Hoppa yfir valmynd
26.01.2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Grein umhverfisráðherra í Fréttablaðinu - Ný byggingarreglugerð markar tímamót

Eftirfarandi grein Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra um útgáfu nýrrar byggingarreglugerðar birtist í Fréttablaðinu 26. janúar 2012.

 

Ný byggingarreglugerð sem  hefur litið dagsins ljós er sérlega yfirgripsmikil og tekur til fjölda atriða sem snerta daglegt líf og aðbúnað almennings.

Ýmis nýmæli eru í nýju reglugerðinni, s.s. aukin áhersla á aðgengismál. Þar er stuðst við svokallaða algilda hönnun, sem gerir ráð fyrir að mannvirki séu þannig úr garði gerð að þau henti öllum – ekki aðeins þeim sem hafa  fulla heilsu. Áætlað er að minnst tíu prósent íbúa landsins búi við varanlega hreyfihömlun eða annars konar fötlun og auk þess hefur fjöldi fólks skerta hreyfigetu vegna aldurs eða tímabundinna aðstæðna. Sérstaklega skal taka tillit til þessa við hönnun mannvirkja samkvæmt reglugerðinni.

Þá eru auknar kröfur um sjálfbærni í mannvirkjagerð , t.d. um einangrun, flokkun byggingarúrgangs, endingu og um að umhverfisáhrifum byggingarinnar sé haldið í lágmarki. Betri orkunýting er einnig sett á oddinn, sem er mikilvægt neytendamál, því  þótt Íslendingar hafi löngum státað af ódýrri og endurnýjanlegri orku er ljóst að orkuverð fer hækkandi.

Neytendavernd er reyndar almennt gert hátt undir höfði  því lögð er áhersla á að standa vörð um verðmætar eignir almenningsmeð því að stuðla að endingu og hagkvæmni. M.a. er gert ráð fyrir markvissara og samræmdara eftirliti í mannvirkjagerð en áður. Þannig eru líkur auknar á því að ný hús uppfylli væntingar kaupenda og dregið úr hættu á göllum. Innleiðing gæðastjórnunarkerfa í starfsemi byggingarstjóra, hönnuða og iðnmeistara þjóna sama markmiði. Ákvæði sem snerta þessa þætti eiga jafnframt að leiða til sparnaðar.

Öryggiskröfur eru auknar í nýju reglugerðinni, ekki síst hvað varðar öryggi barna. Sérstakur kafli er um hollustu, heilsu og umhverfi – þar sem m.a. er tekið á raka í húsum. Þá eru kröfur um hljóðvist auknar til muna, með sérstakri áherslu á skóla og aðra staði þar sem börn dvelja og einnig á sjúkrahús.

Byggingarreglugerð er dæmi um regluverk sem fæst okkar þurfa að eiga við dags daglega, en hún er gríðarlega mikilvæg, því þar eru settar línurnar fyrir megnið af því manngerða umhverfi sem við verjum tíma okkar í. Miklu skiptir að þetta umhverfi sé sem best úr garði gert. Nýja reglugerðin er stórt skref fram á við sem mun bæta lífsskilyrði almennings til muna.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta