Hoppa yfir valmynd
14.10.2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra við setningu Umhverfisþings 2011

Eftirfarandi ávarp flutti Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra við setningu sjöunda Umhverfisþings á Hótel Selfossi þann 14. október 2011.

Góðir gestir,

Velkomin á Umhverfisþing, sem nú er haldið í sjöunda sinn. Boðað er til umhverfisþings annað hvert ár sem er ein stærsta samkoma þeirra sem starfar að umhverfis- og náttúruverndarmálum á Íslandi. Það er gaman að sjá ykkur svo mörg hérna í ár – og sérstaklega gaman að geta boðið ykkur velkomin hingað á Hótel Selfoss en þetta er í fyrsta sinn sem umhverfisþing er haldið utan höfuðborgarsvæðisins.

Sérstaklega vil ég bjóða velkomna heiðursgest umhverfisþings. Ella Maria Bisschop-Larsen, velkomin! Ella Maria er formaður dönsku náttúruverndarsamtakanna, sem búa yfir mikilli reynslu og þekkingu – og ég býst við að Ella Maria geti miðlað okkur af þeim reynslubrunni hér á eftir.

Góðan anda í salnum má eflaust að einhverju leyti rekja til þess að Samband íslenskra sveitarfélaga ákvað að hita upp fyrir umhverfisþingið með hálfs dags ráðstefnu um sjálfbæra þróun í sveitarfélögum. Hún var haldin hér á Hótel Selfossi í gær og ku hafa tekist vel.

Á umhverfisþingi er ýmist fjallað sérstaklega um umhverfismál undir merkjum sjálfbærrar þróunar, eða náttúruverndarmál. Í dag munum við fjalla um náttúruvernd – og höfum í höndunum hvítbók um endurskoðun á náttúruverndarlögum, sem hægt er að nota sem útgangspunkt í umræðum hér í dag. Næstu sex vikurnar verður hvítbókin í umsagnarferli, þannig að ég hvet ykkur sem flest til að mynda ykkur skoðun og koma athugasemdum á framfæri í gegnum heimasíðu umhverfisráðuneytisins fyrir 1. desember næstkomandi. Það skiptir máli að fá sem flest sjónarmið og besta umræðu fram, því framundan er heildarendurskoðun á náttúruverndarlögum – þeim stóra og mikilvæga lagabálki.

Það er óhætt er að segja að náttúruvernd hefur vaxið ásmegin undanfarin ár. Þjóðfélagið er orðið móttækilegra fyrir umræðu um verndun náttúrunnar – eftir langa hríð þar sem orðræða nýtingar var allt of ráðandi. Við þurfum ekki að leita langt aftur í fortíðina – ekki lengra en inn í hið meinta góðæri – til að finna dæmi þess að oftrú á framkvæmdum og yfirgangur mannsins gagnvart náttúrunni réðu ríkjum. Auðvitað heyrast þessar raddir ennþá reglulega úr ýmsum geirum samfélagsins hjá þeim sem vilja einföld svör við flóknum spurningum, en jafnvægið hefur þó aukist – náttúran á orðið sífellt fleiri og öflugari málsvara. En það tekur tíma að snúa frá þessari hefðbundnu nálgun en til þess að tryggja í raun grænan vöxt, sjálfbærni og jafnrétti kynslóðanna verður að umgangast náttúruna af nærfærni, auðlindirnar af auðmýkt og taka ákvarðanir alltaf af ábyrgð gagnvart komandi kynslóðum.

Við sjáum því víða stað, að náttúruvernd er að þokast frá því að vera jaðarmál yfir í að vera það aðalmál sem henni ber. Málaflokkurinn vex ásmegin, fær meira rými í samfélagsumræðunni og skilningur eykst. Ég nefni hér þrjú sértæk dæmi:

- Dagur íslenskrar náttúru, 16. september, var haldinn í fyrsta sinn nú í haust. Það, hversu óhemjuvel dagurinn tókst, sýnir þennan meðbyr. Fjöldi fólks tók þátt í fjölbreyttri dagskrá – hvort sem það var almenningur, skólabörn, náttúrufræðingar, fjölmiðlar, háskólafólk, ráðamenn, sveitarstjórnarfólk og margskonar þátttakendur. Fyrsti dagur náttúrunnar gekk vel og við vonum að hann verði enn glæsilegri á næsta ári og nái að festast í sessi í huga þjóðarinnar.

- Í öðru lagi skilaði nefnd á vegum Alþingis nýverið skýrslu um eflingu græns hagkerfis, sem er gríðarmikilvægt verkfæri til að færa samfélagið nær sjálfbærni. Í skýrslunni eru tillögur að 48 aðgerðum, sem væru frábær skref í rétta átt, ef þau næðu þau öll fram að ganga. Grunnstef skýrslunnar er ljóst, sem og hið endanlega markmið: að við allar ákvarðanir sé litið til hagsmuna náttúru, umhverfis og komandi kynslóða, að efnahagslegur ávinningur og hagvöxtur sé ekki mælikvarði alls eins og viðtekið hefur verið til þessa. Hér er keppikeflið hreinlega að tryggja viðgang mannkyns til framtíðar – að skila afkomendum okkar samfélagi sem getur tryggt þeim sómasamlegt líf.

- Í þriðja lagi tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá okkar Íslendinga sem nú eru komnar í hendur Alþingis. Þar er margt gott að finna, en á þessari samkomu er rétt að nefna eina róttækustu breytinguna: Í tillögunum er kafli sem ber yfirskriftina “mannréttindi og náttúra” en í honum er gerð tillaga að fjórum greinum sem snúa að náttúru, auðlindum og dýravernd. Væri ekki gott að búa við stjórnarskrá þar sem sagt er: “Náttúra Íslands er undirstaða alls lífs í landinu. Öllum ber að virða hana og vernda.” Stjórnarskrá þar sem tekið er fram að hafa skuli sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi við nýtingu auðlinda? Stjórnarskrá þar sem stjórnvöldum er uppálagt að byggja á meginreglum umhverfisréttar við töku ákvarðana um náttúru Íslands og umhverfi?

Þessi þrjú dæmi sem ég hef nefnt hér tel ég til marks um jákvæða viðhorfsbreytingu sem hefur átt sér stað. Viðhorfsbreytingu, þar sem náttúran nýtur æ oftar sannmælis.

Þrátt fyrir þetta getum við ekki litið fram hjá því að náttúruvernd hefur lengst af verið vanrækt hér á landi. Þau stjórntæki sem til staðar eru hafa allt of oft reynst of veik eða jafnvel óvirk. Og komið hefur fyrir að þeim stjórntækjum hafi jafnvel ekki verið beitt sem þó hafa verið til staðar. Umgjörð náttúruverndar hefur lengi þurft að laga – en í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Vinstri grænna og Samfylkingar er því verkefni komið afdráttarlaust á dagskrá:

“Náttúruvernd verði hafin til vegs og staða hennar innan stjórnarráðsins styrkt til muna. Náttúruverndarlög verði endurskoðuð, verndarákvæði treyst og almannaréttur tryggður.”

Í samræmi við stefnuyfirlýsinguna skipaði ég nefnd til endurskoðunar á náttúruverndarlögum í nóvember 2009. Í nefndinni komu saman sérfræðingar á sviði náttúrufræða, stjórnsýslufræða og lögfræði, sem í nærri tvö ár unnu heildarúttekt á lagaumhverfi náttúruverndar hér á landi og þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem Íslendingar hafa undirgengist, auk þess að líta til lagaumhverfis nágrannaþjóða okkar. Þessari heildaryfirsýn skilaði nefndin nú í haustbyrjun í formi hvítbókar um náttúruvernd. Þetta er nýjung hér á landi, en algeng vinnubrögð víða í kringum okkur. Hvítbókin gefur okkur tækifæri til að gera feril ákvarðanatökunnar eins faglegan, upplýstan, vandaðan – já, og lýðræðislegan – og hugsast getur. Hér á eftir gefst tækifæri til að ræða hugsanlegar lagabreytingar út frá þessum grunni, og fram til 1. desember gefst öllum tækifæri til að gera athugasemdir við efni hvítbókarinnar á heimasíðu umhverfisráðuneytisins.

Ég er stolt af því að með náttúruvernd séum við að ryðja brautir í nýjum og vönduðum vinnubrögðum – vinnubrögðum sem við hljótum að vilja sjá miklu víðar og í fleiri málaflokkum við undirbúning löggjafar.

Hér síðar í dagskránni mun Aagot Óskarsdóttir, starfsmaður nefndarinnar og ritstjóri bókarinnar, gera betur grein fyrir efni hvítbókarinnar, og að þeirri kynningu lokinni verða heimskaffiumræður um hana. Í málstofunum eftir hádegi gefst svo enn tækifæri til að ræða afmarkaða hluta hvítbókarinnar. Ég hvet ykkur til að taka virkan þátt í þessum umræðum, en niðurstöður þeirra verða allar teknar saman og nýttar í stefnumótunarvinnuna sem framundan er.

Það eru ekki bara lögin um náttúruvernd sem eru í endurskoðun þessa dagana, heldur eru nokkrir sértækari lagabálkar á þessu málasviði í skoðun.

Um þessar mundir er starfandi á mínum vegum nefnd um lagalega stöðu villtra fugla og villtra spendýra, þ.m.t. sjávarspendýra. Nefndin hefur tvö meginmarkmið: Annars vegar að varpa skýru ljósi á lagalega stöðu dýranna í víðu samhengi m.t.t. verndunar þeirra og veiða, og hins vegar að leggja fram tillögur um lagalegar og stjórnsýslulegar úrbætur sem byggja á meginreglum umhverfisréttar, alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að og öðrum alþjóðlegum tilskipunum, reglum og viðmiðum er varða verndun villtra spendýra og fugla og æskilegt er að hafa til hliðsjónar hér á landi. Vinna nefndarinnar er langt komin en ekki hefur áður verið tekið saman jafn ítarlegt yfirlit um stöðu villtra fugla og spendýra á Íslandi m.t.t. verndar þeirrar og veiða. Er það viðbúið að vinnan geti gagnast mörgum, líkt og raunin er með hvítbók um náttúruvernd. Auk þess að gagnast við gerð nýrra laga um vernd, velferð og veiðar á villtum fuglum og spendýrum hefur yfirlitið almenna skírskotun sem nýst gæti við ýmiskonar stefnumótun yfirvalda og stofnana á sviði náttúru- og umhverfismála, auk mögulegrar notkunar við kennslu og til annarrar fræðimennsku á þessu sviði.

Þá vinnur umhverfisráðuneytið að endurskoðun tveggja mikilvægra lagabálka í samhengi náttúruverndar í landinu – skógræktar og landgræðslu.

Vistkerfum landsins hefur verið raskað og eytt gríðarlega á 1100 árum byggðar í landinu. Tölur um það eru sláandi og er jarðvegsrof talið eiga sér stað á um 40% landins. Gróðurríki er víða illa farið og stærstur hluti alls votlendis á láglendi hefur verið ræstur fram. Sem betur fer hefur mikið áunnist í því að auka skilning á þessum málum, stöðva þessa þróun og snúa til betri vegar, en hins vegar er enn afar margt ógert. Uppbygging og endurheimt vistkerfa landsins með skilvirkri landgræðslu mun áfram vera órjúfanlegur þáttur náttúruverndar.

Lagaumgjörð þessa starfs þarfnast sárlega endurskoðunar, enda eru skógræktarlögin frá 1955 og landgræðslulögin frá árinu 1965 og um margt úrelt. Lengi hefur verið kallað eftir endurskoðun þeirra. Ég skipaði því tvo vinnuhópa í apríl síðastliðnum til að hefja vinnu við endurskoðun laga um landgræðslu annars vegar og laga um skógrækt hins vegar. Báðir hóparnir fengu það verkefni að vinna greinargerð í hvítbókarformi með tillögum um hvað skuli vera inntak og áherslur nýrra laga um málaflokkana. Veit ég að báðir hóparnir starfa af krafti þessar vikurnar. Á grundvelli greinargerða hópanna er síðan stefnt að því semja frumvörp til nýrra laga um landgræðslu og nýrra laga um skógrækt en ég bind vonir við að þau frumvörp verði tilbúin fyrir lok árs 2012.

Það er afar mikilvægt að mínu mati að öll þessi vinna við endurskoðun laga fari fram samhliða endurskoðun náttúruverndarlaga, enda eru víða snertifletir – þessi lög varða öll íslenska náttúru með einhverjum hætti.

Góðir gestir,

Á þessu umhverfisþingi er við hæfi að rifja upp það sem hefur áunnist í náttúruverndarmálum.

Í því sambandi langar mig sérstaklega að nefna þann fjölda svæða sem friðlýst hafa verið undanfarna mánuði. Mér telst til að ellefu svæði hafi verið friðlýst það sem af er árinu – allt frá búsvæðum fugla í Andakíl til Viðeyjar í Þjórsá – frá Kalmannshelli til stórbrotins landslags í umhverfi Langasjávar. Meira er í deiglunni á þessu sviði. Sótt hefur verið um skráningu Torfajökulssvæðisins á heimsminjaskrá UNESCO, að tillögu umhverfis-, mennta- og menningarmálaráðherra. Þá er til skoðunar að friðlýsa svæði í kringum Látrabjarg og Rauðasand auk fjölda annarra verkefna sem eru í undirbúningi í samstarfi sveitarfélaga, Umhverfisstofnunar og ráðuneytisins.

Öll þessi friðlýsingarvinna byggir á nánu og góðu samstarfi á milli sveitarfélags og ríkis og endurspeglar aukna áherslu á náttúruvernd og friðlýsingar í Umhverfisstofnun og umhverfisráðuneytinu. Hversu vel hefur gengið að fjölga friðlýstum svæðum sýnir hversu vel þessi samvinna gengur, enda gera heimamenn sér oftar en ekki grein fyrir því hvaða möguleikar felast í því fyrir sveitarfélög að friðlýsa svæði. Vel heppnuð friðlýsing er ekki aðeins lyftistöng fyrir náttúrufar á svæðinu, landslag eða lífríki í samræmi við markmið um líffræðilega fjölbreytni og vistkerfisnálgun – heldur getur hún líka skipt miklu máli varðandi stýringu ferðamanna og skipulag ferðaþjónustu.

Þá er rétt að fagna því að Árósasamningurinn hafi loksins verið lögfestur á Alþingi. Það voru að sönnu tímamót en margir voru orðnir býsna langeygir eftir því að þessar mikilvægu reglur umhverfisréttar gengju í gildi hér á landi. Fyrr í vikunni fékk ég svo þau gleðilegu tíðindi að utanríkisráðuneytið væri búið að senda bréf um endanlega fullgildingu Árósasamningsins til fulltrúa okkar hjá Sameinuðu þjóðunum.

Að lokum vil ég minnast á rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða, sem markar tímamót í umgengni okkar um náttúruna. Í stað þess að deila um hverja einustu virkjunarhugmynd þegar hún kemur upp stefnir í að hægt verði að móta stefnu til lengri tíma, með heildarsýn ef vel tekst til. Faglega unnin og vönduð rammaáætlun er til þess fallin að skapa sátt í samfélaginu, þannig að ekki skipti lengur höfuðmáli hver lætur hæst.

Eins og ég vék að hér áður, þá er þetta annað umhverfisþingið sem ég býð til sem umhverfisráðherra. Fyrir síðasta þingi, sem haldið var haustið 2009, lágu drög að endurskoðun á stefnu stjórnvalda um sjálfbæra þróun, Velferð til framtíðar. Þar var efnt til umræðu í heimskaffi og gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum og tillögum í kjölfar þingsins. Þetta hlýtur að vera langbesta leiðin til að semja stefnu ríkisins í sjálfbærri þróun – lýðræðisleg aðferð, þar sem allir hópar þjóðfélagsins gátu haft rödd – virkni og aðkoma sem flestra var tryggð.

Á þinginu komu fram fjölmargar athugasemdir og ábendingar sem sumar skiluðu sér inn í stefnuna en öllum var þeim safnað saman og þær birtar í viðauka með Velferð til framtíðar. Þar er að finna mikinn hugmyndabanka sem nýtist bæði nú og í framtíðinni. Í júlí 2010 samþykkti ríkisstjórnin tillögu mína um Velferð til framtíðar, Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi, Áherslur 2010-2013, áherslur sem byggðu á því samráðsferli sem átti hápunkt sinn á umhverfisþingi. Tveimur köflum var þarna bætt við þau sautján markmið sem voru í upprunalegu stefnumörkuninni, annars vegar um sjálfbæra neyslu og framleiðslu og hins vegar um menntun til sjálfbærni. Síðara atriðið var sérstaklega mikið rætt á umhverfisþingi 2009 og ríkti mikill samhljómur um mikilvægi menntunar og fræðslu til að breyta viðhorfum í þjóðfélaginu. Nú á vordögum staðfesti mennta- og menningarmálaráðherra nýjar aðalnámskrár fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla, þar sem menntun til sjálfbærni er einn af lykilþáttunum.

Ég hef hér aðeins stiklað á stóru í því sem áunnist hefur í málaflokknum en fjölmargt fleira mætti nefna.

Hér á þinginu er sami háttur hafður á og er hvítbókin í brennidepli. Fyrir hádegishlé verða umræður í heimskaffi og eftir hádegi setjumst við í málstofur um afmarkaða hluta hennar. Þá er ein málstofa þar sem ungmennum í hópnum gefst tækifæri til að ræða stöðu mála – enda eru þau kynslóðin sem tekur við því verki sem við skilum af okkur. Langar mig sérstaklega að þakka þeim fulltrúum ungmennaráða víðs vegar að, sem hér eru staddir, sem og nemendum í Líf 113 við Fjölbrautaskóla Suðurlands, sem fjölmenna á þingið.

Ég vil hvetja ykkur öll til að taka virkan þátt í umræðunum hér á þinginu. Hér verður öllum hugmyndum haldið til haga og veitt inn í vinnuna sem framundan er. Þá bendi ég jafnframt á möguleika á að koma frekari athugasemdum og tillögum á framfæri á heimasíðu ráðuneytisins, til 1. desember.

Góðir gestir,

Með þessum orðum set ég þetta sjöunda umhverfisþing og fel þeim Kristveigu Sigurðardóttur, formanni stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs, og Leifi Haukssyni dagskrárgerðarmanni að stýra þinginu.

Takk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta