Hoppa yfir valmynd
09.09.2010 Matvælaráðuneytið

Inspired by Iceland

Það var mikiið í húfi hér um miðjan apríl síðastliðinn þegar gos hófst í Eyjafjallajökli og flugsamgöngur um alla Evrópu urðu fyrir miklum truflunum. Útlitið var sannarlega svart. Afpantanir og bókanastopp bentu til þess að við gætum orðið af milljarðatuga gjaldeyristekjum og sumarvertíðin í ferðamennsku gæti brugðist um allt land.

Hér var um fordæmislaust hættuástand að ræða. Árásin á tvíburaturnanna í New York árið 2001 olli miklum samdrætti í ferðamennsku og flugsamgöngum um allan heim. Þá var brugðist skjótt við á Íslandi og með samræmdu átaki tókst íslenskri ferðaþjónustu að halda sínum hlut. Nú var Ísland sjálft í brennideplinum og eldgos hér á landi orsök vandræða í alþjóðlegu flugi.

Við réðum ekki við að leiðrétta þá mynd sem dreginn var upp af ástandinu á fyrstu vikum gossins. Hamfarafréttamenn sendu dramatískar myndir út í heim af gossvæðinu og í fjölmiðlum voru þær tengdar við biðraðir strandaglópa á flugvölllum víða um heim. Í augum heimsins var Ísland lokað land og höfuðborgin þakin ösku.

Það kom ekki til greina annað en að snúa vörn í sókn og við settum okkur það markmið að leiðrétta ranghugmyndir um ástandið á Íslandi og viðhalda þeim ávinningi sem íslensk ferðaþjónusta hefur náð á þeim mörkuðum sem hún hefur helst lagt rækt við á liðnum árum. Skilaboðin voru skýr: Ísland er opið og vel tengt land og það hefur aldrei verið eins spennandi að heimsækja landið eins og nú í sumar.

Á undraskömmum tíma ákváðu ríkisstjórnin, Reykjavíkurborg, Íslandsstofa og um 80 ferðaþjónustufyrirtæki innan SAF með flugfélögin í fararbroddi að leggja saman í átakið Inspired by Iceland. Að því átaki hefur verið unnið af mikilli fagmennsku og dugnaði. Ekki má heldur gleyma því að ferðaþjónustufyrirtækin sjálf, sem fengu nýtt efni til þess að vinna með, lögðu sig fram hvert og eitt til þess að sannfæra viðskiptavini sína um að á Íslandi væru allir sem koma vildu velkomnir og öruggir. Og svo fengum við almenning í lið með okkur með að bjóða heim erlendum vinum, kunningjum og viðskiptafélögum og senda þeim hressilega Íslandslýsingu við lagið Jungle Drum . Okkar litla þjóð náði þannig til milljóna manna um allan heim.

Sjö hundruð milljónir króna eru vissulega miklir fjármunir. Þegar um það er að ræða að koma áleiðis skilaboðum í átta löndum þá nær þessi upphæð þó ekki langt. Þess vegna var áherslan lögð á nýjar leiðir, samfélagsmiðlana svokölluðu, beinar vefútsendingar frá Íslandi af tónlistarviðburðum og vinsælum ferðamannastöðum. Með þessu voru settar fram beinar sannanir á stöðu mála hér heima og þeim fylgt eftir með frásögnum ferðamanna og Íslandsvina. Þetta var síðan stutt með kynningarfundum erlendis, skipulögðum heimsóknum blaðamanna til Íslands, víðtækri almannatengslastarfsemi auk auglýsinga í blöðum, tímaritum og á fjölförnum stöðum í löndum átta.

