Hoppa yfir valmynd
7. mars 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Átak gegn verslun með konur

Góðir ráðstefnugestir.

Ég vil byrja á að bjóða ykkur öll velkomin á þessa ráðstefnu sem er liður í átakinu gegn verslun með konur.

Á undanförnum árum hefur verið mikil umræða í alþjóðasamfélaginu um mansal og verslun með konur. Menn hafa smám saman áttað sig á því hversu útbreitt vandamál verslun með fólk er og þá einkum með konur og börn. Sameinuðu þjóðirnar áætla að árlega sæti yfir 4 milljónir manna mansali og að ágóðinn af þessari starfsemi sé yfir 5-7 milljarðar bandaríkjadala, eða næst á eftir ólöglegri fíkniefna- eða vopnasölu heimsins. Hér er um að ræða alþjóðlega og skipulagða glæpastarfsemi sem virðir engin landamæri og hefur vandamálið teygt sig til Norðurlandanna líkt og annarra landa heimsins.

Á Norðurlöndunum var það Margareta Wiberg, sænski jafnréttisráðherrann, sem átti frumkvæðið að átaki gegn verslun með konur, en hún lagði fram tillögu um sameiginlega baráttu á fundi ráðherra jafnréttismála frá Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum á ráðstefnunni Konur og Lýðræði sem haldin var 15. júní 2001 í Vilnius í Litháen. Var þessari tillögu mjög vel tekið og ákváðu dómsmálaráðherrar sömu ríkja að leggja þessu átaki lið. Í kjölfarið var stofnaður vinnuhópur sem í áttu sæti tveir fulltrúar frá dómsmála-og jafnréttismálaráðuneytum hvers lands. Einnig var ráðinn yfirverkefnisstjóri yfir átaki landanna sem er Gunilla Ekberg sem er lögfræðingur og félagsfræðingur að mennt. Hún er fyrirlesari hér á ráðstefnunni í dag.

Hinn 29. maí 2002 var síðan sameiginlegu átaki landanna hleypt af stokkunum með ráðstefnu sem haldin var í Tallinn í Eistlandi. Sameiginlega átakið felst í því að haldnar hafa verið þrjár upplýsingaráðstefnur í Eystrasaltsríkjunum auk þess sem heimasíða átaksins var sett á laggirnar en þar koma fram viljayfirlýsingar jafnréttis-og dómsmálaráðherra landanna. Í hinu sameiginlega átaki felst einnig að hvert ríki efni til átaks í sínu landi þar sem áhersla er lögð á vandamálið eins og það horfir við í viðkomandi landi. Að öðru leyti líta þjóðirnar á átakið sem upphaf skipulagðrar samvinnu til langs tíma gegn verslun með konur.

Norræna ráðherranefndin ákvað í upphafi að styrkja verkefnið um 1.600.000 danskar krónur en síðan hefur verið bætt við þá upphæð. Ákveðið var að stærsti hlutinn færi í átak Eystrasaltsríkjanna og í sameiginlegar ráðstefnur sem haldnar yrðu í þeim löndum. Ljóst var að hvert Norðurlandanna yrði að fjármagna átak í eigin landi. Hér á landi hefur skipulagning verkefnisins verið sameiginlegt verkefni félagsmálaráðuneytis og dómsmálaráðuneytis, auk þess sem settur var á laggirnar undirbúningshópur ýmissa aðila til að undirbúa átakið hér á landi. Vil ég þakka þessum aðilum fyrir innlegg sitt til átaksins.

Helsta markmiðið með átakinu er að miðla upplýsingum til að efla vitund almennings um mansal og verslun með konur um allan heim. Mikilvægur hluti sameiginlega átaksins er að hafa hönd í bagga með og kynna starf sem þegar hefur verið unnið á þessu sviði og þekkingu og reynslu sem þegar er til staðar í löndunum.

Einnig má ekki gleyma mikilvægu sjónarhorni á verslun með konur sem er jafnréttissjónarmiðið. Hér á landi eru ný jafnréttislög og er nú jafnrétti betur tryggt á Íslandi með lögum en hjá öðrum þjóðum. Átak gegn verslun með konur er liður í jafnréttisbaráttu. Hluti af framkvæmdaáætlun um aðgerðir til að stuðla að jafnrétti kynjanna, sem Norðurlöndin hafa unnið eftir frá árinu 2001 er einmitt ætlað að fjalla um baráttu gegn verslun með konur.

Ég hef nýlega skipað samráðsnefnd um aðgerðir gegn ofbeldi gegn konum. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar dómsmála-, heilbrigðis- og menntamálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga auk fulltrúa félagsmálaráðuneytis sem er formaður hennar. Hlutverk nefndarinnar er að samhæfa aðgerðir stjórnvalda á ólíkum fagsviðum sem eru til þess fallnar að koma í veg fyrir ofbeldi gegn konum. Lagt verður fyrir nefndina að hafa yfirsýn yfir aðgerðir sem þegar hefur verið gripið til og vera til ráðuneytis um frekari úrbætur á þessu sviði. Enn fremur er nefndinni ætlað að skipuleggja herferðir og ef þurfa þykir framkvæmdaáætlanir sem hefðu það markmið að opna augu almennings fyrir ofbeldi gegn konum og því samfélagsböli sem af því leiðir. Ofbeldi gegn konum er staðreynd í öllum samfélögum og er mansal ein birtingamynd þess.

Það sem skiptir meginmáli og liggur öllu þessu að baki er það atriði að konur eru ekki vara sem má selja. Ekki hér á landi, hjá grannþjóðum okkar eða neins staðar í heiminum. Hér er um að ræða brot á grundvallarmannréttindum og þarf að vera vel á verði til að hindra að mansal nái fótfestu hér á landi. Er ráðstefna þessi liður í að opna umræður um þessi efni sem vonandi leiðir til þess að unnt verði að stemma stigu við mansali í framtíðinni.

Að endingu vil ég þakka þeim starfsmönnum félagsmálaráðuneytis og dóms- og kirkjumálaráðuneytis sem komu að undirbúningi þessarar myndarlegu ráðstefnu.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta