Hoppa yfir valmynd
08.09.1999 Matvælaráðuneytið

Ávarp á Venture Iceland ´99 - Fjárfestingaþingi, 8. september 1999


Ágætu gestir.
I.
Það er mér ánægja að fá tækifæri til að ávarpa hið árlega Fjárfestingarþing, Venture Iceland, sem er haldið í því skyni að auka áhættufé íslenskra fyrirtækja í hugbúnaðar- og hátækniiðnaði. Óhætt er að segja að vel hafi tekist til með fyrri þingin tvö, því að yfir helmingur þátttökufyrirtækja hefur fengið erlenda fjármögnun. Ef tekið er mið af þeim verkefnum sem hugbúnaðarfyrirtækin átta bjóða upp á hér í dag má fastlega búast við því að góður árangur náist einnig að þessu sinni og að nokkur þeirra verði valinn á fjárfestingarþing Evrópusambandins í Helsinki í nóvember. Útflutningsráð, Fjárfestingarstofan og Aflvaki eiga þakkir skildar fyrir það hve myndarlega hefur verið staðið að þessu þingi.
Mér finnst það mjög athyglisvert að fjárfestingarþingið beinir sjónum sínum að þessu sinni að innlendum fjárfestum. Þetta sýnir hvað áhættufjármagnsmarkaðurinn á Íslandi er orðinn öflugur. Stór hópur velmenntaðra og -þjálfaðra starfsmanna verðbréfafyrirtækja og sérhæfðra áhættufjármagnsfyrirtækja leita að hagstæðum fjárfestingartækifærum, ekki bara á hefðbundnum sviðum íslensks atvinnulífs heldur ekki síður í vaxtarbroddum sem við Íslendingar létum okkur fyrir örfáum árum aðeins dreyma um að gætu orðið að veruleika. En draumurinn hefur ræst. Það er enginn skortur á fjármagni ef frumkvöðull kemur með góða hugmynd. Það er heldur enginn skortur á góðum hugmyndum eins og hefur komið í ljós hér í dag.
II.
Það sem einkennir tíðaranda líðandi stundar eru hraðfara framfarir og umfram annað framfarir á sviði upplýsinga- og fjarskiptatækni. Við höfum orðið vitni að því - að fjarlægðir til nærliggjandi landa og viðskiptavina okkar verða smátt og smátt minni og minni - og í sumum tilfellum er ekki unnt að tala um fjarlægðir - þar sem hinn landfræðilegi veruleiki hefur í raun enga þýðingu lengur.
Það er athyglivert hversu vel okkur Íslendingum hefur tekist upp við hagnýtingu upplýsinga- og fjarskiptatækninnar. Það er ekki langt síðan að við vorum fremur aftarlega á merinni í alþjóðlegum samanburði á tæknistigi. Í því sambandi má hafa í huga að sú mikla uppbygging í atvinnulífi margra landa er tengdist rafeindatækninni fór að mestu leyti fram hjá okkur. Við vorum ekki undir hana búin - við höfðum ekki þá hvatningu sem til þurfti og við höfðum ekki þá tækniþekkingu sem rafeindaiðnaðurinn byggði á. Hefði jarðvegurinn verið annar er ekki ólíklegt að okkur hefði tekist að byggja hér upp smáiðnað í kringum rafeindatæknina miklu fyrr en síðar varð.
Með þetta í huga er árangur okkar í tengslum við hagnýtingu upplýsinga- og fjarskiptatækninnar með ólíkindum. Ég sá nýlega bandaríska könnun um notkun Netsins þar sem Norðurlöndin raða sér í fjögur efstu sætin um fjölda notenda á 100 þúsund íbúa, en Bandaríkin komu þar í fimmta sæti - en efst sat Ísland. Notkun Netsins finnst mér einkar áhugaverður mælikvarði sem gefi vísbendingu um þekkingarstig þjóðarinnar og þá möguleika sem við höfum til að nota upplýsinga- og fjarskiptatæknina til efnahagslegs ávinnings í framtíðinni.
III.
Upplýsingaiðnaður hefur vaxið gríðarlega á síðustu árum. Þar er hlutur hugbúnaðargerðar stór. Hugbúnaðargerð hefur nú skipað sér fastan sess sem ein af útflutningsgreinum þjóðarinnar á aðeins örfáum árum og nokkur íslensk hugbúnaðarfyrirtæki hafa náð umtalsverðum árangri í þróun sérlausna og sölu þeirra á erlendum mörkuðum. Seðlabankinn hefur metið að útflutningstekjur hugbúnaðariðnaðarins hafi verið tæpir tveir milljarðar á síðasta ári. Þetta er athyglisverður árangur, ekki hvað síst í ljósi þess að verkefni hér innanlands hafa verið ærinn og vinnuaflsskortur hefur háð greininni verulega. Útflutningur á hugviti byggist þó enn að mestu á útrás fárra fyrirtækja.