Ég tel að við höfum lært mikið um alþjóðlegar vef- og samfélagsherferðir á þessu átaki. Það er reynsla sem við búum að og þurfum að nýta. Það er leið til beinni samskipta milli ferðaþjónustufyrirtækja og viðskiptavina en áður hefur tíðkast. Okkur hefur líka lærst að vinna saman. Samstaða ferðaþjónustufyrirtækja í þessu átaki hefur verið einstök og nú vitum við hvernig opinberir aðilar og einkaaðilar geta unnið saman að verkefnum af þessu tagi. Slíkt er ekkert einfalt mál og auðvitað rákumst við á erfiðleika í því samabandi, en miðað við þann ofurhraða sem þurfti að hafa á undirbúningi og framkvæmd Inspired by Iceland, verður ekki annað sagt en vel hafi tekist til.

Mér hefur þótt sérstaklega vænt um þetta samstarf og tel að það hafi skilað miklu betri árangri en ella.  Ég vil sjá þetta halda áfram.  Dínamíkin milli opinberra og einka aðila skilar okkur betri nýtingu fjármuna, skarpari fókus á verkefni og betri árangri.

Um árangur átaksins ætla ég ekki að fjölyrða hér. Í stuttu máli má segja að sumarið hafi bjargast og viðhorfin gagnvart ferðalögum til Íslands hafi breyst til hins betra eins og fram kemur hér á eftir. Auðvitað hefur ferðamennskan við suðurströndina orðið fyrir búsifjum. En sumarmánuðirnir þrír sýna aðeins lítillega fækkun ferðamanna til Íslands og kreditkortavelta erlendra ferðamanna það sem af er árinu er 10% umfram verðlagshækkanir. Flestir þeir markaðir sem við einbeittum okkur að sýna aukningu eða svipaða útkomu og í fyrra en breski markaðurinn gefur nokkuð eftir. Ráðstefnu- og hvataferðir hafa einnig raskast vegna gossins og þar þarf að gefa í. Sérstakar aðstæður í ferðum milli Evrópu og Ameríku hafa einnig gert það að verkum að mikil eftirspurn hefur verið hjá íslensku flugfélögunum og því ekki eins mikið rúm fyrir afsláttarfargjöld og verið hefur. Allt þetta þarf að greina og skoða og bregðast við og ætlunin er að gera vandaða skýrslu um Inspired átakið, sem við getum byggt framhaldið á.

Ég vil svo nefna hér í lokin að haldið hefur verið vel utan um fjármálin í þessu átaki. Áætlanir voru varfærnar, samningar hagstæðir og aðilar átaksins lögðu fram vinnu, búnað og aðstöðu. Enginn stjórnunarkostnaður fellur því á átakið sjálft og má meta það til verulegra fjármuna. Mestu skiptir þó að frá því að samningar voru gerðir fram að greiðslu reikninga  varð veruleg hækkun á gengi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum. Alllt þetta gerir þaðað verkum að átakið getur haldið áfram starfsemi fram að áramótum. Framkvæmdanefnd átaksins hefur ákveðið að því fé sem er til ráðstöfunar, 90-100 milljón króna,  verði varið til þess að framlengja  virkni á vef og samfélagsmiðlum til áramóta, efna til nýrra vefútsendinga, skipuleggja kynningarherferð um ráðstefnu- og hvatarferðir til íslands og efna til auglýsingaherferðar á vefnum í Bandaríkjunum og í Bretlandi.

Við getum dregið margvíslegan lærdóm af átakinu Inspired by Iceland og ég vona að þessi fundur verði okkur gott vegarnesti í þeim efnum. Ég vona að okkur lánist að halda samfellu í markaðssetningu Íslands, því mikilvægt er að við byggjum áfram á þessari fjáfestingu sem Inspired by Iceland er.  Kanski förum við að sjá slagorðin "Inspired by Icelandic winter" eða "Inspired by Icelandic Spa and Wellness" eða "Inspired by Icelandic literature", þegar bókamessan í Frankfurt verður á næsta ári.  Þessar vangaveltur eru ykkar verkefni í dag.  Takk fyrir að koma og fyrir ykkar framlag.

Sjáumst í Iðnó á eftir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum