Listi yfir tungumál sem letrið styður.
Uppsetning leturs
Letrið er uppsett á öllum vinnutölvum Stjórnarráðsins. Þurfi að setja það upp á tölvu þá má nálgast letrið á github.com.
Fráviksletur
Alltaf skal setja upp FiraGo letrið í tölvum sem notaðar eru við vinnslu á efni fyrir Stjórnarráðið. Letrið kostar ekkert, er einfalt í uppsetningu og styður við samræmt heildarútlit á öllu efni frá Stjórnarráðinu.
Þegar FiraGo er ekki í boði skal nota fráviksletur. Hér er listi yfir letur og fráviksletur, í réttri forgangsröð.
- FiraGo
- Fira Sans
- Helvetica
- Arial
Athugið að þegar fráviksletur eru notuð getur uppsetning texta riðlast þar sem sniðmát eru sett upp og hönnuð út frá FiraGo.
Ritað efni
Þess skal gætt að allur texti frá Stjórnarráðinu sé á góðri íslensku, án óþarfa málalenginga, skýr og á mannamáli. Hægt er að notast við malid.is og snara.is.
- Fyrir ensku: dictionary.cambridge.org
- Fyrir dönsku: ordnet.dk
- Fyrir frönsku: cnrtl.fr
Uppsetning
Við uppsetningu efnis er mikilvægt að læsileiki og vandaður frágangur séu höfð í huga.
Texti skal vera jafnaður við vinstri spássíu. Sé texti jafnaður er hætt við að óeðlilega stór bil myndist milli orða sem dregur úr læsileika.
Fyrirsagnir
- Fyrirsagnir skulu vera hnitmiðaðar, lýsandi og áberandi á forsíðum.
- Fyrirsögn getur bæði verið í FiraGo light og FiraGo semi-bold.
- Hægt er að nýta semi-bold til að draga fram einstök orð í fyrirsögninni til áherslu.
- Hægt er að nota mismunandi útgáfur af letrinutil að aðgreina aðal- og undirfyrirsögn.
- Fyrirsagnir á forsíðum skulu sitja í sjónrænni línu við skjaldarmerkið (sjá dæmi hér fyrir neðan).
- Miðað skal við að fyrsta lína fyrirsagnar sitji í línu við merkið (sjá dæmi hér fyrir neðan).
Hönnunarstaðall Stjórnarráðsins
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.