Upplýsingatæknin byggir á þekkingu og hugviti og munu þær þjóðir bera mest úr býtum sem standa fremst í því að nýta þann mannauð. Talið er að hugbúnaðargerð og reyndar upplýsingatækni almennt verði í enn ríkari mæli en nú er helsti vaxtarbroddur atvinnulífins. Ef rétt er að málum staðið höfum við mikla möguleika
· til að skapa öflugan þekkingariðnað,
· auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi og
· skapa áhugaverð hálaunastörf fyrir ungt fólk.
Helstu úrræði stjórnvalda til þess að bæta stöðu upplýsingatækniiðnaðar og samkeppnishæfni á alþjóðlegum markaði lúta að
· mikilvægum endurbótum á skattlagningu fyrirtækja,
· styrkingu menntakerfisins,
· áframhaldandi uppbyggingu grunnkerfis Landssímans,
· jafnræði í samkeppnisrekstri síma- og fjarskiptaþjónustu og
· sértækum stuðningsaðgerðum við útflutning upplýsingatækni.
Í niðurstöðum nefndar sem ég skipaði um stöðu hugbúnaðariðnaðarins og skilaði af sér í fyrra var megináherslan lögð á skattamál. Nefndin gerði það m.a. að tillögu sinni að fyrirtækjum verði, að danskri fyrirmynd, heimilaður sérstakur viðbótarfrádráttur frá skattstofni sem geti numið allt að helmingi þess kostnaðar sem þau hafa haft af rannsókna- og þróunarstarfi. Þetta væri gert í því skyni að hvetja fyrirtæki til stóraukins rannsókna- og þróunarstarfs.
Þá var lögð áhersla á umbreytingu hugverks í hlutafé. Aðilar sem búa yfir ákveðinni þekkingu og vilja stofna fyrirtæki um hugmyndina með öflun utanaðkomandi hlutafjár geta í mörgum tilfellum ekkert lagt til félagsins annað en þekkinguna sjálfa. Til að hugverkið verði tekið gilt sem hlutafé þarf að liggja fyrir sérfræðiskýrsla þar sem fram kemur að um fjárhagsleg verðmæti er að ræða, og mat á þeim. Hugmyndasmiðurinn þarf þá að leggja fram reikning vegna hugverksins sem hann leggur til sem hlutafé. Sú skattalega eignaaukning sem á sér stað þegar hugverkið verður að verðmætum í formi hlutafjár verður í dag skattskylt hjá hugmyndasmiðnum. Á móti kemur þó að bókfærður rekstrarkostnaður vegna vinnu við hugmyndina er frádráttarbær frá tekjum. Þetta skattalega óhagræði hefur latt frumkvöðla til að stofna fyrirtæki um þær hugmyndir og þekkingu sem þeir búa yfir og getur það eitt og sér orðið góðum hugmyndum að falli.
Tillögur nefndarinnar voru kynntar fjármálaráðuneytinu á síðasta ári. Þess ber hins vegar að geta að breytingar á skattareglum eru í eðli sínu flóknar og þurfa þar af leiðandi að eiga sér langan aðdraganda.
IV.
Góðir gestir.
Fjárfestingarþingið tengir saman fjárfesta og frumkvöðla. Eitt af meginviðfangsefnum ráðuneyta minna á síðustu árum hefur einmitt lotið að þessari tengingu, þ.e. annars vegar að skapa hagstæð skilyrði fyrir frumkvöðla til að ryðja sér braut í þekkingariðnaði og hins vegar að bæta umgjörð fjármagnsmarkaðarins með viðamiklum skipulagsumbótum.
Nú hefur ný ríkisstjórn tekið við. Áherslur hennar eru svipaðar. Mikið mun mæða á ráðuneytum iðnaðar og viðskipta í málum er snerta samkeppnishæfni atvinnulífsins. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að auka fjölbreytni atvinnulífs og útflutningsgreina, ekki síst með eflingu þeirra vaxtarsprota sem byggjast á menntun og þekkingu. Jafnframt er lögð áhersla á að örva starfsemi lítilla og meðalstórra fyrirtækja og styðja frumkvöðla í atvinnulífinu. Í sáttmálanum er sérstaklega vikið að því að settar verði skýrar reglur um vernd eignarréttar á einkaleyfum og hagnýtingu hugverka með það að markmiði að styrkja stöðu íslenskra frumkvöðla og hönnuða.
Fjárfestingarþingið sýnir svo ekki verður um villst hve langt við Íslendingar höfum náð á stuttum tíma. Innlendir fjárfestar eiga hér möguleika á að auka arðsemi sína með því að koma fyrr inn í fjárfestingarferlið og hugbúnaðarfyrirtækin eiga möguleika á að afla sér fjármagns innanlands áður en útrás hefst. Það er trú mín og vissa að íslensku hugbúnaðarfyrirtækjunum átta sem kynna viðskiptaáætlanir sínar hér í dag; Gagarín - Inn - HV Grettir HugNet - SmartKort Þróun - ZooM - og Origo, eiga eftir að geta sér gott orð og óska ég þeim alls hins besta. Ég þakka fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta