Hoppa yfir valmynd
01.11.2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Grein umhverfisráðherra Norðurlandanna í Fréttablaðinu - Norrænt átak gegn hormónatruflandi efnum

Eftirfarandi grein eftir umhverfisráðherranna Svandísi Svavarsdóttur (Íslandi)‚ Katrin Sjögren (Álandseyjum)‚ Ida Auken (Danmörku)‚ John Johannesen (Færeyjum)‚ Anthon Frederiksen (Grænlandi), Erik Solheim (Noregi), Lena Ek (Svíþjóð) og Ville Niinistö (Finnlandi) birtist í Fréttablaðinu 1. nóvember 2011.

Norrænt átak gegn hormónatruflandi efnum

Við‚ umhverfisráðherrar Norðurlanda‚ höfum ákveðið að ráðast í samstillt átak til að greina áhrif og  draga úr notkun efna sem geta valdið röskun á  hormónastarfsemi. Við munum beita okkur fyrir því að löggjöf ESB og alþjóðlegar reglur á þessu sviði verði efldar í því skyni að vernda neytendur. Einnig  viljum við skuldbinda fyrirtæki til að axla meiri ábyrgð en nú er með því að hætta notkun vafasamra efna‚ bæta upplýsingar til neytenda og leita nýrra valkosta í stað efna sem geta valdið röskun á  hormónastarfsemi.

Fyrir rúmum tuttugu árum gerðu vísindamenn sér grein fyrir að þalöt‚ PCB og önnur efni sem leynast í umhverfi okkar geta raskað hormónastarfsemi og haft áhrif á æxlunarhæfni manna og dýra. Gæði sæðisfruma hjá ungum körlum í Danmörku og Noregi eru einna lélegust í heimi. Tíðni krabbameins í brjóstum og eistum hefur aukist hvarvetna á Norðurlöndum á undanförnum tuttugu árum. Fyrir rúmum áratug kynnti Evrópusambandið áætlun um rannsóknir á og varúðarráðstafanir gagnvart hormónatruflandi efnum. Prófunaraðferðir hafa  verið þróaðar og sérstök ákvæði eru um hormónatruflandi efni í evrópskri löggjöf um efni og efnavöru (REACH) svo og löggjöf um snyrtivörur og varnarefni. En betur má ef duga skal. Aðgerða er þörf og Norðurlönd eru reiðubúin til að ryðja brautina hvort sem er heima fyrir‚ innan ESB eða á alþjóðavettvangi.

Margir gamlir skaðvaldar‚ þar á meðal DDT‚ PCB og díoxín‚ eru nú ýmist bannaðir eða dregið hefur verið úr notkun þeirra sökum þeirrar hættu sem steðjar að fólki og umhverfi. Endanlegu markmiði hefur þó ekki verið náð. Enn skortir viðmið fyrir efni sem talin eru hormónatruflandi og evrópska löggjöf á því sviði. Mikilvægt er að slík löggjöf feli í sér aðgerðir til að draga úr notkun hormónatruflandi efna. Á degi hverjum verðum við fyrir áhrifum margra mismunandi efna samtímis. Slík áhrif eru kölluð samverkandi áhrif eða kokteiláhrif og við þeim verður  sporna.

Fyrir skömmu greindi framkvæmdastjórn ESB frá stöðu mála hvað varðar framkvæmd áætlunar sambandsins um hormónatruflandi efni. Þess er vænst að framkvæmdastjórnin láti nú til skarar skríða og að samin verði viðmið fyrir hormónatruflandi efni og brugðist við samverkandi áhrifum hormónatruflandi efna á fullnægjandi hátt. 

Samhliða lagasmíð ESB er brýnt að höfða til ábyrgðar atvinnulífsins. Í efnaiðnaði hefur þegar verið hafist handa við að meta þá hættu sem stafar af efnum og efnavörum sem nú eru notuð en skriður komst á þau mál í kjölfar hinnar nýju ESB-löggjafar um efni og efnavörur (REACH). Samkvæmt lögunum er fyrirtækjum gert að tryggja ábyrga notkun á efnum og efnavörum og axla siðferðislega ábyrgð á framleiðslu sinni. Í því felst m.a. að kanna hvaða efni eru hormónatruflandi og hvernig draga má úr notkun þeirra – jafnvel þótt ganga þurfi lengra en löggjöfin kveður á um. Í þessu tilliti er einkum átt við efni í daglegum neysluvörum svo sem snyrtivörum‚ matvælum‚ vefnaði og leikföngum. Þá ber að herða kröfur um að efnaiðnaðurinn nýti sér nýjustu rannsóknir og prófunaraðferðir þegar áhrif efna og efnasambanda eru metin.

Fyrirtæki verða að leggja sitt af mörkum við að leita nýrra valkosta og þróa prófunaraðferðir‚ meðal annars með því að fjármagna rannsóknastarf. Ýmis norræn fyrirtæki eru farin að þróa örugga valkosti við þalöt svo dæmi sé nefnt. Þau eru á réttri leið en mun fleiri verða að feta í fótspor þeirra.

Þeir neytendur sem vilja sýna ábyrgð við innkaup geta stuðst við umhverfismerkingar á borð við Svaninn og Evrópublómið.

Á síðasta ári komst skriður á norrænt samstarf um þessi málefni. Í Danmörku hafa tvö tiltekin parabenefni og bísfenól-A verið bönnuð í vörum sem ætlaðar eru börnum yngri en þriggja ára. Um þessar mundir vinna Danir að tillögu um evrópskt bann við þalötum. Á vegum umhverfisyfirvalda í Svíþjóð fer fram rannsókn á bísfenól-A. Þar í landi er einnig í gildi fjögurra ára framkvæmdaáætlun þar sem lögð er áhersla á að forðast hormónatruflandi efni og er um 1‚8 milljarði íslenskra króna   varið í áætlunina. Norska umhverfisráðuneytið leggur til að bönnuð verði fjögur eiturefni í neysluvörum. Í Noregi hefur einnig verið stofnuð ný heimasíða (Erdetfarlig.no) en á síðunni má finna ráðgjöf um  hættuleg efni og öruggar afurðir. Samkvæmt finnska stjórnarsáttmálanum (frá 17. maí 2011) skal metið hvort nýjar áherslur kalli á frekari aðgerðir, þar á meðal samstarf um nanóefni og hormónatruflandi efni.

Á Íslandi hefur verið gefið út fræðsluefni um varasöm efni í neytendavörum og er það að finna á  vef Umhverfisstofnunar. Grænlendingar hyggjast grípa til ýmissa aðgerða til að leysa vanda af völdum hormónatruflandi efna‚ þar á meðal PCB. Með þessum aðgerðum stíga Norðurlönd fyrstu skref í þá átt að herða löggjöf heima fyrir sem og á vettvangi ESB.

Undir formennsku Svía í ESB síðari hluta árs 2009 ákváðu umhverfisráðherrar ESB-ríkjanna að beina sjónum sérstaklega að hormónatruflandi efnum og samverkandi áhrifum þeirra. Brýnt er að slaka ekki á taumunum. Saman viljum við vekja athygli stjórnmálamanna á skaðsemi hormónatruflandi efna og leggum jafnframt áherslu á að stöðugt verði dregið úr notkun þeirra. Brýnt er að vernda líffræðilega fjölbreytni og frjósemi manna og dýra. Þannig stöndum við vörð um viðkvæm vistkerfi okkar – líf barna okkar og barnabarna er í húfi.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta